Væntanlega hafa þau miklu pólitísku tíðindi dagsins ekki farið framhjá mörgum að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi ákveðið að víkja úr ráðherrastólnum vegna þeirrar niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis að Bjarni hafi verið vanhæfur til að koma að sölu á eignahlut ríkisins í Íslandsbanka í ljósi þess að faðir hans var meðal þeirra sem keyptu hlutabréfin af ríkinu.
Bjarni er sjöundi ráðherrann, síðan Ísland varð lýðveldi 1944, sem segir af sér ráðherradómi vegna aðfinnslna um störf og embættisfærslur viðkomandi ráðherra. Af þessu tilefni rifjar DV upp hinar sex afsagnirnar.
Albert Guðmundsson var fyrsti Íslendingurinn til að verða atvinnumaður í knattspyrnu og fyrsti ráðherrann til að segja af sér í lýðveldissögunni. Árið 1987 var hann iðnaðarráðherra og sat í ríkisstjórninni af hálfu Sjálfstæðisflokksins en þá kom upp úr krafsinu að árin 1984 og 1985 fékk heildsala sem Albert hafði lengi átt greiðslur frá skipafélaginu Hafskip sem námu samtals 230 þúsund krónum sem ekki voru taldar fram til skatts. Albert sagðist ekki hafa haft afskipti af rekstri heildverslunarinnar í um einn og hálfan áratug en málið þótti alvarlegt sérstaklega í ljósi þess að þegar greiðslunar bárust var Albert fjármálaráðherra og þar með æðsti yfirmaður skattamála í landinu.
Þorsteinn Pálsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, tjáði fjölmiðlum að málið væri þess vegna sérstaklega alvarlegt. Hann og fleiri forystumenn í Sjálfstæðisflokknum þrýstu mjög á um að Albert segði af sér.
Albert vildi sitja sem fastast en gaf að lokum eftir. Hann var á þessum árum nokkuð vinsæll ekki síst meðal tekjulágs alþýðufólks og var oft kallaður vinur litla mannsins. Albert átti öflugan kjarna stuðningsmanna sem yfirleitt var kallaður Hulduherinn. Svo vildi til að afsögnina bar upp ekki svo löngu fyrir alþingiskosningarnar vorið 1987. Með hjálp Hulduhersins bauð Albert fram í öllum kjördæmum undir merkjum Borgaraflokksins og fékk flokkurinn 7 þingmenn kjörna. Þrátt fyrir það varð stjórnmálaferill Alberts ekki mikið lengri. Hann lét af þingmennsku árið 1989 og varð sendiherra Íslands í Frakklandi. Var sú stöðuveiting ekki síst hugsuð til að auðvelda það að Borgaraflokkurinn gæti gengið til liðs við ríkisstjórn Framsóknarflokksins, Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins.
Guðmundur Árni Stefánsson tók um miðjan júní 1993 við embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Ári síðar færði hann sig yfir í félagsmálaráðuneytið en var ekki langlífur þar því hann sagði af sér ráðherradómi í nóvember 1994. Tilefnið var skýrsla Ríkisendurskoðunar um embættisverk hans. Samkvæmt umfjöllun Vísis frá 2014 varðaði helsta aðfinnsluefni Ríkisendurskoðunar starfslok Björns Önundarsonar tryggingayfirlæknis í nóvember árið 1993, en hann hafði fengið greiddar þrjár milljónir króna vegna uppgjörs á áunnu námsleyfi gegn því að hann segði upp störfum.
Þegar hann tilkynnti um afsögn sína sagði Guðmundur Árni að hann hefði tekið ákvörðun um að segja af sér án sakarefna og þrýstings og láta þannig minni hagsmuni víkja fyrir meiri.
Guðmundur sat áfram á þingi en var gerður að sendiherra árið 2005. Hann sagði í viðtali við Mannlíf í febrúar 2022:
„Já, ég hefði getað gert hlutina betur … Þetta var erfiður tími en ég átta mig á því að ég gerði rétt; pólitík snýst ekki bara um eigið egó heldur líka hina stóru mynd.”
Í viðtalinu við Mannlíf sagðist Guðmundur Árni ekki laus við áhuga á að skella sér aftur í stjórnmálin. Það gerði hann strax um vorið og varð oddviti Samfylkingarinnar í heimabæ sínum Hafnarfirði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2022. Guðmundur var einnig kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar og er talinn líklegur oddviti flokksins í suðvesturkjördæmi í næstu Alþingiskosningum.
Þegar bankahrunið skall á í október árið 2008 var Björgvin G. Sigurðsson, úr Samfylkingunni, viðskiptaráðherra og þar með ráðherra bankamála. Hávær krafa var þegar uppi um að hann og í raun ríkisstjórnin öll myndi segja af sér og boðað yrði þegar í stað til alþingisskosninga. Björgvin hafnaði því að víkja og sat sem fastast.
Þegar óróinn fór vaxandi í þjóðfélaginu og efnahagsástandið snarversnaði lét stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar loks undan. Í lok janúar 2009 daginn áður en stjórnarsamstarfinu var endanlega slitið sagði Björgvin af sér en þá þótti ljóst í hvað stenfdi með líf ríkisstjórnarinnar. Björgvin opinberaði þá að hann hefði viljað segja af sér þegar hrunið skall á en hann var fenginn ofan af því.
Síðar kom í ljós, í rannsóknarskýrslu Alþingis, að Björgvini hefði að miklu leyti verið haldið fjarri þeim ákvörðunum sem teknar voru af forystufólki ríkisstjórnarinnar þegar kom að viðbrögðum vegna erfiðleika íslensku bankanna.
Björgvin var endurkjörinn á Alþingi í kosningunum sem boðað var til vorið 2009 en náði ekki kjöri 2013. Hann hefur verið orðaður við endurkomu í stjórnmálin.
Meðal sparnaðarráðstafana ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðadóttur, sem sat frá 2009-2013, var að sameina ráðuneyti. Meðal ráðuneyta sem runnu inn í nýtt innanríkisráðuneyti var dómsmálaráðuneytið. Við stjórnarskipti vorið 2013 tók Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, við sem innanríkisráðherra.
Í nóvember 2013 birtu fjölmiðlar trúnaðarupplýsingar um hælisleitandann Tony Amos sem fengnar voru úr minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu. Gísli Freyr Valdórsson aðstoðarmaður Hönnu Birnu neitaði að ráðherrann eða pólitískir aðstoðarmenn hennar hefðu lekið minnisblaðinu. Ráðuneytið neitaði að embættismenn þess bæru ábyrgð á lekanum.
Lögmaður Omos lagði fram kæru á hendur Hönnu Birnu og ráðuneytinu og formleg lögreglurannsókn var hafin. Hanna Birna var sökuð um afskipti af rannsókninni en Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hætti störfum á meðan rannsókninni stóð. Hann neitaði því hins vegar að það væri vegna afskipta Hönnu Birnu.
Gísli Freyr var ákærður fyrir að leka minnisblaðinu til fjölmiðla og eftir það voru dómsmál flutt úr innanríkisráðuneytinu. Hanna Birna sat áfram en skömmu áður en aðalmeðferð í máli hans hófst í nóvember 2014 játaði Gísli Freyr að hann hefði lekið umræddu minnisblaði til fjölmiðla. Stuðningur við Hönnu Birnu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þvarr hratt og hún sagði loks af sér.
Vorið 2016 mætti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, í viðtal í Ráðherrabústaðnum við fréttamann fréttaskýringarþáttar sænska ríkissjónvarpsins Uppdrag granskning. Sigmundi að óvörum hóf sænski fréttamaðurinn að spyrja hann um aflandsfélagið Wintris sem Sigmundur hafði verið skráður eigandi að. Tók þá Jóhannes Kr. Kristjánsson fréttamaður við viðtalinu og stuttu síðar gekk Sigmundur út. Viðtalið var sýnt í sérstökum þætti á RÚV þar sem meðal annars var gerð grein fyrir eign Sigmundar á Wintris, sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, en hann hafði átt félagið ásamt eiginkonu sinni en síðar selt henni hlut sinn.
Eftir þáttinn voru háværar kröfur uppi meðal almennings um að Sigmundur myndi segja af sér og fjölmenn mótmæli fóru fram á Austurvelli. Sigmundur ætlaði sér að sitja sem fastast og bíða af sér storminn. Í umfjöllun Kjarnans frá 2016 segir að Sigmundur Davíð hafi sjálfur sagt á Facebook-síðu sinni að hann hefði sagt á fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að ef þingmenn þess flokks treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta. Sigmundur hélt á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, en þeim bar ekki saman um hvað þeim fór á milli. Ólafur sagðist hafa hafnað beiðni Sigmundar um þingrof en Sigmundur neitaði að hafa lagt slíka beiðni fram.
Simundur sagði fljótlega eftir þennan fund af sér sem forsætisráðherra. Varaformaður, Sigurður Ingi Jóhansson, tók við forsætisráðuneytinu og kosningum var flýtt til haustins 2016. Sigurður Ingi bar sigurorð af Sigmundi í formannskjöri Framsóknarflokksins. Sigmundur yfirgaf þá Framsóknarflokkinn og stofnaði Miðflokkinn sem hann leiðir enn og situr á þingi fyrir.
Þegar kom að því að stofna nýtt millidómsstig, Landsrétt, kom það í hlut dómsmálaráðherra, Sigríðar Andersen úr Sjálfstæðisflokknum, að skipa dómara við réttinn. Sérstök hæfnisnefnd var skipuð til að meta hæfni umsækjenda en Sigríður vék að nokkru leyti frá niðurstöðum nefndarinnar og tilnefndi ekki nokkra umsækjendur sem metnir voru meðal hæfustu umsækjendanna. Deilt var um það á Alþingi og víðar hvort Sigríður hefði farið rétt að í málinu og hvort hún hefði fylgt lögum. Hún fyllyrti að svo væri. Umsækjendurnir unnu að lokum dómsmál sem þeir höfðuðu á hendur íslenska ríkinu. Vantrauststillaga var lögð fram á hendur Sigríði á Alþingi en var felld. Kröfur voru uppi um afsögn hennar en hún sagðist hvergi fara.
Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu tók til meðferðar dómsmál sem höfðað var af lögmanni manns sem dæmdur hafði verið í Landsrétti af einum dómaranna sem skipaður var en ekki metinn meðal hæfustu umsækjenda af hæfnisnefndinni komst hann að þeirri niðurstöðu, vorið 2019, að réttur mannsins til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi hefði verið brotinn.
Kröfur vöknuðu á ný um afsögn Sigríðar og daginn eftir að Mannréttindadómstólinn kvað upp úrskurð sinn sagði hún af sér.
Sigríður hlaut ekki brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar og starfar um þessar mundir sem lögmaður.