fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Þorsteinn Pálsson: Tölurnar sýna að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er vinstri stjórn – hagstjórnin fyrir neðan allar hellur

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 27. júní 2024 10:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sendir sínum gamla flokki tóninn í nýjasta pistli sínum af kögunarhóli á Eyjunni.

Hann fjallar um nýjustu skýrslu svissneska viðskiptaháskólans IMD um samkeppnishæfni þjóð. Þar kemur fram að Ísland stendur langt að baki annarra Norðurlanda hvað samkeppnishæfni varðar.

Þorsteinn rýnir líka í niðurstöðurnar og skoðar hvort úr þeim megi lesa hvort það sé stafna Sjálfstæðisflokksins eða VG sem sé ráðandi í núverandi ríkisstjórn, sem nú hefur setið í hartnær sjö ár.

Rannsókn IMD nær til 67 ríkja. Viðskiptaráð hefur til margra ára haldið utan um þetta verkefni hér á landi af miklum metnaði og kynnt niðurstöðurnar með áberandi hætti.

Kannanir af þessu tagi eru afar mikilvægar. Augljóst er að þær ættu að nýtast stjórnvöldum við stefnumótun. Ekkert væri því eðlilegra en að þessi könnun tæki mikið rými í pólitískri umræðu. Því er þó ekki að heilsa.“

Þorsteinn greinir frá því að í heildarniðurstöðunni falli Ísland niður um eitt sæti og sitji nú í því 17. Í sjálfu sér sé það ekki slæmt. „En Ísland stendur langt að baki öðrum Norðurlöndum. Það er óviðunandi staða af því að við miðum lífskjör okkar við þau.

Fall um eitt sæti er líka athyglisvert í því ljósi að núverandi forystuflokkur ríkisstjórnarinnar telur sjálfur að Ísland hafi einmitt á sama tíma skákað öllum öðrum þjóðum í efnahagslegri velgengni.“

Þorsteinn bendir á að sætaskipun Íslands sé ólík hvað varðar efnahagslega mælikvarða og félagslega. Úr þessu megi lesa hvor flokkurinn, VG eða Sjálfstæðisflokkurinn, hafi lagt þyngri lóð á vogarskálar stjórnarstefnunnar.

Þegar kemur að samfélagslegum innviðum lendir Ísland í 12. sæti. Þótt þetta svið skili Íslandi bestum árangri föllum við eigi að síður um fimm sæti frá fyrra ári.

Allt annað er uppi á teningnum þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu. Þar situr Ísland í 53. sæti. Efnahagsleg frammistaða landsins þegar kemur að samkeppnishæfni er sem sagt fyrir neðan allar hellur.

Þótt bæta þurfi félagslegu innviðina til þess að standast norrænan samanburð er augljóst að um allmörg ár hefur verið lagður meiri metnaður í félagslegu pólitíkina en þá efnahagslegu.

Þessi mælikvarði er ágæt vísbending um að málefnalega hafi ekki verið jafnræði með stjórnarflokkunum. VG sýnist hafa haft ríkari áhrif en þingmenn sjálfstæðismanna.

Við nánara niðurbrot á lélegri efnahagslegri frammistöðu í þessum samanburði kemur í ljós að samkeppnishæfni í alþjóðaviðskiptum skipar Íslandi í 59. sæti. Mælikvarðar um alþjóðlega fjárfestingu og verðlag setja Ísland síðan í 60. sæti.

Á þessum mikilvægu sviðum vermir Ísland botnsætin.

Opinber fjármál lenda í 28. sæti og skattastefnan í því 41 sem er veruleg afturför frá fyrra ári.

Í kynningu Viðskiptaráðs er tekið dæmi sem varpar ljósi á varhugaverða brotalöm í hagstjórninni. Verðmætasköpun á mann kemur okkur í 3. sæti. En á sama tíma versnar viðskiptahallamælikvarðinn. Þar erum við í 32. sæti. Þetta bendir til að undirstaðan sé ekki nægjanlega sterk.

Atvinnustigið er eini jákvæði efnahagslegi mælikvarðinn. Þar er Ísland í 8. sæti. Sú þensla er aftur orsök mikillar verðbólgu og ofurvaxta, sem helst þekkjast í stríðshrjáðum ríkjum.

Þetta er staðan þegar þingmenn sjálfstæðismanna hafa borið ábyrgð á efnahagsmálum og ríkisfjármálum nær óslitið frá 2013.

Þorsteinn rifjar upp að við atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur á Alþingi í síðustu viku sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður þingflokks þeirra að þrátt fyrir óánægju með ráðherra VG myndi hann aldrei vera í liði með þeim flokkum, sem nú eru í stjórnarandstöðu.

Þessi ummæli benda til þess að þingmenn sjálfstæðismanna sjái enga hugmyndafræðilega framtíð nema í ástar- og haturssambandi við VG.

Þingflokkar sjálfstæðismanna og VG hafa báðir misst trúverðugleika þegar kemur að samkeppnisstöðu Íslands í alþjóðaviðskiptum, erlendri fjárfestingu og ríkisfjármálum eftir jafn langan andvaraleysistíma og raun ber vitni. Þeir lögðu umbætur og kerfisbreytingar á hilluna.

Af kögunarhóli í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Borgin heldur áformum um flugvöll í Hvassahrauni til streitu og Njáll Trausti furðu lostinn – „Enginn pólitíkus á íslandi er að fara að skrifa upp á það“

Borgin heldur áformum um flugvöll í Hvassahrauni til streitu og Njáll Trausti furðu lostinn – „Enginn pólitíkus á íslandi er að fara að skrifa upp á það“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna teflir öllu fram og segir Sjálfstæðisflokkinn geta gert margt betur – „Sorglegt að sjá víða að við förum ekki betur með fé“

Áslaug Arna teflir öllu fram og segir Sjálfstæðisflokkinn geta gert margt betur – „Sorglegt að sjá víða að við förum ekki betur með fé“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum