fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Eyjan
Sunnudaginn 14. apríl 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þór Whitehaed, minn góði lærifaðir í Háskóla Íslands, lagði áherslu á að við stúdentar hans styddumst við fjölbreyttar heimildir í þekkingarleitinni. Við ritun samtíðarsögu dygði ekki að grufla í skjölum og öðrum skriflegum heimildum, ótalmargt væri hvergi skráð, ellegar sú staða uppi að nægilegur skilningur kæmi einfaldlega ekki fram nema við hefðum tal af mönnum sem væru til frásagnar um þá atburði sem við hefðum til rannsóknar.

Ég fékk snemma áhuga á þessari tegund heimilda og notaði óspart við ritun lokaverkefnis í sagnfræði undir leiðsögn Þórs en hann brýndi fyrir mér að rita minnisblöð eftir samtölin og varðveita vel. Ég hef reynt eftir fremsta megni að fylgja þessu og þegar Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, var borinn til grafar á dögunum fletti ég upp minnisblaði sem ég hafði tekið saman um fund okkar úti á Hótel Sögu í desember 2007 — en þetta var bara í annað skipti af tveimur sem ég hitti þennan merka andans mann. Einhvern veginn finnst mér samt ég hafi þekkt hann töluvert af lestri allra forystugreinanna, viðtalanna, dagbókanna og síðasta en ekki síst ljóðanna.

Ég sé á minnisblaðinu að ég hef nefnt við Matthías þá nýlega birt kvæði hans, Mídas á meðal okkar, en ég hafði meðferðis blaðaúrklippu úr Lesbókinni með ljóðinu. Matthías las fyrir mig ljóðið en það væri að sinni hyggju eina kvæðið sem ort hefði verið um samtíma okkar og sýndi hann í réttu ljósi. Kvæðið endar með þessum orðum:

þannig horfum við á asnans eyru

vaxa af hlustum þeirrar nýju samtíðar

sem hefur beðið guðina um sömu ósk

og Mídas.

Matthías sagði „mídasana“ marga á meðal vor. Árni Pálsson prófessor hefði orðað það þannig að rónarnir kæmu óorði á brennivínið og það væri eins með suma fjáraflamenn — þeir kæmu óorði á peningana; væru mídasar, en þetta samtal okkar átti sér vel að merkja stað síðla árs 2007 þegar fjármálakerfið hafði verið á yfirsnúningi allnokkra hríð. Matthías taldi sitthvað í lífsstíl efnuðustu kaupsýslumanna þessa tíma minna illþyrmilega á hverfulleik heimsins.

Að hans mati hefði gamla auðvaldið verið mun umburðarlyndara en hið nýja: auðmenn fyrri tíðar hefðu flestir brotist úr fátækt til bjargálna og það hefði að hans hyggju verið góðlegt auðvald með raunverulegar hugsjónir tengdar arfleifð og menningu þjóðarinnar. Ekki bæri mikið á slíkum mönnum lengur en hann nefndi þó Björgólf Guðmundsson, þáverandi bankaráðsformann, sem dæmi um menningarlegt auðvald í okkar samtíma. Matthías skyggndist raunar lengra aftur: Egill Skallagrímsson hefði verið peningamaður sem mat orðstír sinn meira en auð og þá ræddi hann allnokkuð um mannúðlegan kapítalisma Einars Benediktssonar.

Þær Skylla og Karybdís í túlkun ítalska sextándu aldar málarans Alessandro Allori. Ofar má sjá Skyllu sem „hefir ekki færri en tólf ólögulegar lappir og sex afarlanga hálsa, og í margar og þéttar tennur þrísetnar, fullar dimmum dauða“. Neðst er Karybdís sem „sogar í sig hið dökkva vatn“. Mynd: Wikipedia

Hræðilegt ofstæki

Í bókinni Félagi orð sem út kom 1982 segir Matthías á einum stað að tungan sé okkur í blóð borin, en samt getum við ekki talað:

þú segir frelsi

ég segi frelsi

þitt frelsi er mitt fangelsi

og mitt fangelsi er þitt ófrelsi.

Líkt og Matthíasi hafði tekist að fanga hina taumlausu auðhyggju í vísuorðum auðnaðist honum í kveðskap að túlka þau ofsafengnu þjóðfélagsátök sem kalda stríðið leiddi af sér — þar sem hugmyndafræðilægar andstæður urðu skarpari en menn hafa líklega kynnst í annan tíma.

Fjölmiðlamaðurinn Snorri Másson, sem heldur úti hinum vinsæla vefmiðli Ritstjórinn, gerði að umtalsefni í liðinni viku að þjóðfélagsumræðan yrði sífellt harðvítugri nú um stundir og nefndi sem dæmi pistil Margrétar Rutar Eddudóttur listakonu á Vísi sl. miðvikudag þar sem hún hefði kallaði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra ofbeldismann, einfaldlega vegna þess að Bjarni hefði ekki sömu afstöðu og hún til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Snorri velti því upp hvort ekki væri kaldastríðsbragur á orðbragði af þeim toga sem Margrét Rut viðhafði.

Þessar vangaveltur eru áleitnar og sitthvað er farið að minna á ofstækið í tengslum við deilur um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og veru Varnarliðsins hér. Ég skráði endurminningar Guðmundar H. Garðarssonar, alþingismanns og formanns VR, sem út komu haustið 2017. Þar segir hann frá átökum um varnarmálin á þingi Alþýðusambands Íslands á ofanverðum áttunda áratugnum, en liðið var fram á nótt einn þingdaginn og enn fundað um herstöðina á Miðnesheiði. Guðmundur var þar til varna — enda einn helsti formælandi vestrænnar varnarsamvinnu hér á landi. Gefum honum orðið:

„Fer þá einn eldri maður úr Njarðvíkum upp í pontu og segir: „Það þyrftu fleiri að verða að ryki, heldur en þeir sem farnir eru.“ Þetta var aðeins sex árum eftir andlát Bjarna Benediktssonar. Fundarstjórinn var fljótur að átta sig og reif ræðumanninn niður úr stólnum. Þetta var alveg hræðilegt hatur.“

Ýmis teikn eru á lofti í okkar samtíma um að við stefnum á nýjan leik að slíkum öfgum í þjóðfélagsumræðunni þar sem menn telja hverja þá breytni og hvert það orð sem þeim fellur ekki móðgun við sig, gremst það jafnvel líkt og tilfinningum viðkomandi hafa verið stórlega misboðið — og skirrast ekki við að nota fúkyrði um andstæðinga sína, jafnvel með svo ósmekklegum hætti að gangi fram af flestum heiðvirðum mönnum.

Látum ekki teyma okkur út í öfgar

Í nýlegum kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands bar Vaka sigurorð af Röskvu, sem haft hefur drjúgan meirihluta í Stúdentaráði undanfarin sjö ár. Mér hefur sýnst úr fjarlægð sem liðsmenn Vöku séu öllu jarðbundnari en Röskvumenn, sem hafa sumir hverjir verið uppteknari við að reyna að bjarga heiminum en sinna málefnum stúdenta, ekki ósvipað og fulltrúarnir á þingum ASÍ hér áður fyrr sem virtust allmargir gleyma fólkinu sem þeir áttu að starfa fyrir. Þessi sömu einkenni má sjá í pólitíkinni, hvort sem er í landsmálunum eða borgarmálunum: á meðan brýn hagsmunamál borgarbúa og þjóðarinnar sitja á hakanum eru kjörnir fulltrúar margir með hugann víðs fjarri Íslandsströndum og heimta að fjármunum skattgreiðenda sé eytt til að bjarga heiminum — og menn telja sig jafnvel þess umkomna að geta leyst fjarlæg stríðsátök, ellegar loftslagsvandann. Auðvitað er þetta einhver tegund firringar fólks sem ef til skortir tengingu við náttúruna og venjulegt starfslíf í landinu.

Þegar í fornöld bentu stóuspekingar á að menn hefðu náttúrulegar hneigðir til sjálfsbjargar og sjálfselsku en gerðu sér um leið grein fyrir því að aðrir hefðu sömu þarfir. Menn skyldu því yfirfæra sjálfselskuna smám saman yfir á aðra — börn sín, aðra ættingja, vini, skólafélaga, samstarfsmenn — og þá seinast óvandabundna. Hér var notast við líkinguna af gárum á vatni. Mér virðist aftur á móti sem þeir séu margir í okkar samtíma sem láti ógert að rækta garðinn sinn en ætli samt sem áður að skóla allan heiminn í jarðyrkju.

Aftur að Stúdentaráði. Ég veitti því athygli að Vaka hefur aftur fengið sitt gamla góða nafn „félag lýðræðissinnaðra stúdenta“ sem er vel, en Vaka var stofnuð árið 1935 sem andsvar við tveimur þá nýstofnuðum hreyfingum stúdenta, annars vegar Félagi róttækra stúdenta sem var flokkur kommúnista í Háskólanum og hins vegar Félagi þjóðernissinnaðra stúdenta sem skipað var ýmsum aðdáendum nasismans í Þýskalandi. Vaka varð því til sem andsvar við öfgum líkum þeim Skyllu og Karybdís, en eitt sinni á hinni löngu heimferð varar Kirka Ódysseif við hættu af tveimur dröngum — annar gnæfi upp í víðan himin með hvössum tindi sem hulinn er dimmu skýi. Í miðjum drangnum býr Skylla inni „og ýlir hræðilega“ líkt og segir í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar. Á hinum drangnum er stórt villufíkjutré allaufgað, „en undir trénu er hin ógurlega Karybdís, og sogar í sig hið dökkva vatn“.

Breski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn, Bertrand Russel, notaði þessa líkingu þegar því var stillt upp á árum kreppunnar miklu sem valið stæðið einvörðungu milli fasisma og kommúnisma — forðast skyldi slíka afarkosti og sigla sem hraðast hjá — rétt eins og Kirka býður Ódysseifi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland