Eftir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor gæti Sjálfstæðisflokkurinn endað valdalaus í minnihluta í nær öllum helstu sveitarfélögum landsins ef úrslitin verða eitthvað í námunda við þær skoðanakannanir sem birtar hafa verið í sumar.
Orðið á götunni er að núverandi ríkisstjórnarflokkar gætu fengið meirihluta í öllum stærri sveitarfélögum landsins, að Garðabæ einum undanskildum. Þá er um að ræða Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð, Akureyri, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og Árborg. Íbúafjöldi þessara sveitarfélaga er 280 þúsund manns eða 72 prósent landsmanna.
Í nýjustu Gallupkönnun mælist Samfylkingin með 40 prósent fylgi bæði í Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur. Viðreisn er einnig með vænlegt fylgi þar.
Víða úti á landi mælast stjórnarflokkarnir einnig með mikið fylgi. Í könnun Gallups vakti mikla athygli að fylgi Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandi reyndist einungis vera 8,8 prósent – sem varla getur talist uppörvandi fyrir varaformann flokksins!
Nú eru átta mánuðir til sveitarstjórnarkosninga og tíminn er fljótur að líða. Orðið á götunni er að haldi stjórnarandstaðan uppteknum hætti málþófs og fíflagangs í þinginu á komandi þingvetri þá geti þetta hæglega orðið raunin.
Verði Sjálfstæðisflokkurinn einnig nær valdalaus á sveitarstjórnarstiginu þá vaknar spurningin um forystu flokksins og þolinmæði þeirra flokksmanna sem eftir eru.
Orðið á götunni er að slík staða gæti orðið upphafið að endinum hjá flokknum sem að óbreyttu verður aldargamall árið 2029.