fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

Eyjan
Miðvikudaginn 30. júlí 2025 06:00

Kristrún Frostadóttir, Ursula von der Leyen og Þorgerður Katrín Gunnatsdóttir á Þingvöllum. Mynd/EUROPEAN UNION 2025

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Öll upplifum við hluti á ólíkan hátt. Skynjum aðstæður út frá okkar eigin tilfinningum eða fyrir fram mótuðum skoðunum. Þannig geta tvær manneskjur upplifað nákvæmlega sömu atburði með gjörólíkum hætti. Það þekkjum við úr hversdagslegum samskiptum – og líklega daglega á vettvangi Alþingis Íslendinga.

Fyrr í mánuðinum kom Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, i opinbera heimsókn í boði forsætisráðherra. Tilgangurinn að efla samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Ekki síst vegna EES samstarfsins og mikilvægi þess fyrir íslenska þjóð. Þar voru öryggis- og varnarmál, viðskipti, almannavarnir og loftslagsmál í brennidepli. Maður hefði ætlað að slík heimsókn væri til marks um vaxandi samskipti og góðan hljómgrunn fyrir íslenska hagsmuni. Enda er aðgöngumiði okkar að innri markaði Evrópusambandsins samofinn lífsgæðum og viðskiptahagsmunum þjóðarinnar.

Hlutverk Íslands og öryggismál

Alþjóðasamfélagið á undir högg að sækja í veröld þar sem alþjóðalög eru virt að vettugi. Mannréttindum er ógnað og stríð geisa á alltof mörgum stöðum. Varnarleysi smáríkja er staðreynd. Ísland er aðili að NATO en við höfum að auki gert tvíhliða varnar- og öryggissamning við Bandaríkin. Á fundi von der Leyen með forsætis- og utanríkisráðherrum Íslands kom fram vilji að hefja viðræður um tvíhliða- varnar- og öryggissamning milli íslands og ESB. Slíkir samningar eru þegar í gildi milli ESB og ríkja eins og Bretlands, Japans, Kanada, Noregs og fleiri. Ég hefði að tillögur um að styrkja öryggisstoðir Íslands væru fagnaðarefni.

Harkaleg viðbrögð

Aldeilis ekki. Formenn minnihlutaflokkanna þriggja brugðust harkalega við heimsókninni. Þeir virtust fá einhvers konar vanþóknunaráfall yfir því að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins skyldi yfir höfuð dirfast að stíga fæti á íslenska grundu. Blái fáninn með gulu stjörnunum virðist vekja hjá þeim sterkar tilfinningar sem birtist í kapphlaupi þeirra um dramatískar yfirlýsingar í fjölmiðlum. Krafist var fundar í utanríkismálanefnd og utanríkisráðherra sakaður um að allt væri þetta lúmsk tilraun til að lauma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Ekki er hlustað á skýrar og afdráttarlausar fullyrðingar um að engin skref verði tekin í þá veru nema að undangenginni tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Enda passar það ekki inn í það pólitíska púsluspil sem minnihlutinn vill púsla.

Því er gripið til kunnulegra aðferða með tortryggni, hræðsluáróður og upplýsingaóreiðu í fararbroddi. Þetta er þekkt formúla. Sama leikrit og áður hefur verið sett á svið – meðal annars við þinglokin fyrr í mánuðinum.

Óreiða og tortryggni

Nýjasta dæmið eru svo markvissar tilraunir sömu aðila til að draga úr trúverðugleika utanríkisráðherra vegna yfirvofandi tolla á kísiljárn í Evrópu. Mál sem sannarlega varðar hagsmuni Íslands sem ríkisstjórnin vinnur nú hörðum höndum að leysa í samstarfi við Norðmenn og ESB.

Aftur er farið af stað í óreiðuleikinn, hver sagði hvað, hvenær og hvað var nákvæmlega sagt? Jafnvel þingmenn sem ekki sátu fund utanríkismálanefndar tjá sig um innihald hans. Ráðherra er sökuð um upplýsingaóreiðu. Þrátt fyrir að hafa bæði greint nefndinni frá málinu og ítrekað í fjölmiðlum að vinna að lausn standi yfir. Með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. En allt er gert með yfirlýsingum um annarlegar hvatir hennar til að rugla fólk í ríminu. Aftur er markmiðið er að búa til tilfinningu um leynimakk að þröngva eigi þjóðinni inn í ESB.

Staðreyndir verða aukaatriði þegar hægt er að sá efasemdum. Sérstaklega í umræðunni um Evrópusambandið.

Úlfur, úlfur

Hvers vegna eru viðbrögð minnihlutans svona yfirdrifin þessa dagana? Vegna samtals? Er það í alvöru svona hættulegt?

Kannski er að renna upp fyrir honum að ríkisstjórnin nýtur í reynd mikils trausts sem virðist aukast með hverjum mánuðinum. Á sama tíma og ánægja með störf stjórnarandstöðunnar hefur aldrei mælst minni.

Hvað gera flokkar sem hafa byggt pólitíska nálgun sína á tortryggni og sundrung ef það hættir að virka? Ef þjóðin verður ónæm fyrir þessari gömlu taktík og fer að sjá í gegnum hana? Eins og í sögunni um úlf, úlf?

Þjóðin á orðið

Þjóðin stendur frammi fyrir stórum spurningum um framtíð sína í breyttum heimi. Heimsókn von der Leyen snerist ekki um að lauma Íslandi inn í ESB bakdyramegin. Hún snerist um að tryggja áframhaldandi tengsl og verja hagsmuni okkar í samkeppnisumhverfi sem sífellt breytist. Meðal annars vegna tollamála eða annarra ytri skilyrða og ógna sem snerta smáríki eins og Ísland.

En loforð ríkisstjórnarinnar stendur óhaggað. Alveg sama hversu margir fundir eru haldnir, þá á þjóðin næsta leik. Ekki ríkisstjórnin, ekki stjórnarandstaðan, ekki hagsmunaaðilar og ekki Ursula von der Leyen.

Þjóðin sjálf.

Hvað er svona hættulegt við það?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Jóhannes Valgeir látinn

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Kvendjöflar og breyskar hetjur

Björn Jón skrifar: Kvendjöflar og breyskar hetjur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB