fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Dagur B. Eggertsson: Ríkisstjórn þarf stefnumál, ekki bara samkomulag um að þrauka til vors eða út kjörtímabilið

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 24. janúar 2024 15:30

Dagur B. Eggertsson er kátur með fylgi Samfylkingarinnar og meirihlutans í borginni. DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er einstök tilfinning að stinga sér í nýja sundlaug sem maður hefur fylgt eftir frá því húna var hugmyndin ein, segir Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, sem segir sundlaugina í Úlfarsárdal vera lýðheilsu- og lífsgæðamiðju fyrir Úlfarsárdal og Grafarholt. Hann telur að Reykjavíkurmódelið gæti orðið gott í ríkisstjórn en segir ekki auðvelt að mynda góða ríkisstjórn og telur teymisvinnu og þjónandi forystu gefast betur en að trúa á leiðtoga sem taki allar ákvarðanir. Stjórnarsamstarf þurfi að snúast um framkvæmd stefnu en ekki það eitt að þrauka. Dagur er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Eyjan - Dagur B - 6.mp4
play-sharp-fill

Eyjan - Dagur B - 6.mp4

„Burtséð frá forystu Samfylkingarinnar þá held ég samt að vinnubrögðin sem við höfum ræktað með okkur í ráðhúsinu geti nýst mjög víða í stjórnun, satt best að segja. Ef við myndum tala eitthvert stjórnendamál þá er þetta eitthvað sem einhver myndi kalla þjónandi forysta eða teymishugsun frekar en að trúa á einhvern einn alvitran leiðtoga sem á bara að taka allar endanlegar ákvarðanir,“ segir Dagur.

„Þetta er samkomulag en á þess að gefa eftir að hafa skýra framtíðarsýn og vita hvert þú ert að fara því að ef þú myndir fórna því að vita hvert þú ert að fara þá er samtalið ekki um neitt eða til neins heldur bara til að bregðast við atburðum dagsins. Ég held að þú þurfir að finna einhverja blöndu af þessu; að ná saman fjölbreyttum hópi um hvert þú ert að fara, hvort sem þú ert með Reykjavík eða Ísland, en nýta þér styrkinn í fólki úr mismunandi áttum með mismunandi reynslu og þekkingu til að ná raunverulegum árangri. Og þeim árangri held ég að þú náir ekki nema þú bæði getir miðlað því sem þú vilt gera og hafir úthald. Þú þarft seiglu til að koma hlutum í verk sama á hvaða vettvangi þú ert að vinna – í fyrirtækjarekstri, stýra íþróttafélagi, sveitarfélagi, borg eða landi.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér :

Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google:

Samfylkingin er að mælast hátt í 30 prósent og eins og staðan er núna, auðvitað veit maður að kosningar koma alltaf aðeins öðru vísi út en skoðanakannanir á miðju kjörtímabili, eða jafnan gera þær það. Það virðist samt stefna í það að það þurfi fleiri en tvo flokka í ríkisstjórn, alla vega ef það á að vera ríkisstjórn um þessi mál sem Samfylkingin er að leggja áherslu á. Er ekki Reykjavíkurmódelið bara nokkuð gott módel?

„Mér finnst það en þó með þeim fyrirvara að ég þekki auðvitað borgarmálin mjög vel, ég þekki fyrir hvað flokkarnir standa svona í þessum lykilmálum og ég held að það að leggja grunn að nýrri ríkisstjórn sé heilmikið hlustunarverkefni og samtal til að finna sameiginlega fleti, bæði í aðdraganda kosninga og líka eftir að sest er niður, og ég held að dýnamíkin á þingi sé kannski aðeins önnur en í borgarstjórninni. Þú hirðir ekkert frábæra ríkisstjórn upp úr götunni, þetta er vinna og þú þarft að skapa trúnað og gefa þér tíma til að finna sameiginlega fleti – sýna öðrum virðingu jafnvel þótt þú sért stærsti flokkurinn – sýna virðingu og líta ekki svo á að verkefnið snúist bara um það að lifa til vorsins eða út kjörtímabilið heldur sé áætlun um það hvert þú ert að fara í helst sem flestum lykilmálum.“

Já, er það ekki það sem skiptir máli?

„Það er alla vega það sem hefur haldið mér svona lengi í borgarmálunum. Þetta snýst ekki um leikinn, þetta snýst um verkefnin, þetta snýst um hvað þú trúir á. Krakkarnir mínir gera grín að mér þegar við erum að fara á milli staða þegar ég tek á mig krók til að skoða hvernig gengur að byggja upp nýja hverfið eða þennan skóla, eða annað slíkt. Manni líður dálítið eins og maður sé að fylgjast með, ja bara eigin börnum vaxa upp. Þú þykist vita að þetta sé svona efnilegt en það er ekki fyrr en en þetta er komið að maður getur sagt „þetta skipti máli“ eða „þetta er gott“.

Já, það hlýtur náttúrlega að vera ákveðin tilfinning að sjá eitthvað rísa úr jörðu sem þú ert búinn að vera að fylgja eftir síðan það var hugmynd á blaði.

„Já, að stinga sér fyrsta daginn sem sundlaugin í Úlfarsárdal opnaði – svona utan að frá séð virkar það kannski eins og þetta snúist um að klippa á borða og stinga sér fyrstur – en þetta er kannski verkefni sem þú hefur fylgst með síðan það þurfti að forgangsraða í fjárfestingaráætlun til að það yrði yfir höfuð til og þú manst þegar það var ákveðið, og þú lagðir til, að það yrði bætt við sundlaug vegna þess að upphaflegu plönin voru ekki um það. Og svo ertu allt í einu kominn með einhverja svona hverfismiðju, svona lýðheilsu- lífsgæðamiðju fyrir bæði Úlfarsárdal og Grafarholt sem kúrir þarna í dalnum, snýr í suður þannig að sólin skín á þig og hönnunin er svo góð að veggurinn ver fyrir þessari einstrengingslegu átt sem kemur þarna niður í átt frá Hólmsheiðinni og hugsar bara: Hér hafa arkitektarnir líka gert rosalega vel. Þetta er alveg einsök tilfinning, ég ætla ekkert að halda öðru fram,“ segir Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu
Hide picture