fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að halda aftur af glundroðanum

Eyjan
Sunnudaginn 31. desember 2023 14:30

Pallas Aþena í túlkun austurríska málarans Gustavs Klimt frá árinu 1898.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekkert barna Seifs var honum jafnkært og Pallas Aþena. Fæðingu hennar í heim goðmagna bar þó að með undarlegum hætti í meira lagi. Móðir hennar var Metis, viskan sjálf. Um samband Seifs og Metisar hafði því verið spáð að þau eignuðust fyrst dóttur sem yrði föður sínum jafnoki að viti og krafti en því næst son er bæri föður sinn ofurliði. Í ljósi þessa spádóms afréð Seifur að breyta ástkonu sinni í flugu og gleypti hana því næst. Hann var þess þá óafvitandi að Metis var þunguð og þegar kom að því að barnið skyldi fæðast fékk hann ógurlegan höfuðverk. Smíðaguðinn Hefaistos hjó þá gat á höfuð Seifs. Út spratt alvopnuð og fullsköpuð Pallas Aþena og æpti heróp svo undir tók í fjöllum. Síðan er haft að orðatiltæki þegar einhver ryðst fram á völlinn fullskapaður að það sé sem fæðing Aþenu.

Grundvallargildi til vegs og virðingar

En þetta er auðvitað bara goðsaga og á sem slík lítið skylt við raunveruleikann, því viska og þekking, hvort sem er til hugar eða handa, er seintekin. Hún verður ekki hrist fram úr erminni, heldur er hún afrakstur þrotlausrar vinnu og hugsunar, árum og jafnvel áratugum saman — og í þekkingaröflun er byggt á reynslu kynslóðanna, allt aftur til grískrar fornaldar þar sem Evrópumenningin kviknaði.

Eitt áhugaverðasta viðtal sem ég las á árinu birtist í franska vikuritinu Le Point í ágústmánuði. Blaðamaður ræddi þar við Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem varaði hvort tveggja við uppgangi einræðisafla sem og félagslegi upplausn á Vesturlöndum þar sem grafið væri undan rótgrónum gildum og yfirvaldi sömuleiðis. Sem andsvar við öfgaöflunum teldi hann rétt að byggja á grunni húmanismans sem fram kom á upplýsingaöld . Til að bregðast við alvarlegri félagslegri hnignun þyrfti að hefja til vegs og virðingar klassísk grunngildi. Þar væri þjóðtungan efst á blaði, hún væri helsta sameiningarafl ríkisins og þá yrði að endurheimta agavald kennara og agavald foreldra og talaði hann í þessu sambandi um „rebâtir la nation“ sem mætti kannski útleggja sem þjóðfélagslega endurreisn. Hvað skólana áhrærði hefði of mikil áhersla verið lögð á umgjörð í stað innihalds — skólinn þyrfti færri tölvuskjái og meiri menntun.

Skólarnir gegna lykilhlutverki

Einhver alvarlegasta frétt sem okkur barst á árinu sem senn er liðið var enn ein staðfestingin á bágborinni grunnþekkingu íslenskra ungmenna. En í umræðum um menntahnignunina var eins og flestir veigruðu sér við að nefna höfuðvandann, sem er almennt agaleysi í þjóðfélaginu og þar með talið í skólum. Ég vísaði til ummæla Macron Frakklandsforseta hér að framan þess efnis að efla þyrfti aga og reglu í þjóðfélaginu og hann nefnir þar sérstaklega skólana. Þeir gegna mikilvægu hlutverki í almennu uppeldi barna, unglinga og ungs fólks. Þar er rétt að menn læri virðingu, umburðarlyndi og aga.

Hér á landi þyrfti að setja formleg viðmið um kurteisi, umgengni og virðingu á öllum skólastigum og kynna þær reglur rækilega úti í samfélaginu. Einnig þarf að búa stjórnendum skóla raunveruleg úrræði til að taka á málum af festu — að þeir geti beitt agaviðurlögum gerist þess þörf. Svo virðist sem hluti vandans felist í því að skólastjórnendur standa í mörgum tilfellum ráðþrota gagnvart ofstopafullum nemendum.

Raunveruleg þekking er seintekin

Flestir sem lært hafa nokkra eðlisfræði þekkja til annars lögmáls varmafræðinnar sem felur það í sér óreiða geti aldrei minnkað í lokuðu kerfi sem ekki skiptir á varma við umhverfi sitt. Varasamt getur verið að heimfæra eðlisfræðilögmál upp á mannlegt samfélag en oft eru hliðstæðurnar samt augljósar. Við blasir að það útheimtir vinnu að draga úr óreiðunni í mannlegu samfélagi. Það að afla sér raunverulegrar þekkingar krefst áralangs erfiðis. Bullið sprettur aftur á móti fram án fyrirhafnar og ef ekki kæmi til hvers kyns raunveruleg menntun ykist glundroðinn viðstöðulaust. Minn gamli eðlisfræðikennari í Menntaskóla notaðist stundum við hlaðinn grjótvegg sem líkingu um aukna óreiðu (þó ekki væri um lokað kerfi að ræða). Yrði engri orku varið í viðhald hans hryndi hann saman með tímanum.

Og verði ekkert að gert til að efla almenna menntun og aga í samfélaginu mun það leiða til enn meiri menningarlegrar hnignunar og jafnvel glundroða. Með hnignun tungumálsins verður öll hugsun fátæklegri og fólk sem skortir orð til að tjá sig er líklegra til að beita villimannslegum aðferðum við að koma skoðunum sínum á framfæri, svo sem með því að brenna fána og trúarrit, leggja eld að bifreiðum eða einfaldlega lumbra á samborgurum sínum. Raunveruleg þekking er seintekin en niðurbrot menningar getur átt sér stað á undraskömmum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar