fbpx
Miðvikudagur 07.janúar 2026
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Trump byltingin og planið

Eyjan
Miðvikudaginn 1. janúar 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Liðið ár var sannarlega ár mestu pólitísku breytinga í innanlandsmálum frá hruni. Í alþjóðlegu umhverfi Íslands varð svo einhver afdrifaríkasta bylting síðan Berlínarmúrinn féll.

Bylting Trumps í því alþjóðlega umhverfi, sem Ísland hefur lengi verið hluti af, veikti öryggi landsins og gróf undan samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Á þessu ári mun byltingin í stofnanakerfi vestrænna þjóða halda áfram. Öryggi Íslands til lengri tíma og framtíðar efnahagur landsins ræðst af því hvernig ríkisstjórn nýs flokkakerfis tekst á við þessa byltingu á næstu mánuðum.

Planið

Plan ríkisstjórnarinnar var um flest skynsamlegt og hefur gengið eftir að miklu leyti. Stefnubreyting í ríkisfjármálum, orkumálum, dómsmálum, atvinnumálum og málum þeirra sem lakast eru settir hefur tekist vel. Verðbólguplanið hefur hins vegar gengið hægar en ráðgert var.

Miðflokkurinn hefur náð góðum árangri með skýrum valkosti við frjálslynda miðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Hann er reistur á innflutningi á þeim öfgafulla þjóðernispopúlisma, sem nú blómstrar í stjórnarandstöðunni í Þýskalandi og í ríkisstjórn Trumps í Bandaríkjunum.

Móthaldið við ríkisstjórnina einkennist að sama skapi af endalausum upphlaupum, rangtúlkunum og útúrsnúningum þar sem úlfaldar eru gerðir úr mýflugum.

Á hinn bóginn virðast Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ekki hafa náð að laga sig að nýju flokkakerfi og þeirri byltingu í alþjóðamálum, sem ráða mun meir um vöxt og viðgang þjóðarbúsins á komandi tíð en okkar eigin ákvarðanir.

Hættan

Plan ríkisstjórnarinnar var lagt fyrir Trump byltinguna. Í því liggur ákveðin hætta fyrir ríkisstjórnarflokkana þrjá.

Á undangengnum árum hafa orðið margvíslegar breytingar í því alþjóðlega umhverfi, sem er undirstaðan í þjóðarbúskapnum og haldreipið fyrir öryggi landsmanna.

Planið tók mið af þessu og gerði ráð fyrir ákveðnum og markvissum breytingum. Sumar þeirra eru komnar í framkvæmd en aðrar bíða eins og ákvörðun þjóðarinnar um hvort ljúka eigi viðræðum um lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu. Þar vantar dagsetningu.

Ákvörðun þjóðarinnar um þetta efni mun hafa afgerandi þýðingu fyrir samkeppnisstöðu Íslands. Þegar planið var lagt fannst mér ekki endilega liggja mikið á. Trump-byltingin hefur breytt því mati.

Bandaríkin hafa lagt 15% toll á Ísland. Við stöndum utan tollabandalags í alheims tollastríði. Og öryggi landsins er meiri óvissu undirorpið en áður.

Ef plan ríkisstjórnarinnar um stöðugleika og sterkari samkeppnisstöðu á að ganga upp þarf hún að fela þjóðinni að taka ákvörðun um að ljúka aðildarviðræðum fyrr en seinna.

Lag

Það er lag fyrir ríkisstjórnarflokkana þrjá núna. Miðflokkurinn er kominn með skýrt plan um einangrunarhyggju og tollverndarstefnu.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn geta ekki gert upp við sig hvar þeir ætla að staðsetja sig. Þeir hafa ekkert annað plan en óbreytt ástand. Það þýðir verri samkeppnisstöðu til frambúðar með brothættari efnahag.

Í þessu samhengi er athyglisvert að samtök í bresku atvinnulífi hafa nýlega sent tillögur til bresku ríkisstjórnarinnar um að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins þegar í stað með nýjum samningum við Evrópusambandið. Í raun fela tillögurnar í sér jafngildi fullrar aðildar.

Breskir verkalýðsforingjar leggja líka að ríkistjórninni að útiloka ekki aðild að tollabandalagi Evrópu.

Greinilegt er að byltingin í alþjóðaumhverfinu hefur víða leitt til umræðu um skjótar aðgerðir í alþjóðasamstarfi til að styrkja samkeppnisstöðuna.

Aðlögun

Það er mikið í húfi.

Morgunblaðið hefur haldið því fram frá byrjun að forysta Samfylkingar sé ekki á sömu blaðsíðu í Evrópumálum og landsfundur flokksins.

Fátt hefur að vísu komið fram, sem rennir stoðum undir þessa kenningu. En svo virðist sem ýmsir telji þó að einmitt þar sé helst að finna lag til að reka fleyg í stjórnarsamstarfið.

Afleiðingarnar yrðu ekki gæfulegar fyrir íslenskt atvinnulíf. Hinn kosturinn er nefnilega einangrunarstefna ríkisstjórnar Miðflokksins.

Í byrjun þessa árs blasir því við að ríkisstjórnin þarf að hafa hraðar hendur og laga planið að þeim algjörlega nýju aðstæðum, sem Trump byltingin hefur leitt til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Ramakvein bílaleiguforstjóra

Svarthöfði skrifar: Ramakvein bílaleiguforstjóra
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Víðsýn og frjálslynd hugsun endurvakin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Víðsýn og frjálslynd hugsun endurvakin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok
EyjanFastir pennar
05.12.2025

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande
EyjanFastir pennar
04.12.2025

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda
EyjanFastir pennar
04.12.2025
Reiði skólameistarinn
EyjanFastir pennar
29.11.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði
EyjanFastir pennar
29.11.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu