fbpx
Laugardagur 24.febrúar 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Ný-íslenskan og hættur hennar

Eyjan
Laugardaginn 10. febrúar 2024 14:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk tunga hefur blessunarlega verið þeirrar náttúru frá alda öðli að geta lagað sig að breyttum tímum og tíðaranda. Það hefur einkum stafað af því að það hefur verið metnaðarmál landsmanna að smíða orð sem hæfa nýjungum og umskiptum í atvinnulífi, menningu og samfélagsgerð.

Heita má að ástríða af þessi tagi hafi skapað íslenskunni sérstöðu á heimsvísu.

Hér nægir að nefna orð á borð við síma, sjónvarp og tölvu sem njóta sín ríkulega í nútímamáli fólks á öllum aldri á Íslandi á sama tíma og frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa í mörgum tilvikum látið undan enskum áhrifum í þessum efnum, svo heldur hefur tunga þeirra slúskast fyrir vikið.

Og þessi ánægjulega árátta hefur fylgt Íslendingum inn í nýja öld. Meira að segja taka ungmenni ekki annað í mál en að fara í pílu eða keilu um kvöld og helgar á meðan foreldrar þeirra stunda blak eða körfu.

En nú eru blikur á lofti – og teiknin blasa víða við.

Ekki einasta er áberandi orðafátæktar farið að gæta í tungumáli almennings þar sem orðin klikkað og geðveikt virðast hafa leyst svo að segja öll önnur lýsingarorð af hólmi – og er þar samt af svo ríkulegum forða að taka að undrun sætir að einungis tvö orð sitji ein eftir.

En í öllu falli er þróunin skýr. Fjölbreytni tungumálsins er að víkja fyrir einsleitni.

Svo er hitt. En það er bannfæring karlkynsins, sem að vissu leyti er rökrétt framhald af kærkomnu kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks. En hæfir það umræðunni að gera orð útlæg? Er það baráttunni samboðið? Því þótt vissulega megi gagnrýna íslenska tungu fyrir að hafa verið full til karllæg í gegnum tíðina – og er þar líklega varlega að orði komist – er varla sanngjarnt að fækka kynjum í móðurmálinu á sama tíma og eðlilegt tilkall er gert til þess að fjölga þeim í mannlífinu.

„Munum við reka aðskilnaðarstefnu á milli talmáls og bókmáls? Það er líka ein meginspurningin …“

Meginspurningarnar eru raunar þessar: Ætlum við að breyta reglum tungumálsins? Er vilji til þess á meðal þjóðarinnar að láta réttritun lönd og leið? Og að lokum þessi: Eru gamlar stafsetningarreglur kannski bara barn síns tíma?

Þessi umræða hefur ekki farið fram. Á meðan mæta stjórnmálamenn í sjónvarpstíma og segja að vitaskuld þurfi að bjarga Grindvíkingum, því þau eigi það skilið. Og vart má taka myndir úr Bláfjöllum eða Hlíðarfjalli í sama fréttatíma nema að segja að öll hafi skemmt sér þar vel.

Þetta er breytingin. Persónufornöfn vísa ekki lengur til málfræðilegra persóna eins og reglur hafa kveðið á um. Og kenndar hafa verið í skólum. Og farið er að við ritstjórn bóka. Og hvernig eigum við að bera okkur að í þeim efnum á komandi tímum? Munum við reka aðskilnaðarstefnu á milli talmáls og bókmáls? Það er líka ein meginspurningin – og taka upp ný-íslensku til hliðar við þá gömlu. Og leyfa báðar í bekkjum og bókum? Eða leyfa allt saman? Frelsa tunguna undan öllum höftum?

Íslendingum er enn þá annt um tungu sína. Og þeir vilja að hún aðlagi sig að síbreytilegu samfélagi. En eigum við að gefa regluverkinu langt nef? Það getur verið mjög skynsamlegt að fara að reglum í umferðinni. Og það hefur bjargað mannslífum. Reglur koma sér nefnilega víða vel.

En líklega fer hér vel á því að vanda til verka. Og ana ekki að neinu. Móðurmálið á það skilið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Uppreisn og samtal

Þorsteinn Pálsson skrifar: Uppreisn og samtal
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Júróvisjón

Óttar Guðmundsson skrifar: Júróvisjón
EyjanFastir pennar
20.01.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Við höfum efni á Grindvíkingum

Sigmundur Ernir skrifar: Við höfum efni á Grindvíkingum
EyjanFastir pennar
20.01.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fjórðungi bregður til fósturs

Óttar Guðmundsson skrifar: Fjórðungi bregður til fósturs