Hundurinn minn er fimm ára, tæplega þrjú kíló, hreinræktaður og af tegundinni miniature pinscher. Hann á marga óvini, bæði ímyndaða og raunverulega. Hundurinn svarar nafninu Bingó, en nafninu var ætlað að draga aðeins úr mikilmennskubrjálæðinu. Napóleon eða Stalín myndi hæfa betur en gersamlega fara með heimilislífið.
Bingó situr fyrir óvinum sínum í stofuglugga á annarri hæð, trampandi á hundrað og fimmtíu ára gömlum antíksófa með furðu spengilegum gormum. Bingó skoppar á þessum gormum, froðufellandi af illsku þegar virðulegir Vesturbæingar labba fram hjá. Ég hef íhugað að setja spjald í gluggann: „Við fengum hann notaðan,“ svo að fólk skilji að þessi týpa kom til okkar fullbúin með þessu stýrikerfi, þá fjögurra ára gamall.
Ein aðferðin til að róa Bingó er að hvísla í eyrað á honum. Ég veit ekki hvort hann skilur mannamál og ég átta mig á því að þó að hann gerði það, þá væri þetta merkingarlaust. „Þetta verður allt í lagi,“ hvísla ég að Bingó án þess að átta mig almennilega á því af hverju þessi prúði smáhundur af Öldugötunni er svona ofsalega triggerandi fyrir Bingó. Stafrænu vitsugurnar hafa auðvitað elt þetta vandamál uppi með símahlerun og því er ég núna skotspónn sérsniðinna auglýsinga fyrir hundaeigendur. Ég get valið úr svona tuttugu smáforritum til þess að kortleggja tilfinningalíf hundsins. Hann á ekki einu sinni síma.
Ég sjálf fór í myndatöku í gær til þess að auðvæða útlitið mitt enn frekar og tryggja að módelmappan mín endurspegli mig eins og ég er í núinu. Ég setti inn tvær myndir úr tökunni á Instagram og Facebook. Síðan ég birti þessar myndir hef ég eytt löngum stundum í höfðum bæði raunverulegra og ímyndaðra óvina minna. Ég reyni að rýna myndirnar með augum óvinarins og læt síðan fúkyrðunum rigna yfir mig, skipulega, í hljóði. Vegna þess að ekkert sem þau geta sagt um mig er jafn ljótt og það sem ég hef sjálf þegar sagt við sjálfa mig. Þannig vernda ég sjálfa mig fyrir óvæntri ógn. Svona virkar nú eðluheilinn.
Það er í samhenginu ekkert svo galið að hoppa á hundrað og fimmtíu ára gömlum sófagormum og öskra á ímyndaða óvini út um stofugluggann. Bingó er að minnsta kosti með áhorfendur.