Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti grein í Morgunblaðinu í vikunni þar sem hann segir Ísland ekki eiga að íhuga aðild að ESB. Tínir hann til ótal ástæður sem hann segir styðja þessa skoðun. Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni svaraði Sigurði Kára mjög vel með grein á visir.is. Dregur hann fram ónákvæmni, rangfærslur og hreinar blekkingar sem fram koma í grein Sigurðar Kára.
Grein Sigurðar Kára er augljóst dæmi um hræðsluáróður gegn aðild Íslands að ESB. Málflutningur af þessu tagi er áberandi hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar, ekki hvað síst Sjálfstæðis- og Miðflokksmönnum, auk þess sem mjög kveður við sama tón í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins.
Í greininni gerir Sigurður Kári m.a. samanburð á Íslandi og ESB og telur Ísland hafa þar vinninginn. Hann segir hagvöxt hér á landi hafa verið „mun meiri en hjá ESB-ríkjum eftir að aðildarviðræðum var hætt.“ Þetta stenst ekki alveg skoðun. Í fyrsta lagi er hagvöxtur mjög mismunandi í mismunandi ESB ríkjum en einnig hefur hagvöxtur á Íslandi verið mjög drifinn af fólksfjölgun, m.ö.o. hefur hagvöxtur á mann verið með því lægsta sem þekkist innan OECD á umræddu tímabili.
Þá segir þingmaðurinn fyrrverandi kaupmáttarvöxt hér á landi hafa verið „mun meiri en innan ESB frá sama tíma.“ Það er með kaupmáttinn eins og hagvöxtinn að það skiptir máli hvernig hann er mældur. Ef horft er til kaupmáttar, ekki aðeins eftir skatta, heldur eftir skatta og húsnæðiskostnað, breytist myndin Íslandi í óhag og þegar horft er til vöruverðs dökknar myndin enn. Sérstaklega hefur gefið á bátinn í þessum efnum í tíð vinstristjórnar Sjálfstæðisflokksins, VG og Framsóknar 2017-2024.
Þá ber Sigurður Kári saman vöxt landsframleiðslu í ESB, Bandaríkjunum og Íslandi. Hann segir landsframleiðslu hafa aukist um 15 prósent í ESB, 35-40 prósent í Bandaríkjunum og 50 prósent á Íslandi. Landsframleiðsla er hins vegar mæld í gjaldmiðli hverrar þjóðar þannig að svona samanburður er mjög varhugaverður. Sem dæmi má nefna að í hruninu minnkaði landsframleiðsla Íslands um 10-15 prósent mælt í íslenskum krónum. En þegar tekið var tillit til 50 prósenta lækkunar krónunnar minnkaði landsframleiðsla í raun um meira en 60 prósent í hörðum gjaldmiðlum á borð við evru og Bandaríkjadal.
Sigurður Kári segir Ísland þurfa að „sýna eftirgjöf í sjávarútvegs- og orkumálum gagnvart kröfum annarra ríkja.“ Þetta er beinlínis rangt hjá þingmanninum fyrrverandi. Það hefur alltaf legið fyrir að ný aðildarríki ESB geta samið um varanlegar sérlausnir um sína grundvallarhagsmuni. Sem dæmi má nefna að Malta fékk sérlausn í sjávarútvegsmálum við inngöngu. Finnland fékk og Svíþjóð fengu sérlausn í landbúnaðarmálum vegna þess hve norðarlega þessi lönd eru. Þarna eru fordæmi sem mögulega geta nýst Íslandi óbreytt eða lítillega aðlöguð. Þá er engin hætta á að skip frá öðrum ríkjum ESB fari að veiða fiskinn í sjónum við Íslands. Einungis þjóðir með veiðireynslu síðustu átta árin fá að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu og síðustu 50 árin hafa ekki önnur skip en íslensk stundað veiðar hér við land.
Þá telur lögmaðurinn að vegna þess hve Ísland er ríkt land sé einsýnt að við myndum þurfa að leggja meira til ESB en við fengjum úr sjóðum sambandsins. Málið er nú ekki alveg svona einfalt þó að þau rök verði reyndar að teljast léttvægt gegn aðild að við þyrftum að leggja eitthvað með okkur. Þrátt fyrir ríkidæmi sitt eru innviðir hér á landi morknir. Eftir áratugastjórn Sjálfstæðisflokksins er vegakerfið í molum, annar ekki þeirri umferð sem það þarf að anna og dauðagildrurnar víða á þjóðvegum landsins. Sama má segja um heilbrigðiskerfið og menntakerfið, sem verða að teljast til mikilvæga innviða. Ætla má að ESB muni taka mið af þeirri gríðarlegu fjárfestingarþörf til innviða sem þarf að leggja í hér á landi. Það hefur sambandið gert í öðrum ríkjum sem fengið hafa aðild.
En það er ekkert að því að ríkar þjóðir leggi meira til samstarfsins en þær sækja að jafnaði. Evrópusambandið virkar nefnilega eins og samtrygging bandalagsþjóða. Þetta sást vel þegar gríðarlegur fellibylur gekk yfir frönsku eyjuna Mayotte á Indlandshafi í desember sl. og olli mannfalli og gríðarlegu eignatjóni. ESB steig þar inn með hjálparpakka. Einnig má minna á að um svipað leyti og rýma þurfti Grindavík vegna eldsumbrota varð mikil aurskriða í ítölsku Ölpunum með gríðarlega eignatjóni og dauðsföllum. ESB steig þar inn og greiddi allan kostnað vegna enduruppbyggingar.
Hér á Íslandi þurftu íslenski skattgreiðendur að bera kostnaðinn vegna uppkaupa á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Ef Ísland hefði verið aðildarríki í ESB hefði björgunarsjóður ESB borið þann kostnað.
Þá hnykkir Sigurður Kári út með því að fullyrða að aðild Íslands að ESB muni ekki leiða til þess að vextir lækki hér á landi þar sem það sé „enda alþekkt að það er einkum sífelld hækkun launa á Íslandi sem veldur verðþrýstingi, ekki gjaldmiðillinn.“
Þarna skautar hann með öllu fram hjá því að ein meginástæða þess að launahækkanir eru meiri hérlendis er einmitt sá kostnaður sem örgjaldmiðillinn veldur heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Til að halda krónunni stöðugri þarf Seðlabankinn að jafnaði að vera með um þrefalda stýrivexti á við það sem er innan ESB. Þessum vaxtamun velta bankarnir óskiptum yfir á viðskiptavini sína, þar með talið heimilin. Ein ástæðan fyrir því er að engir erlendir bankar veita hinum íslensku samkeppni hér á landi, einmitt vegna gjaldmiðilsins.
Í þessu óstöðuga hávaxtaumhverfi örmyntarinnar blasir við að launakröfur eru meiri en í hagkerfum með traustan gjaldmiðil sem býður upp á lægri vexti og stöðugleika sem ekki er í boði í krónuhagkerfinu.
Það er svo áhugaverð spurning hvernig á því stendur að þeir sem eru algerlega sannfærðir um ágæti þess að Ísland standi utan ESB með íslensku krónuna og að engin leið verði að semja um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar í greinum á borð við sjávarútveg og landbúnað skuli nú stunda óskammfeilinn hræðsluáróður og alls ekki leyfa þjóðinni að ákveða framtíð sína? Hvað hræðast þeir? Halda þeir kannski að fólk sé fífl? Eða stunda þeir málflutning gegn eigin sannfæringu og þá í þágu einhverra sérhagsmuna? Ekki þarf að leita langt til að finna gróf dæmi um slíkt hjá Sjálfstæðismönnum.
Kannski ættu hræddu Sjálfstæðismennirnir að svara því hvernig það getur verið merki um góðan gjaldmiðil að öll stærstu fyrirtæki landsins hafa þegar yfirgefið krónuhagkerfið. Bændur spyrja margir: Hvers vegna fá útgerðarbændur að nota evru og fjármagna sig á 4,5-5 prósent vöxtum á sama tíma og við þurfum að nota krónu og fjármagna okkur á 11-13 prósent vöxtum? Þetta er kannski lykilspurning í þessari umræðu.