fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Játning Bjarna – óhreinn og spilltur ríkisstjórnarflokkur

Eyjan
Mánudaginn 9. september 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sem kunnugt er fór flokksráðsfundur sjálfstæðismanna fram á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík fyrir rúmri viku. Á fundinum hugðist flokkurinn gera dauðaleit að stefnunni sem hvergi hefur fundist í háa herrans tíð. Til stóð, ef vel gengi að finna stefnuna á ný, að stilla saman strengi fyrir komandi þing, en þingsetning verður á morgun.

Ekki fannst stefnan, enda hún sennilega djúpt grafin í fönn eftir sjö ára setu flokksins í vinstri stjórn, fyrst undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og nú upp á síðkastið undir forystu Bjarna Benediktssonar. Orðið á götunni er að vísast þurfi hvort eð er að leita utan flokksráðs Sjálfstæðisflokksins ef sjálfstæðisstefnan gamla á að finnast.

En Sjálfstæðisflokkurinn hefur týnt fleiru en stefnunni. Færa má rök fyrir því að stefnan hafi týnst fyrir margt löngu en forystan ekki látið það á sig fá. Verra er að flokkurinn er nú líka búinn að tapa fylginu og mælist nú á pari við tveggja manna þingflokk Miðflokksins í skoðanakönnunum. Það má sætta sig við að stefnan sé hvergi sjáanleg en þegar fylgið hverfur kárnar gamanið fyrst svo um munar.

Guðlaugur Þór Þórðarson reyndi að stappa stálinu í fundarmenn og sagði vandamál Sjálfstæðisflokksins ekki vera fólkið á flokksráðsfundinum heldur fólkið sem væri farið úr flokknum. Orðið á götunni er að mögulega ætti Guðlaugur og aðrir fundarmenn að líta sér nær og beina ekki spjótum sínum að þeim sem yfirgefið hafa flokkinn. Aldrei sé að vita nema fólk hafi yfirgefið flokkinn einmitt út af fólkinu sem mætti á flokksráðsfundinn og þeirri pólitík sem það hefur rekið um árabil.

Eftir fundinn gafst fjölmiðlum kostur á að spyrja Bjarna Benediktsson, formann flokksins, út í fundinn og stöðu flokksins. Bjarni greip til íþróttasamlíkingar og sagði fólk verða að standa saman til að ná vopnum sínum. Orðið á götunni er að fréttakona RÚV hafi haft lög að mæla er hún benti formanninum á að þegar illa gengi hjá íþróttafélagi væri oft gripið til þess ráðs að reka þjálfarann.

Þegar gengið var á Bjarna með það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið hvert stefnumálið á fætur öðrum í stjórnarsamstarfinu með Vinstri grænum varð hann kindarlegur og sagði auðvelt að vera hreinn og óspilltur í stjórnarandstöðu. Orðið á götunni er að þarna hafi Bjarna orðið á það sem á erlendri tungu er gjarnan kallað „Freudian slip“, það er þegar menn missa eitthvað út úr sér sem þeir ætla alls ekki að segja en undirmeðvitundin tekur völdin og fram brýst það sem innstu hugarfylgsni geyma.

Orðið á götunni er að gagnályktunin við því að auðvelt sé að vera hreinn og óspilltur í stjórnarandstöðu sé einmitt að í ríkisstjórn séu flokkar og fólk óhreint og spillt. Má það mjög til sanns vegar færa um störf þessarar ríkisstjórnar og raunar um störf Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn allt frá hruni og jafnvel fyrir þann tíma.

Fólki er í fersku minni er Bjarni Benediktsson og öll forysta og þinglið Sjálfstæðisflokksins sveik loforðið sem gefið var fyrir kosningarnar 2013 um að þjóðin fengi að hafa síðasta orðið um það hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði haldið áfram. Það loforð sveik Bjarni kinnroðalaust og bar við „pólitískum ómöguleika“.

Nýjasta dæmið um óhreina spillingu er þegar Sjálfstæðisflokkurinn stóð þétt með Kaupfélagi Skagfirðinga nú á vordögum og breytti búvörulögum á þann veg að taka afurðastöðvar í landbúnaði og undanskilja þær samkeppnislögum til að gera KS kleift að gleypa Kjarnafæði-Norðlenska með húð og hári.
Orðið á götunni er að Bjarni hafi sjálfur sýnt af sér óhreina spillingu í embætti, m.a. með því að brjóta samkomutakmarkanir með þátttöku í Þorláksmessugleðskap auðmanna í Ásmundarsal á Skólavörðuholti fyrir jólin 2020, þegar þjóðin húkti heima, hver í sínu horni, samkvæmt fyrirmælum þríeykisins.

Þá þykir skipun Bjarna á tveimur vinum sínum í feit sendiherradjobb, í Washington og Róm, á örstuttum utanríkisráðherraferli, vera nánast kennslubókardæmi í drulluskítugri spillingu.

Orðið á götunni er að flokkur sem er orðinn jafn óhreinn og spilltur af langri stjórnarsetu og Sjálfstæðisflokkurinn hafi einfaldlega gott af því að komast í stjórnarandstöðu til að finna aftur óspilltan hreinleikann, og ekki veiti af góðum tíma í leitina þar sem grafa þurfi djúpt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið