fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Eyjan

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Eyjan
Föstudaginn 20. desember 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fasteignaþróun í kringum Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, hefur tryggt flokknum fjárhagslega yfirburði í íslenskum stjórnmálum. Þar sem flokkurinn á nóg af peningum hefur hann undanfarið barist fyrir því að skerða opinber framlög til annarra flokka. Frá þessu greinir fjölmiðlamaðurinn Þórður Snær Júlíusson í fréttabréfi sínu, Kjarnyrt.

Þórður Snær rekur að framlög ríkissjóðs til stjórnmálaflokka voru hækkuð verulega í kjölfar Alþingiskosninganna 2017. Flokkarnir voru þá í slæmum peningamálum þar sem tvisvar var kosið á tveimur árum. Framlög árið 2017 áttu að vera 286 milljónir en eftir hækkunina komu 648 milljónir til úthlutunar. Flestir flokkar reiða sig á þessi framlög í dag enda helsta og jafnvel eina tekjulind þeirra. Samfylkingin og Framsókn eiga dýrar fasteignir sem þau geta veðsett eða notað til að afla sér leigutekna. Sjálfstæðisflokkurinn er þó í algjörri sérstöðu.

„Hann er sá flokkur sem hefur verið að fá hæstu fjárhæðirnar úr opinberum sjóðum, þótt það breytist á komandi ári í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur stærsti flokkurinn á þingi. Hann er líka flokkur sem fær mest fé frá einstaklingum í formi framlaga og félagsgjalda. Og hann er sá flokkur sem atvinnulífið styður umfram aðra, en það gaf honum meira fé, tæplega 49 milljónir króna, á árinu 2022 en það hefur gert síðan á árinu 2007. Framlögin þaðan drógust saman milli ára en voru samt 33 milljónir króna í fyrra. Sá geiri sem gefur flokknum langmest er sjávarútvegur.“

Græddu á stefnunni sem flokkurinn gagnrýnir

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó grætt hvað mest af fasteignaþróun. Eignir flokksins voru metnar á 1.751 milljón í lok árs 2023. Skipti þar mestu að á árinu 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag fyrir lóðina sem Valhöll stendur á.

„Samkvæmt því var heimilt að bæta tveimur nýjum byggingarreitum við lóðina. Á þeim er meðal annars gert ráð fyrir að byggja 47 íbúða fjölbýlishús, skrifstofuhúsnæði og bílakjallara. Hluti byggingarréttar Valhallarreitsins, sem snýr að horni Skipholts og Bolholts, var seldur á árinu 2021. Ári síðar var byggingarreiturinn næst Kringlumýrarbraut seldur. Samtals skilaði sala þessara reita stærsta stjórnmálaflokki landsins 564 milljónum króna í tekjur á tveimur árum. Ofan á þetta er fasteignamat fasteigna og lóða í eigu flokksins rúmlega milljarður króna.“

Þetta hafi skilað sér í sjóð flokksins og var eigið fé jákvætt um tæpan 1,4 milljarð í lok síðasta árs, eða þrisvar sinnum meira en hinna átta flokkanna. Þórður tekur fram að þessi fasteignaþróun sé frekar fyndin þar sem hún felist í þéttingu byggðar í Reykjavík, nokkuð sem Sjálfstæðismenn hafa harðlega gagnrýnt.

„Þetta fasteignaþróunarbrölt, sem felur í sér fækkun bílastæða og þéttingu byggðar, er nokkuð spaugilegt þegar það er mátað við stefnu hluta borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sem er með allt á hornum sér yfir slíkri þróun.“

Fyrst Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki styrk á að afnema hann

Þar með þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki að treysta á framlög úr ríkissjóði. Þessa yfirburðastöðu hafi flokkurinn nýtt sér með því að kalla nú eftir því að styrkir til stjórnmálaflokka séu lækkaðir verulega. Má þá til dæmis nefna Viðskiptaráð Íslands sem gjarnan þykir tengjast Sjálfstæðisflokknum nánum böndum. Hagfræðingur Viðskiptaráðs skrifaði grein í lok nóvember þar sem hann sagði mikilvægt að hreinlega afnema opinbera styrki til stjórnmálasamtaka með öllu. Á kosningafundi Viðskiptaráðs sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að framlagið væri orðið alltof hátt en Þórður Snær rekur að í ár hafi framlögin verið í heild um 692 milljónir, litlu hærri en árið 2018. Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokks var samþykkt ályktun um að afnema eigi opinbera styrki samhliða því að auka möguleika stjórnmálaflokka á að fá framlög úr öðrum áttum. Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur ítrekað lagt fram frumvarp til að lækka framvörpin og afnema styrki til að mæta útlögðum kostnaði vegna kosningabaráttu.

Peningar geta ekki keypt allt

Þórður Snær skrifar:

„Tillögur Sjálfstæðisflokksins um að stórlega draga úr, eða afnema með öllu, opinbert framlag til stjórnmálaflokka, verður að skoða í því ljósi að flokkurinn, í gegnum fasteignaþróun, á rúmlega þrisvar sinnum meira eigið fé en allir aðrir stjórnmálaflokkar landsins til samans. Þær verður að skoða í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fær meiri framlög frá einstaklingum og úr atvinnulífinu, sérstaklega frá sjávarútvegi, en nokkur annar flokkur.“

Nú reyni flokkurinn að veikja stöðu annarra flokka og tryggja Sjálfstæðisflokknum algjörlega fjárhagslega yfirburði.

„Reyndar má hrósa Sjálfstæðisflokknum fyrir það hversu heiðarlegur hann er með þau áform sín um að aðgengi að peningum eigi að ráða stefnumótun í samfélaginu og að fákeppni hugnist honum mun betur en samkeppni. Það er í fullum takti við ýmislegt annað sem er ráðandi í stefnu hans. “

Loks bendir Þórður á að þó Sjálfstæðisflokkurinn sé ríkasti flokkurinn á Íslandi hafi fylgi hans lækkað og Bjarni Benediktsson „óvinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar“.

„Það sýnir að peningar geta ekki keypt allt. Til dæmis skynsemi kjósenda.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðlaugur Þór gagnrýnir Jóhann Pál og segir hann skreyta sig með stolnum fjöðrum

Guðlaugur Þór gagnrýnir Jóhann Pál og segir hann skreyta sig með stolnum fjöðrum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hilmar ræðir um framferði Trumps – „Þetta er ekki skynsamlegt en þetta er skiljanlegt“

Hilmar ræðir um framferði Trumps – „Þetta er ekki skynsamlegt en þetta er skiljanlegt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi