Stjórn Kviku banka óskaði eftir því í dag við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli félaganna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem búist er við að afstaða stjórnar Íslandsbanka liggi fyrir á næstu dögum.
Stjórn Kviku telur að samruni félaganna skapi fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki með dreifðan tekjugrunn. Í sameinuðu félagi væri mögulegt að veita viðskiptavinum aukna þjónustu og leiða til meiri samkeppni á fjármálamarkaði, meðal annars með fjártæknilausnum, auk þess sem sameinað félag yrði áhugaverður fjárfestingakostur.
Ekki þykir ástæða að ákveða á þessari stundu hvor bankanna yrði yfirtökufélagið eða hvort og að hvaða marki dótturfélög bankanna myndu sameinast en það færi eftir heildarmati á viðskiptalegum, skattalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum sem myndi eiga sér stað ef formlegar viðræður hefjast.