Nýlega kom fram að Ísland er eitt af dýrustu löndum heims. Þetta verða erlendir ferðamenn varir við á ferðum sínum um landið. Þeir gera því ráð fyrir að svona dýrt land veiti fyrsta flokks þjónustu, bjóði hæstu gæði á gistingu og mat. Auk þess gera þeir kröfu um að umhverfið og ekki síst umgengni okkar sjálfra um landið sé með besta móti.
En er það svo? Skoðum það nánar.
Sem leiðsögumaður fæ ég í samtölum mínum við ferðafólkið milliliðalaust að heyra hvað það er sem þeim líkar við, en einnig hvað þau eru óánægð með.
Forsvarsmenn ferðamála á Íslandi hefðu gott af því að starfa sem leiðsögumenn af og til og fá þannig að heyra álit ferðafólksins. Það er ekki nóg að skoða kannanir, tölfræði og umsagnir ferðafólksins. Best er að tala beint við ferðafólkið sem heimsækir landið okkar.
Það sem ferðamenn sem ég hef rætt við dásama einna mest er hin nánast ósnortna og einstaka náttúra sem þeir eru margir hverjir að upplifa í fyrsta sinn á ævinni.
Þeir verða bókstaflega orðlausir þegar þeir ganga á bak við Seljalandsfoss, sjá litadýrðina í Landmannalaugum og fegurðina í Þórsmörk, ísmolana á ströndinni við Jökulsárlón og upplifa nálægðina við fuglana á Arnarstapa og selina á Ytri-Tungu. Ég sé oft tár á hvarmi þegar þeir ganga á Helgafell við Stykkishólm og fara með þrjár óskir í algjörri þögn,
Einnig verð ég áþreifanlega var við hrifningu ferðafólksins við að sjá Strokk í Haukadal gjósa, ganga um Almannagjá milli Evrópuflekans og Ameríkuflekans og fá á sig úðann frá Gullfossi svo nokkur dæmi séu nefnd.
Látrabjargið með sína fimm milljón fugla í 440 metra háu bjarginu (um sjö sinnum Hallgrímskirkja!) og Hornstrandir með villta refi á hverju strái er líka einstök upplifun í huga ferðafólksins.
Það sem kemur ferðamönnum einnig á óvart eru öll þau gæðahótel, einstöku veitingastaðir og frábæru kaffihús sem er nú að finna hringinn í kringum landið. Nægir þar að nefna Stykkishólm, Arnarstapa, Búðir, Borgarfjörð, Vestmannaeyjar, Húsavík, Siglufjörð, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Eskifjörð og Egilsstaði sem dæmi. Svo er eitt besta kaffihús landsins að finna á Grundarfirði!.
Fram undan eru bjartir tímar í ferðaþjónustunni.
Í byggingu eru ný hótel, heilsulindir og veitingastaðir á öllu landinu sem flest öll eiga að uppfylla háa gæðastaðla. Göngustígar eru gerðir víða og nægir að nefna Stuðlagil og Geysissvæðið sem dæmi um slíkt. Skipulagning ferða um landið og landkynning hefur batnað á síðustu árum.
En það er margt sem ferðafólkið er ósátt við.
Í fyrsta lagi er það verðlagið á mat, gistingu, bílaleigubílum, áfengum drykkjum og bílastæðum! Orsakanna er að leita meðal annars í stuttu háannatímabili víða um land, sköttum og tollum á mat og víni og bjór en einnig hefur styrking krónunnar valdið miklu tjóni hjá ferðaþjónustunni sem nemur tugum milljarða króna á þessu ári sem kemur fram í hækkuðu verðlagi til ferðafólksins.
Mikið er kvartað undan vegakerfinu og slæmu ástandi þess. Leiðin frá Borgarnesi að Vegamótum er eins og að vera í rússíbana í Tívolí svo eitt slæmt dæmi sé nefnt. Sama gildir um marga vegaspotta um land allt og er augljóst að stjórnvöld síðustu árin hafa sofið á verðinum! Vonandi tekur nýja ríkisstjórnin á þessari vanrækslu.
Margir kvarta undan þrengslum við Gullfoss, Geysi og Þingvelli á háannatímum. Búast má við að þetta lagist með betri göngustígum og betri stýringu þannig að koma langferðabíla dreifist betur yfir daginn.
Það sem ferðamennirnir eru hvað ósáttastir við er ástand salernismála á mörgum ferðamannastöðum. Langar biðraðir og léleg gæði salernisaðstöðu veldur miklum pirringi enda er hér um að ræða eina af grunnþörfum alls fólks. Auðvelt ætti að vera að bæta úr þessu með stöðluðum einingum sem væri hægt að setja upp víða um land.
Það sem vekur mikla furðu ferðamanna er draslið og bílhræin sem víða sjást meðfram vegum landsins. Þetta er okkur til háborinnar skammar og verður að laga strax.
Einn þeirra spurði mig af hverju okkur þætti svona vænt um bílhræ og af hverju við værum að misnota landið (hann notaði enska orðið „abuse“) og misbjóða ferðamönnum með því að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að hafa ónýta bíla og vinnuvélar, ryðgaða gáma og hrúgur af plasti meðfram vegum landsins.
Einn ferðamannanna sagði mér að slík sjónmengun væri algjörlega bönnuð í Norður Evrópulöndum. Það er í raun furðulegt að heilbrigðisyfirvöld skuli leyfa svona umgengni um landið okkar.
Sem dæmi má nefna að fyrir sunnan Hvalfjarðargöng er verktaki með um 200 bílhræ og ónýtar vinnuvélar. Hinum megin við veginn eru svo geymdir ryðgaðir gámar og bílhræ. Þegar ég ek fram hjá svona stöðum læt ég ferðafólkið líta í hina áttina og lýsi einhverju þar.
Svipaða sjón er að sjá víða á landinu meðfram þjóðvegum og í þéttbýli.
Þessi ósiður dregur okkar fallega og dýra land niður í einnar stjörnu áfangastað.
Ég hvet yfirvöld til að taka til hendinni og banna slíka misnotkun á landinu okkar.
Miðað við verðlagið á Íslandi ætti landið okkar að vera eins og fimm stjörnu hótel. Það þýðir að við verðum að gera þjóðarátak í salernismálum, vegamálum og tiltekt meðfram vegum landsins. Flóknara er það ekki. Aðeins þannig getum við státað okkur af fimm stjörnu ferðamannalandi.
Ferðaþjónustan er nú orðin stærsta atvinnugrein landsins sem skilar um 37% allra gjaldeyristekna okkar. Hún er í raun hin eina sanna undirstöðuatvinnugrein sem oft hefur verið talað um. Starfsfólk í ferðaþjónustu nálgast 35 þúsund og hlutur hennar í þjóðarframleiðslunni er um 50% stærri en sjávarútvegsins alls.
Því hvet ég stjórnvöld og sveitarfélög landsins til að taka til hendinni og gera landið okkar að alvöru fimm stjörnu áfangastað.