fbpx
Föstudagur 04.október 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Bankastjórar, sýnið þjóðfélagslega ábyrgð, lækkið vextina!

Eyjan
Föstudaginn 13. september 2024 11:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samfélagsleg ábyrgð fjármálastofnana, ekki sízt þeirra sem ríkið sjálft á, verður að teljast grunnskylda. Virðist þó ekki í hámarki hér.

Stýrivextir eru þeir vextir, sem viðskiptabankarnir fá á fé, sem þeir binda í Seðlabanka í minnst 7 daga. Með því að hafa þá háa reynir Seðlabanki að að örva viðskiptabankana til að leggja inn fé í Seðlabanka og binda það þar. Draga úr peningum í umferð. Þetta virka þó misvel, jafnvel alls ekki.

Skv. ársreikningum bankanna þriggja, per 31.12.22, er skuld þeirra við Seðlabanka sáralítil og inneign þar frá 2,4-7,8% af eignum. Þetta þýðir, að skulda- og/eða eignastaða viðskiptabankanna þriggja, við Seðlabankann, er hlutfallslega lítil.

Á sama hátt þýðir þetta það að stýrivextir Seðlabanka, hækkanir eða lækkanir, hafa í reynd óveruleg áhrif á rekstur og útlán bankanna. Það er ekkert og enginn, sem skyldar þá eða knýr til að fylgja breyttum stýrivöxtum. Ekki þá heldur þörf.

Stýrivextir Seðlabanka hafa því nær engin praktísk áhrif á starfsemi og útlán viðskiptabankanna og þar með eru hinar gífurlegu hækkanir útlánsvaxta síðustu árin – þar sem útlánsvextir, og það á teknum/hlaupandi lánum, hafa verið minnst tvöfaldaðir – að mestu óþarfar.

Ekki verður annað séð en að bankarnir hafi nýtt sér hækkun stýrivaxta sem skálkaskjól til að hækka sína vexti til að bæta afkomu sína og auka gróða.

Þeir gættu lítt að því, að í leiðinni voru þeir að steypa öllum sínum viðskiptavinum – einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum – sem voru með lán hjá þeim í óvænta og erfiða stöðu, marga í algjörar þrengingar.

Það sem gerðist með þessum stórfelldu vaxtahækkunum, málið í hnotskurn, er að aukavextirnir, milljarðar og tugir milljarða, voru hirtir af skuldurum og færðir yfir á bankana sjálfa og fjármagnseigendur. Jafngildir þetta eignaupptöku hjá skuldurum og eignayfirfærslu yfir á banka og fjármagnseigendur. Með valdi. Siðlaust, óréttlátt og vart löglegt.

Þessi hörmungarsaga er þó ekki aðalmálið hér.

Verðbólga reiknast nú 6,0%, 3,6% án húsnæðiskostnaðar.

Fyrir undirrituðum er seinni talan, 3,6%, hin rétta og sanna verðbólgutala. Húsnæðiskostnaður er feiki misjafn, frá nánast engu hjá þeim sem búa í skuldlausu eigin húsnæði, upp í töluvert eða mikið hjá þeim, sem eru í skuldsettu eigin húsnæði eða leigja, og getur hann ekki talizt almennur framfærslukostnaður. Þar koma líka til verðbreytingar á húsnæði, mest hækkanir, á móti kostnaði, íbúðareigendum í vil.

Stýrivextir upp á 9,25% eru í þessari stöðu fyrir undirrituðum yfirkeyrðir – Seðlabanki hefur í reynd veitt þeim sína eigin dýnamík – og eru þessir yfirkeyrðu vextir til þess eins fallnir að halda verðbólgunni uppi, jafnvel auka hana, enda keyra þeir alla kostnaðarliði upp.

Afleiðing þessa – þó að í raun sé ekki þörf á henni – er að óverðtryggðir útlánsvextir viðskiptabankana eru frá 10-11% upp í 17-18%.

Í Morgunblaðinu var nýlega forsíðugrein með fyrirsögninni: „Vaxtakostnaður allt of íþyngjandi“, undirfyrirsögn: „Þingvangur setur stóran reit á ís“. Í texta stóð svo þetta:

„Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins Þingvangs, segir fyrirtækið hafa ákveðið að fresta uppbyggingu 140 íbúða í Hafnarfirði vegna mikils vaxtakostnaðar…“

Eins og flestir vita, þarf að byggja meira til að jafnvægi komist á framboð og eftirspurn á íbúðamarkaði. Þar með myndi íbúðarverð lækka og þáttur húsnæðiskostnaðar í framfærsluvísitölu ganga niður; verðbólgustig hjaðna, en Seðlabanki og bankarnir eru búnir að hækka vexti svo mikið, einmitt vegna hækkunar húsnæðiskostnaðar í framfærsluvísitölu, að vextir eru orðnir svo háir að byggingarverktakar treysta sér ekki til að halda áfram með sínar byggingarframkvæmdir.

Ef eitthvað er til, sem kalla má vítahring, þá er hann hér. Í ótrúlegri mynd. Tilbúinn af manna – banka – völdum.

Eins og hér blasir við þarf að auðvelda byggingarfyrirtækjum að byggja meira íbúðarhúsnæði. Það myndi þá lækka íbúðarverð, spennu á þeim markaði, sem aftur myndi lækka verðbólgu. Það myndi svo lækka stýrivexti; rjúfa vítahringinn.

Eins og fram kom í fyrri hluta þessa pistils þurftu bankarnir ekki að elta Seðlabanka í stýrivaxtahækkunum. Það sama gildir auðvitað um vaxtalækkanir.

Það er mat höfundar að við þessi skilyrði beri stjórnendum bankanna að snarlækka vexti til byggingar íbúðarhúsnæðis – alla vega niður fyrir 10% – til að stuðla að og tryggja að meira verði byggt af íbúðarhúsnæði, sem aftur á móti ætti að leiða til verðlækkunar á íbúðum, og þá um leið til lækkunar verðbólgu og almennra vaxta.

Í mínum huga er vaxtalækkunarskref af þessu tagi þjóðfélagsleg skylda stjórnenda bankanna! Hér þyrfti Bankaeftirlitið að grípa inn í ef bankastjórnir skynja ekki eða skilja skyldu sína. Kannske þyrfti fjármálaráðherra sjálfur, Sigurður Ingi, að láta til sín taka í málinu. Skal nú þessa menn alla reyna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Deilurnar í Pírötum – Halldór Auðar hættur aðeins þremur vikum eftir að hann var kjörinn

Deilurnar í Pírötum – Halldór Auðar hættur aðeins þremur vikum eftir að hann var kjörinn
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bergþór Ólason: Ekki hægt að tala um kyrrstöðu því allt hefur færst til verri vegar og ríkisútgjöld sprungið út

Bergþór Ólason: Ekki hægt að tala um kyrrstöðu því allt hefur færst til verri vegar og ríkisútgjöld sprungið út
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Bergþór Ólason: Pólitískur ómöguleiki að Svandís verði fagráðherra í ríkisstjórn Bjarna Ben í kosningabaráttu

Bergþór Ólason: Pólitískur ómöguleiki að Svandís verði fagráðherra í ríkisstjórn Bjarna Ben í kosningabaráttu