fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Kannski er bara komið gott af stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins

Eyjan
Sunnudaginn 4. júní 2023 16:00

Hér á sjá Narkissus í túlkun Caravaggio t.v.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Á lindarbökkum sveinnin sjúki stynur
og saknar skuggans; nóttin er hans vinur
og blæju hylur bleika unglings mynd.
En rísi sólin, sér hann sína vanga
í sorgarskugga visna daga langa,
uns vonarlaus hann verður beinagrind.
Hann engist saman, æsku horfinn móði,
því óðum þverrar fjör í sjúku blóði …

Ég rakst á dögunum þessa afbragðsþýðingu séra Matthíasar Jochumssonar á kvæði sænska þjóðskáldsins Gustafs Fröding og þetta er bara upphafið. Hér er ort um Narkissus sem var svo undurfagur að meyjar (já, og sveinar líka) sem fengu hann litið, þráðu hann í vöku og draumi. Enga þeirra virti hann viðlits ― ekki einu sinni Ekkó, hina fegurstu allra dísa. Ástin sem ekki var endurgoldin hélt vöku fyrir Ekkó sem tærðist upp svo ekkert varð eftir nema röddin. Upp frá því felst hún í skóginum, heyrist alls staðar en sést hvergi.

Flestir þekkja þau örlög sem lögð voru á Narkissus: að veslast upp við lindina þar sem hann starði á spegilmynd sína. Hinn íðilfagri Narkissus er vakinn til veruleikans; hann finnur ekki fegurð lífsins í spegilmynd sinni ― þetta er tálsýn ein.

Skrumskæling

Við lifum á tímum þar sem tæknirisarnir ― sum stærstu fyrirtæki heims ― ala á sjálfsdýrkun fólks, sér í lagi ungmenna. „Cogito, ergo sum‟ mælti Réne Descartes forðum daga ― ég hugsa þess vegna er ég. Komið er fram nýtt ergo: ég er vegna þess að aðrir sjá mig. Yfirborðsmennskan sem þessu fylgir verður gjarnan svo mikil að menn sýna sjálfum sér og öðrum skrumskælda mynd en tæknin gerir mönnum líka kleift að fægja ásýndina. Samfélagsmiðlar hafa að vonum reynst sérlega árangursríkt tæki í stjórnmálabaráttu. Ráðherrann stillir sér valdsmannslegur upp á mynd með hinum og þessum og viðtakendur á samfélagsmiðlinum dást að dugnaðinum ― þrátt fyrir að oft búi lítið sem ekkert að baki.

Ýmis teikn eru á lofti um að sjálf stjórnmálaumræðan sé að verða þessu marki brennd. Fjármálaráðherra sagði í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins 26. maí sl. að fjárlög styddu „ágætlega við markmið um lækkandi verðbólgu“. Týr Viðskiptablaðsins benti á að ótrúlegt væri að fjármálaráðherra teldi fjárlög sem gerðu ráð fyrir 120 milljarða halla á þenslutímum styðja vel við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Ráðherrann væri utan gátta. Svo gæti farið að þrálát verðbólga og háir vextir yrðu viðvarandi vegna þess að stjórnvöld svæfu á verðinum.

Suma menn skortir tilfinninguna fyrir því sem við á og því sem er óviðeigandi. Skort á þeirri tilfinningu mætti kalla taktleysi. Fjármálaráðherra varði fyrirhugaðar launahækkanir æðstu embættismanna á dögunum með skírskotun til þess að hvort eð er væri um að ræða raunlaunalækkun. Á tímum dýrtíðar halda tekjur manna sjaldnast í við verðlag. Það þekkja Íslendingar af biturri reynslu.

Enginn deilir um það að hækkun launa æðstu embættismanna vegur ekki þungt í stóra samhengi ríkisfjármálanna. En skilaboðin eru kolröng á ríkjandi þensluskeiði.

Launahækkanirnar eru ekki einasta dæmið um taktleysið. Í kjölfar rándýrra breytinga á Stjórnarráðinu á að koma tveimur ráðuneytum fyrir í glænýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Kalkofnsveg. Alþingi reisir sér stórhýsi við Vonarstræti og í undirbúningi er mikil viðbygging við Stjórnarráðshúsið. Í nýjasta eintaki Viðskiptablaðsins er greint frá því að stöðugildum hjá Stjórnarráðinu hafi fjölgað um 156 á sjö árum. Hvað höfðingjarnir hafast að: hinir meina sér leyfist það.

Vinda þarf ofan af hækkuninni

Eftir höfðinu dansa limirnir og engin furða að illa gangi að hafa hemil á ríkisútgjöldum þegar framlög til æðstu stjórnsýslu aukast svo hratt. Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambandsins, hefur bent réttilega á að þingmenn og ráðherrar verði að sýna ábyrgð. Hámarkshækkun launa á almennum vinnumarkaði nam 66 þúsund krónum í síðustu kjarasamningum og ótækt að laun æðstu embættismanna hækki umfram það.

Þegar Guðna Th. Jóhannessyni, þá nýkjörnum forseta var veitt 338 þúsund króna launahækkun á einu bretti varð honum að orði:

„Ég bað ekki um þessa kauphækkun. Ég vissi ekki af þessari kauphækkun. Ég þarf ekki þessa kauphækkun. Margir þingmenn hafa lýst andúð sinni á þessari ákvörðun kjararáðs. Ég vænti þess að þingið vindi þá ofan af þessari ákvörðun.“

Auðvitað þarf Alþingi að vinda ofan af þeirri hækkun sem nú blasir við en ummæli fjármálaráðherra vekja upp áleitnar spurningar um stöðu Sjálfstæðisflokksins sem nýverið fagnaði tíu ára samfelldri stjórnarsetu. Flokkurinn hefur lengi státað sig af því að vera flokkur aðhalds í ríkisfjármálum en slíkra grundvallarsjónarmiða sér ekki stað við hagstjórnina. Þegar kemur að grundvallarmálum er innihaldsleysið slíkt að ef til vill væri best að flokkurinn settist í stjórnarandstöðu um hríð. En kannski snýst þetta bara ekki um hugmyndafræði ― heldur að hanga á valdastólum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð