Stálin mættust stinn í Sprengisand á Bylgjunni í gær. Þar tókust Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, á um stöðu húsnæðisuppbyggingar í borginni. Þungar ásakanir gengu víxl þar sem Dóra Björt sakaði Sigurð um að skýla raunverulegu markmiði gagnrýni sinnar á bak við holar meiningar um mannréttinda þegar hann í raun er að krefjast fleiri og ódýrari lóða. Sigurður sakaði Dóru um að annað hvort skilja ekki vandamálið eða byggja afstöðu sína á lygum. Hvað sem raunin væri þá væri ljóst að borgin sé stjórnlaus.
Sigurður segir að upplýsingaóreiða sé að eiga sér stað í málflutningi borgarinnar um væntanlega uppbyggingu. Borgin tali um 2800 byggingarhæfar lóðir en þegar betur sé að gáð gefi sú tala ekki rétta mynd.
Af þessum lóðum eru margar á þéttingarsvæðum og á um 800 þeirra séu þegar mannvirki sem þurfi að rífa áður en uppbygging getur hafist.
Sigurður telur að borgin sé viljandi að skreyta sig með hærri tölum en tilefni er til að fegra raunverulega stöðu sem sé sú að það sé hreinlega ekki nóg af lóðum. Hann gagnrýnir eins að svo virðist sem að borgin nálgist lóðaúthlutanir sem fjáröflun en ekki sem þjónustu við íbúa sína.
Sú takmarkaða uppbygging sem sé vissulega að eiga sér stað sé á höndum fjárfesta eða þróunaraðila sem ekki eru hluti af Samtökum iðnaðarins. Félagsmenn samtakanna veigri sér enda við að byggja á eigin vegum í borginni út af flækjustigi og veseni.
Dóra tók undir með Sigurði að það séu mannréttindi að eiga þak yfir höfuðið og þetta hafi borgin í forgrunni í sínu skipulagi. Sigurður taki ekki tillit til þess að þó rífa þurfi mannvirki á þéttingarreitum þá sé að sama skapi til staðar innviðir, veigir, veitur og lagnir. Ef brjóta þarf berg fyrir nýjum hverfum þá sé ekkert slíkt til staðar.
Eins þurfi að horfa á vandann á húsnæðismarkaði í stærra samhengi og velta því upp hvers vegna ríkisvaldið hefur ekki gripið inn með hertum reglum til að hemja það að lóðir, byggingarréttur, fasteignir og annað séu notuð sem gjaldeyrir í viðskiptum athafnamanna. Hvers vegna þurfi ekki að greiða hærri fasteignargjöld ef fólk á fleiri en eina eign? Hvers vegna hafa heimildir fyrir gistiplássum verið rýmkaðar fremur en hertar? Af hverju er ekkert gert til að draga úr fjármagnskostnaði sem verktakar reka sig oft illa á, eða með öðru stutt við minni uppbyggingaraðila?
Hér að ofan má í grunninn sjá um hvað Dóra og Sigurður tókust en samtalið einkenndist eins af tíðum inngripum Sigurðar þar sem hann tók meðal annars ítrekað fram að hann sé að segja að það þurfi að byggja meira og það þurfi að byggja fyrir venjulegt fólk en ekki fyrir þá sem þurfa hjúkrunarrými eða félagslegt húsnæði.
Sigurður gaf lítið fyrir hugmyndir um að koma í veg fyrir skammtímagistingu, eða að eignir séu að safnast á hendur fárra. Það skipti engu hvort lóðir skipti um hendur og hækki í verði heldur bara að íbúðir séu byggðar.
Dóra tók fram að það sé furðulegur málflutningur að neita að telja með félagslegt húsnæði og uppbyggingu á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Þar séu vissulega verktakar að störfum, verktakar sem eru skráðir í Samtök iðnaðarins.
Sigurður sagði augljóst að þegar rífa þarf mannvirki á lóð þá taki uppbygging þar lengri tíma en ella. Dóra sagði á móti að ef brotið sé berg þá þurfi að ráðast í gatnagerð, innviðauppbyggingu, að leggja veitur – eitthvað sem taki líka tíma. Á móti því benti Sigurður að fólksfjölgunin ein og sér sýni að borgin komist ekki hjá því að byggja upp innviði. Það sé nauðsynlegt alveg sama hversu mikið byggðin sé þétt.
Dóra sagði svo:
„Þannig það liggur alveg ljóst fyrir – mér finnst eins og Sigurður sé að gefa sig út fyrir að tala út frá göfugum markmiðum sem er að hraða uppbyggingu, en ef við lítum á tölurnar er hann einungis að tala fyrir því að fá ódýrari lóðir fyrir uppbyggingaraðila en ekki til að hraða uppbyggingu.“
Sigurður svaraði:
„Það er bara kolrangt hjá þér. Fólk í landinu þarf íbúðir og það er ekki verið að byggja nægilega margar íbúðir. Það hefur ekki verið staðan undanfarin 10-15 ár og þessu þarf að breyta því þetta er mikið hagstjórnarmál“
Dóra telur að gagnrýni Sigurðar sé í raun pólitísk. Hér sé verið að hjóla í meirihlutann í borginni og það í málaflokk sem skiptir fólki í fylkinga.
„Mér finnst þetta snúast meira um einhvers konar pólitískar forsendur gegn meirihlutanum í Reykjavík heldur en staðreyndir og ég kalla eftir alvöru málsvara þess að við séum að standa vörð með litlum verktökum sem vilja fara að stað sem eru að kljást við mjög háan fjármagnskostnað verðbólgu og svo framvegis.“
Sigurður segir að meirihlutinn sé að slá ryki í augun á fólki með röngum yfirlýsingum um að nóg sé til að löppum og það sé iðnaðinum að kenna að ekki sé búið að byggja fleiri íbúðir.
Að lokum nýtti Sigurður færið og skaut fast á Dóru og meirihlutann:
„Ég verð að segja það bara í lokin að annað hvort þá skilur Dóra og hennar fólk í meirihlutanum ekki vandan eða þá að embættismenn í borginni eru að plata þau og niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“
„Þetta er bara hlægilegt,“ sagði Dóra þá og sagði það engu skila að rífast um hvernig skilgreina beri byggingarhæfar lóðir heldur frekar að horfa til þess hvernig sé hægt að byggja meira upp og styðja við þá aðila sem eru tilbúnir að taka þátt í uppbyggingunni.