fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Eyjan

Þinglok: Ríkisstjórnin styrkir stöðu sína – sundrung innan stjórnarandstöðunnar

Ólafur Arnarson
Mánudaginn 14. júlí 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórnin stendur með pálmann í höndunum eftir að forseti Alþingis virkjaði 71. gr. þingskapalaga til að stöðva málþóf stjórnarandstöðunnar í veiðigjaldamálinu sl. föstudag. 71. greinin er stundum kölluð kjarnorkuákvæðið en réttnefni er lýðræðisákvæðið vegna þess að það er tæki meirihluta Alþingis til að endurheimta dagskrá Alþingis úr gíslingu minnihlutans.

Framganga stjórnarandstöðunnar í veiðigjaldamálinu var henni til minnkunar og setti niður virðingu Alþingis. Nú sakar stjórnarandstaðan ríkisstjórnina um að hafa vegið að lýðræðinu með því að leyfa minnihlutanum ekki að knýja sitt fram. Það eina sem vó að lýðræðinu var offors minnihlutans sem bersýnilega er ekki tilbúinn að viðurkenna að í landinu hafa orðið stjórnarskipti. Að völdum er sest ríkisstjórn með ríkan þingmeirihluta og góðan meirihluta kjósenda á bak við sig.

Almennur fíflagangur stjórnarandstöðunnar

Stjórnarandstaðan segir ríkisstjórnina engan vilja hafa sýnt til að ganga til samninga um þinglok og lyktir einstakra mála. Fram hefur komið að þetta er beinlínis rangt. Ríkisstjórnarmeirihlutinn sýndi mikinn vilja til að ganga frá samningum en stóð frammi fyrir fullkominni andstöðu af hálfu stjórnarandstöðunnar og fram hefur komið að forherðingin var svo rík af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún lagði ríkisstjórninni í hendur sitt eigið frumvarp um veiðigjöld og ætlaðist til að ríkisstjórnin legði það fram í sínu nafni.

Stjórnarandstaðan og þá sér í lagi Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa tönnlast á því að Kristrún Frostadóttir sé fyrsti forsætisráðherrann í 66 ár sem mistekst að semja um þinglok. Þetta er hreinlega ósatt. Vorið 1974 sprakk ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar eftir að allt fór í háaloft milli þáverandi ríkisstjórnarflokka í vinstristjórn hans. Á endanum rauf Ólafur þing og boðaði til kosninga.

Aftur gerðist það, vorið 2023, að allt fór í háaloft í vinstristjórn Katrínar Jakobsdóttur. Fyrirvaralaust var öllum málum ríkisstjórnarinnar frestað og þingið sent heim. Þá var ástandið slíkt innan ríkisstjórnarinnar að við lá að upp úr syði milli stjórnarþingmanna á nefndarfundum. Ekki var hins vegar rofið þing þá, illu heilli. Dæmin eru ugglaust fleiri.

Í tilfelli beggja þessara vinstristjórna var það innbyrðis ágreiningur sem þvældist fyrir þinglokum. Nú er staðan önnur. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er samhent og sannkölluð verkstjórn. Hún er búin að ná í gegn sínu stærsta máli á þessu þingi, veiðigjaldamálinu, sem var prinsippmál sem aldrei stóð til að gera málamiðlanir með. Málþóf, tafaleikir og almennur fíflagangur stjórnarandstöðunnar hafa vissulega komið í veg fyrir að önnur mál, sem miklu varða fyrir hag fólksins í landinu, kæmust í gegn á þessu þingi. Þau bíða næsta þings og fólk áttar sig alveg á því að þær tafir eru stjórnarandstöðunni að kenna en ekki ríkisstjórninni.

Klofin og veik stjórnarandstaða

Á meðan ríkisstjórnin stendur vel saman ríkir sundrung innan stjórnarandstöðunnar, bæði innan einstakra flokka og milli þeirra. Alþekkt er að Guðrúnu Hafsteinsdóttur hefur mistekist að festa sig í sessi sem foringi Sjálfstæðismanna. Hún nýtur ekki meirihlutastuðnings innan þingflokksins og fylgi flokksins hefur haldið áfram að hríðfalla eftir að hún tók við formennsku í mars. Framganga hennar og annarra þingmanna flokksins í veiðigjaldamálinu hefur verið með þeim hætti að ekki þykir til mikils sóma. Grímulaus hollusta við sérhagsmuni stórútgerðarinnar er ekki til þess fallin að efla virðingu fyrir þingflokki Sjálfstæðismanna eða gera flokkinn að raunhæfum kosti fyrir kjósendur með borgaralegar áherslur.

Svo virðist sem enn hafi fjarað undan Guðrúnu innan þingflokks Sjálfstæðismanna. Hún hefur hingað til getað gengið að stuðningi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og stuðningsmanna hans vísum en nú munu vera blikur á lofti í þeim efnum. Missi hún stuðning Guðlaugs má segja að hún sé á berangri í flokknum og litlar líkur á því að hún geti endurnýjað umboð sitt á næsta landsfundi. Athygli hefur vakið hve harkalega Guðrún hefur talað máli stórútgerðarinnar. Engu máli skiptir hversu oft hún endurtekur það að hún og aðrir þingmenn flokksins hafi ekki gengið erinda gríðarlegra sérhagsmuna stórútgerðarinnar. Sannleikurinn blasir við hverjum þeim sem fylgst hefur með umræðum um veiðigjaldafrumvarpið í þinginu.

Sakna Steingríms Hermannssonar

Ekki er ástandið betra í Framsóknarflokknum. Risatapið í þingkosningunum sýnir svo ekki verður um villst að Framsókn á sáralítið fastafylgi. Á síðustu árum hefur flokknum stundum tekist að vinna góða kosningasigra en þá einatt út á einhver vinsæl dægurmál eða hnyttin slagorð. Mikil óánægja er með Sigurð Inga, formann flokksins. Almennir framsóknarmenn og þingmenn flokksins er mjög óhressir með þá þjónkun sem þeir telja að flokkurinn hafi sýnt Sjálfstæðisflokknum í vinstristjórninni sem féll í haust og mjög ber á óánægju með að enn virðist forysta flokksins taka við fyrirmælum úr sömu átt. Á föstudaginn tóku þingmenn annarra flokka eftir því að þingmenn Framsóknar voru mjög óhressir með að formaðurinn væri ekki í þinghúsinu þegar forseti tilkynnti um beitingu lýðræðisákvæðisins og fóru ekki leynt með þá skoðun sína.

Margir gamlir Framsóknarmenn hugsa nú með söknuði til þeirra tíma er Steingrímur Hermannsson stýrði flokknum. Steingrímur var einkar laginn stjórnmálamaður sem gætti þess ávallt að horfa til beggja átta og einskorða sig ekki við hægri eða vinstri. Þetta þykir mönnum vanta í dag og telja Framsókn hafa málað sig út í horn með þjónkun við Sjálfstæðisflokkinn.

Um Miðflokkinn þarf ekki að hafa mörg orð. Honum stýrir dags daglega Bergþór Ólason en þegar á reynir virðist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson halda um þræðina. Miðflokkurinn er jaðarflokkur í íslenskri pólitík sem höfðar til allra íhaldssömustu kjósendanna og hikar ekki við að nota lýðskrum í þeim tilgangi, enda hefur það gefist flokknum vel.

Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki semja

Innan stjórnarliðsins er það mat manna að af hálfu bæði Miðflokks og Framsóknar hafi verið vilji til að genga til samninga við ríkisstjórnina um framgang veiðigjaldafrumvarpsins á eðlilegum forsendum og þar með þinglok.

Slíkt hafi Sjálfstæðismenn hins vegar ekki hafa mátt heyra minnst á. Þeir hafi verið með öllu ósveigjanlegir í málinu og verið staðráðnir í að tala frekar fram á haust en að leyfa ríkisstjórninni að ná málinu í gegn. Skemmst er þess að minnast er varaformaður flokksins sagði það vera „heilaga skyldu“ sína að koma í veg fyrir hægt yrði að afgreiða málið.

Höfuðábyrgðin á þeim fíflagangi sem þjóðin varð vitni að í beinni útsendingu frá Alþingi og náði hámarki þegar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins tók dagskrárvaldið á Alþingi ófrjálsri hendi liggur því hjá Sjálfstæðisflokknum, sem hefur í þessu máli hvergi vikið af þeirri línu sem samtök sægreifa lögðu. Dæmalaust var að heyra þingmenn tönnlast á því út í eitt á því að veiðigjöld séu skattur. Veiðigjöld eru frádráttarbær rekstrarliður í bókhaldi útgerðafyrirtækja, rétt eins og húsaleiga, og getur því aldrei talist vera skattur. Þetta skilur þjóðin þótt einhverjir þingmenn kjósi að kalla þetta annað gegn betri vitund.

Ríkisstjórnin styrkir stöðu sína

Í raun sækja Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur mjög á sömu mið kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sem fyrr segir tekið að sér að verja hagsmuni stórútgerðarinnar og reynir að setja það í þann búning að sú varðstaða sé í þágu þjóðarinnar. Flokkurinn er með öllu hættur að reyna að höfða til frjálslyndra kjósenda og einbeitir sér að þeim íhaldssömu og keppir þar við Miðflokkinn. Fylgni virðist vera milli þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar þegar fylgi Miðflokksins eykst í skoðanakönnunum og öfugt. Gefur það til kynna að þessi kjósendahópur sé að einhverju marki á flakki milli þessara flokka.

Eftir stutt og snarpt þing er ríkisstjórnin búin að koma veiðigjaldamálinu í gegn. Fylgi við ríkisstjórnina og traust til ráðherra hennar mælist sögulega hátt um þessar mundir. Ekki er sömu sögu að segja um stjórnarandstöðuna sem hefur grafið undan eigin stöðu með framgöngu sinni og hefur fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar aldrei mælst minna en einmitt um þessar mundir.

Óhætt er að slá því föstu að fyrsta þing ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafi gengið ljómandi vel. Ríkisstjórnin og ráðherrar hennar hafa gengið fram af sannfæringu og ákveðni og styrkt stöðu sína. Engum dylst hins vegar að stjórnarandstöðuflokkarnir kljást við innanmein og forysta tveggja þeirra er mjög veik og völt svo ekki sé sterkar kveðið að orði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin sker stjórnarandstöðuna úr snörunni en uppsker engar þakkir – hvað hefði Davíð Oddsson gert?

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin sker stjórnarandstöðuna úr snörunni en uppsker engar þakkir – hvað hefði Davíð Oddsson gert?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Nína Richter skrifar: Júlí á Þingeyri

Nína Richter skrifar: Júlí á Þingeyri
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hildur Sverrisdóttir svarar fyrir sig

Hildur Sverrisdóttir svarar fyrir sig
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ráðherra slegin eftir uppákomuna á Alþingi í gærkvöldi – „Ef þetta er rétt er staðan á Alþingi Íslands beinlínis orðin uggvænleg“

Ráðherra slegin eftir uppákomuna á Alþingi í gærkvöldi – „Ef þetta er rétt er staðan á Alþingi Íslands beinlínis orðin uggvænleg“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Inga Sæland kom Þórarni rækilega úr jafnvægi í gær – Sótroðnaði og sprakk úr hlátri

Inga Sæland kom Þórarni rækilega úr jafnvægi í gær – Sótroðnaði og sprakk úr hlátri
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Stjórnlaus græðgi sumra þingmanna – fara í frí á fullum launum meðan þing situr

Orðið á götunni: Stjórnlaus græðgi sumra þingmanna – fara í frí á fullum launum meðan þing situr