Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, lagði til að Guðmundur Ari Sigurjónsson yrði kjörinn þingflokksformaður og var tillagan samþykkt af þingflokknum.
Margir bjuggust við því að Dagur fengi ábyrgðarstöðu í þingflokknum en af því verður ekki. Sjálfur lýsti Dagur því í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði verið tilbúinn að takast á við verkefnið og hafi alveg eins átt von á því að fá það í hendurnar. En allt kom fyrir ekki.
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins virðist hafa gaman af þessu og segir í pistli sínum í dag:
„Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar ætlar ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson, þingmann flokksins og fyrrverandi borgarstjóra.“
Höfundur rifjar svo upp þegar Kristrún sendi skilaboð til mögulegs kjósanda flokksins þess efnis að Dagur yrði ekki ráðherra og það væri hægt að strika hann út ef kjósendur flokksins vildu hann ekki á þing.
„Dagur var í framhaldinu strikaður svo hressilega út að hann lækkaði um sæti á lista flokksins,“ segir staksteinahöfundur sem heldur áfram:
„Þá kom að ráðherravali og þar hafði Kristrún þrjá stóla að bjóða Degi, en hann fékk engan. Í að minnsta kosti tvo stólanna voru settir þingmenn sem augljóslega hafa minni reynslu en Dagur og útilokað er fyrir formann flokks að segja að séu hæfari, nema Dagur sé alveg ónothæfur að mati formannsins.“
Hann segir að lokum að loks hafi fengist tækifæri til að bæta hlut Dags og velja hann sem þingflokksformann.
„En þá fékk hann aftur skilaboð frá formanninum sem valdi mann með augljóslega minni reynslu en fyrrverandi borgarstjóri og fyrrverandi varaformaður flokksins. Dagur segir að hann hefði verið tilbúinn að taka að sér þingflokksformennskuna, en Kristrún var ekki tilbúin. Hvað næst? hlýtur Dagur að spyrja sig.“