Vart var Katrínu Jakobsdóttur til framdráttar að svo mjög skyldi dragast að hún lýsti yfir framboði til forseta þegar öllum mátti ljóst vera hvert hún stefndi. Og svo er að sjá sem viðræður flokkanna um stólaskipan hafi gengið brösulega — en sem fyrr virðist samstarfið umfram allt ganga út á ráðherraembætti og bitlinga. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu leiða okkur í allan sannleik um hvað gengið hefur á umliðna daga þó blaðamenn kunni að skýra sitthvað fyrir okkur næstu dægrin.
Katrín hefur lengi verið orðuð við framboð til forseta og ýmsar vísbendingar bárust um að nú léti hún til skarar skríða, til að mynda kostuð auglýsing frá vinstri grænum á fésbókinni um miðjan mars síðastliðinn þar sem með ljósmynd af Katrínu var hamrað á því að á næstu misserum yrði varið 18 milljörðum króna aukalega til barnabóta sem var liður í aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þarna var bersýnilega verið að reyna að lappa upp á laskaða ímynd Katrínar — og þar sem flokkur hennar er nær eingöngu rekinn fyrir ríkisstyrkinn var verið að nota peninga skattgreiðenda til að greiða amerísku stórfyrirtæki fyrir birtingu auglýsingarinnar. Þetta er vel að merkja flokkur sem kennir sig við sósíalísk gildi. En kannski er þetta bara táknrænt fyrir prinsipleysið almennt í stjórnmálunum.
Framboðstilkynning Katrínar var vandlega úthugsuð og líklega yfirlesin gaumgæfilega af spunameisturum. Þar var einmitt sérstaklega komið inn á loforð stjórnvalda í tengslum við nýgerða kjarasamninga — líkt og VG hafði auglýst á samfélagsmiðli áðurnefnds amerísks stórfyrirtækis. Í framboðstilkynninguna höfðu líka verið valdir „forsetalegir“ frasar. Eins og þegar hún sagði að við þyrftum „að tryggja íslenska tungu, sem er okkar rótfesta, en á sama tíma þurfum við að standa vörð um fjölbreytnina sem einkennir íslenskt samfélag.“
Það er holur hljómur í þessum orðum — unni menn raunverulega íslenskri tungu getur það ekki verið háð einhverjum fyrirvörum eins og þarna eru settir fram. Á valdatíma Katrínar hafa stjórnvöld ekkert raunverulega aðhafst til að verja tunguna sem á verulega undir högg að sækja. Þá er þarna margtuggin klisja hins pólitíska rétttrúnaðar um „fjölbreytni“ sem dyggð. Fjölbreytni hefur ekkert gildi í sjálfu sér, hún er rétt eins og einsleitni: góð og slæm eftir atvikum.
Katrín reyndi með áðurnefndri yfirlýsingu að skapa sér þá ímynd að hún skili af sér góðu búi. Ólafur Arnarson blaðamaður benti á það í pistli hér á þessum vef í gær að Katrín skildi við ríkisfjármálin og efnahagsmálin í megnum ólestri. Ríkissjóður hefði verið rekinn með halla allan valdatíma hennar og verðbólga mælist nú 6,7% — miklu hærri en í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við og kemur þetta að stórum hluta til vegna taumlausrar eyðslu hins opinbera. Ólafur bætti því við að í ríkisstjórnum Katrínar hefðu menn orðið samstiga um „að halda völdum, ráðherrum, embættum, ráðherrabílum og ráðherrabílstjórum og embættum fyrir vildarvini.“ Flumbrugangurinn við myndun nýrrar stjórnar nú er einmitt til merkis um þetta.
Og flumbrugangurinn getur hæglega laskað þá ímynd sem Katrín vill gera af sjálfri sér sem farsælum þjóðarleiðtoga — andstæðingar hennar geta jafnvel þvert á móti haldið því fram að hún skilji við Stjórnarráðið í rjúkandi rúst. Vel að merkja erum við einmitt við þær aðstæður nú að aðkoma forseta er nauðsynleg að forminu til vegna stjórnarmyndunar, en getur orðið mikil og efnisleg ef þannig ber undir, því í reynd er það forseti Íslands sem endanlega ber ábyrgð á því að það sé ríkisstjórn í landinu. Þingræði felur ekki í sér að þingið ráði — það þýðir ekki annað en ríkisstjórn njóti stuðnings meirihluta Alþingis. Það er ekki þingið sem skipar ríkisstjórn, það verður ekki gert án aðkomu forseta sem undirritar skipunarbréf hvers og eins ráðherra um sig.
Hér hefur verið tínd til ýmis gagnrýni á framboð Katrínar Jakobsdóttur sem þegar mælist með mest fylgi forsetaefna. En svo allrar sanngirni sé gætt þá þykir mér gagnrýni á framboð hennar að einu leyti ósanngjörn, en það er þegar henni er fundið það til foráttu að vera stjórnmálamaður. Ég gerði forseta Írlands, Finnlands, Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu að umtalsefni hér á þessum vettvangi fyrir nokkru, en þeir eiga það sammerkt að vera hoknir af reynslu og eru allir fyrrverandi ráðherrar og forystumenn síns stjórnarmálaflokks, rétt eins og Katrín. Það sem þó greinir þá frá Katrínu er að þeir eru flestir mun eldri (enda aðrar vestrænar þjóðir jafnan ekki eins illa haldnar af æskudýrkun og Íslendingar). Áður en Alexander Stubb var kjörinn Finnlandsforseti fyrir mánuði var meðalaldur þessara fimm forseta 77 ár. Þá eiga þessir forsetar það líka flestir sammerkt að hafa verið sestir á friðarstól er þeir voru kjörnir. Sama verður ekki sagt um Katrínu Jakobsdóttur.
Ég var á dögunum að blaða í tillögum til breytinga á stjórnarskrá frá ýmsum tímum og veitti því athygli að jafnan lutu þær að því að skerða valdheimildir forseta — sem þó er eini embættismaðurinn hérlendis sem kjörinn er í beinni kosningu allra atkvæðisbærra manna. Og nú sem fyrr í aðdraganda forsetakjörs heyrast raddir sem segja að „skýra þurfi stöðu forsetans“. Erfitt er að sjá að nokkur þörf sé þar á. Það hefur sýnt sig við hvers kyns áföll — allt frá því að sett var stjórnarskrá sjálfstæðis konungsríkis hér á landi árið 1920 — að vel hefur gengið að leysa úr hverjum þeim vanda sem upp hefur komið. Það er einfaldlega vegna þess að stjórnskipunin byggir á klassískum hugmyndum sem fram komu á 18. öld, voru útfærðar í frönsku og amerísku byltingunum og mótuðust síðan alla 19. öld. Hugmyndir sem hafa staðist tímans tönn og tryggt viðgang lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis.
Að því sögðu þarf að gæta að því að við stjórnvölinn séu hæfir menn — stjórnskipanin getur aldrei orðið sjálfvirk; það þarf lífsreynda, vel menntaða, gegna og skynsama menn til að framkvæma hana. Og ekki er hægt að segja annað en þjóðin hafi í hvert sinn valið sér afburðarhæfan einstakling til forseta.
Hið sama verður ekki sagt um mannvalið í stjórnmálunum þar sem flokkarnir raða á lista fyrir kjósendur. Þessi samanburður er verulega áleitinn og rétt að velta því upp hvort ekki væri réttara að styrkja stöðu forseta frekar en veikja hana enn frekar.