fbpx
Fimmtudagur 16.október 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar

Eyjan
Fimmtudaginn 28. ágúst 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir kosningar mun forsætisráðherra einhverju sinni hafa talað um að nota sleggju til að ná verðbólgu niður.

Þegar Seðlabankinn ákvað á dögunum að halda stýrivöxtum óbreyttum fannst leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna sem þeir hefðu komist í feitt eftir þunnildi sumarmálþófsins.

Þeir hæddust að ríkisstjórninni og sögðu hana hafa notað gúmmísleggju.

Eru háðsglósurnar réttmætar? Eða eru þær framhald af þunnildispólitíkinni?

Hagvöxtur

Á síðasta ári varð samdráttur í þjóðarbúskapnum. Pólitíska ábyrgðin á þeim umskiptum hvílir eðli máls samkvæmt á gömlu ríkisstjórninni.

Á þessu ári hefur hins vegar verið góður hagvöxtur. Það kann að skýra að einhverjum hluta lítið eitt meiri verðbólgu en ætlað var. Nýja ríkisstjórnin á ekki allan heiðurinn af þessum efnahagslega árangri. Að hluta liggja ræturnar í ákvörðunum, sem teknar voru fyrir áramót.

Af sjálfu leiðir að ábyrgðin á verðbólguáhrifum hagvaxtarins skiptist milli gömlu stjórnarinnar og þeirrar nýju.

Ríkisfjármál

Halli á fjárlögum getur líka verið sjálfstæð uppspretta verðbólgu. Í því samhengi er ekki unnt að horfa fram hjá því að fjárlög þessa árs voru samþykkt fyrir áramót.

Að svo miklu leyti sem gildandi fjárlög eru verðbólguvaldur liggur ábyrgðin alfarið hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Nýja ríkisstjórnin ber á hinn bóginn fulla ábyrgð á fjármálaáætlun til fimm ára, sem tekur gildi um næstu áramót. Þar er gert ráð fyrir umtalsvert meira aðhaldi en fólst í fjármálaáætlun gömlu ríkisstjórnarinnar.

Í þessu ljósi gæti einhver sagt að gamla ríkisstjórnin bæri alla ábyrgð á hugsanlegum verðbólguáhrifum ríkisfjármálanna á þessum tímapunkti. En kannski er þó sanngjarnt að skipta ábyrgðinni jafnt.

Laun

Helsta efnisatriðið sem talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa nefnt sem orsök verðbólgunnar er sú staðhæfing þeirra að laun séu allt of há.

Nýja ríkisstjórnin hækkaði laun kennara fyrr á árinu í samræmi við gamalt loforð í eldri kjarasamningi, sem fyrri ríkisstjórnin hafði ítrekað svikið.

Ósennilegt er að þessi ákvörðun hafi haft teljandi verðbólguáhrif enn sem komið er. En ábyrgðin er vitaskuld nýju ríkisstjórnarinnar.

Sérstök hagfræði

Að svo miklu leyti sem laun eru uppspretta þeirrar verðbólgu, sem við glímum við á þessu hausti, skrifast það fyrst og fremst á reikning kjarasamninga síðustu ára.

Í öllum þeim samningum sögðu atvinnurekendur þjóðinni að þeir hefðu samið innan þjóðhagslegra marka þótt sá bogi hafi verið spenntur til hins ítrasta í hvert sinn.

En gamla ríkisstjórnin taldi jafnan nauðsynlegt að bæta um betur í þríhliða samningum við aðila vinnumarkaðarins með auknum tilfærsluútgjöldum ríkissjóðs og umfangsmiklum skattalækkunum.

Þessi sérkennilega ríkisfjármálahagfræði jók hallann og kynti undir verðbólgu svo um munaði. Þótt nýja ríkisstjórnin þurfi að leysa vandann liggur ábyrgðin alfarið á herðum gömlu stjórnarinnar.

Húsnæðismarkaður

Fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að óstöðugleiki á húsnæðismarkaði sé megin orsök þeirrar verðbólgu, sem við glímum við um þessar mundir.

Gamla ríkisstjórnin var líka þessarar skoðunar. Hún gaf út margar yfirlýsingar um umbætur. En þær skiluðu ekki nægjanlegum árangri. Vandinn er enn til staðar.

Það verður prófsteinn á nýju ríkisstjórnina hvernig hún tekst á við þetta verkefni. En húsnæðisverðbólgan í dag er sannarlega arfleifð gömlu stjórnarinnar.

Þunnildispólitík

Að öllu þessu virtu er rétt að skoða hvort málefnaleg innistæða hafi verið fyrir háðsglósunum um gúmmísleggjuna.

Hver dæmir fyrir sig. En í mínum huga er nær lagi að flokka þær sem sleggjudóma.

Þeir eru svo ávísun á áframhaldandi þunnildispólitík eins og í sumarmálþófinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Þykir engum vænt um Stefán Einar og Morgunblaðið?

Svarthöfði skrifar: Þykir engum vænt um Stefán Einar og Morgunblaðið?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Veisla hjá Viðreisn

Thomas Möller skrifar: Veisla hjá Viðreisn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flækjusaga af rugluðu regluverki

Sigmundur Ernir skrifar: Flækjusaga af rugluðu regluverki
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús
EyjanFastir pennar
14.09.2025

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans