Í Sturlungu er getið um fund Sighvatar Sturlusonar við hinn unga Gissur Þorvaldsson. Gissur var með unglingaveikina á háu stigi og setti upp mikla ygglibrún gagnvart ókunnugum.
Þessa dagana má sjá alvörusvip á fjölda stjórnmálamanna enda er íslenska stjórnsýslan harmi slegin. Þingmenn og embættismenn keppast við að horfa alvarlegum augum inní sjónvarpsvélarnar, setja í brýnnar og reyna að líta út eins og Sveinn Björnsson fyrrum forseti sem var sérlega brúnaþungur og virðulegur maður.
Ástæða þessarar tilfinningalegu niðursveiflu eru tvær löggur sem fóru út í einkabissness og tóku með sér lungann úr gagnasafni sérstaks saksóknara. Þetta gerðist fyrir mörgum árum í tryllingnum kringum hrunið. Bissnessmenn voru miskunnarlaust hleraðir og eltir af lögreglusveitum lýðveldisins til að upplýsa efnahagsglæpi. Í öllum hamaganginum safnaði löggan alls konar öðrum upplýsingum um einkalíf þessara manna og kvenna.
Löggurnar tvær sáu að þessum upplýsingum mætti auðveldlega koma í verð enda virtist enginn í stjórnkerfinu hafa hugmynd um þennan gagnaleka. Skyndilega koma þessar upplýsingar fram í dagsljósið og stjórnsýslan er felmtri slegin. Óteljandi löggur hafa komið fram og sagst ekkert skilja í þessum svikum mannanna við Guð, embættið og föðurlandið.
Allir vita að ágirnd og græðgi villa mönnum sýn. Löggurnar tvær létu greipar sópa um gagnasafnið átölulaust enda voru þeir samtímis bæði starfsmenn embættisins og einkaspæjarar. Þeir voru hættir störfum en höfðu ótakmarkaðan aðgang að þekkingarbrunni stofnunarinnar.
Málið er fyrnt og þeir sem áttu að gæta gagnanna fyrir almenning rannsaka og sýkna sig sjálfir. Allir innan stjórnkerfisins eiga það sameiginlegt að „líta málið mjög alvarlegum augum.“
Ég legg til að þessi atburður leiði til keppni innan stjórnkerfisins hver geti sett upp mesta ygglibrún og alvörusvip. Sigurvegarinn fær af sér mynd á frímerki og verður notaður til að hræða börn í leikskólum landsins til að halda uppi betri aga.