fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Lifa Vinstri græn af brotthvarf Katrínar?

Eyjan
Föstudaginn 6. október 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt orðinu á götunni hefur Katrín Jakobsdóttir ákveðið að bjóða sig ekki oftar fram til setu á Alþingi Íslendinga. Hún hefur nú gegnt starfi þingmanns frá árinu 2007 og var ráðherra menntamála í hinni óvinsælu vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2009 til 2013. Lítið fór fyrir Katrínu í þeirri ríkisstjórn enda sagði Steingrímur Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, við Katrínu að hún skyldi fara í menntamálin og láta lítið á sér bera þar en hann myndi taka á sig allt hið erfiða og óvinsæla. Gekk það eftir. Flokkur þeirra var við það að þurrkast út samkvæmt skoðanakönnunum þegar Steingrímur vék og Katrín tók við formennsku og leiddi flokkinn í gegnum kosningarnar 2013 og æ síðan. Fylgið braggaðist aðeins við formannsskiptin 2013. Alla vega féllu Vinstri græn þá ekki út af þingi.

Eftir aflandshneyksli Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar árið 2016 braggaðist fylgi Vinstri grænna mjög sem leiddi til þess að eftir kosningarnar 2017 þótti formönnum Tortóla-flokkanna rétt að afhenda sósíalistaleiðtoganum lyklana að forsætisráðuneytinu eftir að flokkur Katrínar hlaut 16,9 prósenta fylgi í kosningum. Þessir tveir flokkar endurtóku svo leikinn fyrir tveimur árum þótt flokkur Katrínar hefði tapað umtalsverðu fylgi. Að ekki sé nú talað um þróun fylgis samkvæmt skoðanakönnunum það sem af er árinu 2023 þar sem allt bendir til þess að Vinstri græn gætu fallið út af Alþingi að óbreyttu. Fylgi þeirra mælist nú á bilinu 5,7 til 7 prósent en að lágmarki þarf 5 prósent til að koma manni á þing.

Katrín ber sig ávallt vel. Kemur afslöppuð fyrir í fjölmiðlum og brosir út að eyrum þegar hún er í námunda við NATO-leiðtogana en flokkur hennar er og hefur alltaf verið á móti NATO. Hins vegar er fullyrt að henni líði ákaflega illa með alla gagnrýni og þoli mótbyr alls ekki þó að hún beri sig vel. Lélegt fylgi og vaxandi ágreiningur innan flokksins og í ríkisstjórninni er smám saman að buga Katrínu. Hún vill losna. En hún er ábyrg og ætlar ekki að skilja flokkinn eftir í rústum.

Katrín vill trúa því að með því að þrauka með þessa lifandi dauðu ríkisstjórn geti hún farið í lok kjörtímabilsins árið 2025, hvort sem kosið verður að hausti eða vori sem væri mun eðlilegra. Þá væntir hún þess að verðbólga hafi lækkað og þar með vextir. Með því gæti dregið eitthvað úr óvinsældum ríkisstjórnar hennar. Óvíst er að svo fari en gæti þó gerst. Mörg önnur vandræðamál þjaka vinstri stjórn Karínar, á borð við útlendingamál, átök um orkuöflun, stefnu í skattamálum og fjölmargt annað.

En allir eru mannlegir og Katrín á líf utan stjórnmálanna, eiginmann og börn sem þarf einnig að sinna. Draumur hennar mun vera að komast frá stjórnmálavafstrinu á Íslandi og taka við starfi hjá UNESCO í París. Hún er veik fyrir Frakklandi, enda mun hún hafa tekið einhver námskeið í frönsku við Háskóla íslands á námsárum sínum og langar til að spreyta sig á þeim vettvangi. Þá er talið að hana dreymi enn um að verða kjörin forseti Íslands þegar Guðni Jóhannesson stígur af stóli, trúlega árið 2028. Það mun hins vegar ekki gerast. Um tíma var talið að hún ætti fylgi að fagna til að gegna þessu mikilvæga embætti en eftir brösóttan feril vinstri stjórnar hennar er hún rúin trausti líkt og skoðanakannanir sýna.

Áður hefur verið prófað á Íslandi að hverfa út fyrir landsteinana og koma svo heim til að verða forseti. Árið 1968 gerði Gunnar Thoroddsen það, en hann var virtasti og vinsælasti  borgarstjóri Íslandssögunnar og ráðherra. Gunnar hvarf á vettvangi, fór utan, kom heim og steinlá fyrir Kristjáni Eldjárn forsetakosningunum eins og kunnugt er. Eins gæti farið fyrir Katrínu og verður að telja það líkleg örlög hennar ákveði hún að gera atlögu að forsetaembættinu.

Einn kemur þá annar fer. Mannval er ekki mikið hjá Vinstri grænum og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra og núverandi varaformaður, getur ekki tekið við flokknum – til þess nýtur hann of takmarkaðs fylgis. Er nú rætt um að Svandís Svavarsdóttir taki við formennsku af Katrínu. Þær eru nánar þótt mikill pólitískur munur sé á þeim. Katrín er sósíaldemókrati en Svandís er kommi. Með yfirtöku hennar á flokknum kæmi mótvægi við Sósíalistaflokk Íslands, flokk Gunnars Smára, fyrrum stórforstjóra. Með Svandísi kæmi alvöru keppinautur við Gunnar og ætla má að fyrstu kosningar þar sem þau tækjust á gætu ráðið úrslitum um það hvort Vinstri græn eða Sósíalistaflokkur Gunnars Smára lifði af.

Annar hvor þessara flokka mun þá falla endanlega út og orðið á götunni er að lítill söknuður yrði jafnvel þótt báðir geispuðu golunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast