Örn Svavarsson, stofnandi Heilsuhússins og fyrrverandi meðlimur í trúfélaginu Vottum Jehóva vekur athygli á nýlegum dóm sem féll í Noregi í pistli sem hann birti hjá Vísi.
Bendir Örn á að árið 2021 hafi ný lög tekið gildi í Noregi um trúfélög. Þar sé að finna ákvæði um úrsögn úr trúfélagi og kveðið á um með afdráttarlausum hætti að sá sem vill yfirgefa trúfélag eigi að geta slíkt án minnstu afleiðinga af hálfu félagsins.
Rétt fyrir síðustu jól hafi svo, vegna nýrra laga, réttur Votta Jehóva til að skrá sig sem löglegt trúfélag afnuminn sökum þess að trúfélagið kveður á um að ef aðilar hætta eða eru reknir úr félaginu þá beri öðrum að hundsa þá með öllu.
„Í ritum trúfélagsins sem og á heimasíðu þess eru leiðbeiningar um hvernig einangra skuli útskúfaða frá samneyti við sitt venslafólk, meira að segja ungt fólk sem alið hefur allan sinn aldur innan vébanda safnaðarins, jafnvel unglinga.“
Þessi ákvörðun í Noregi hafi haft þær afleiðingar á söfnuðinn að þeim sé nú meinað að fá ríkisstyrk sem öll skráð trúfélög eiga rétt á, líkt og hér á landi. Ákváðu norskir vottar því að fara í mál við ríkið, en fengu fyrst lögbann á ákvörðun ráðuneytis um að neita þeim um skráningu, og féll dómur í málinu 26. apríl síðast liðinn.
„Niðurstaðan er afdráttarlaus, lögbanninu var hnekkt. Útskúfunin brýtur gegn ákvæði laganna um frelsi til að yfirgefa trúfélag án afleiðinga af hálfu félagsins. Bent er á í dómnum að slík hunsun hafi í raun alvarlegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir hinn útskúfaða, heldur ekki síður fyrir innansafnaðarfólk, sem gert er að hunsa góðan vin og ættingja.“
Varðandi börn felur útskúfunin í sér neikvæðan félagslegan yfirgang og andlega valdbeitingu sem brýtur á réttindum barnsins, segir Liv Inger Gjone Gabrielsen, lögmaður ráðuneytisins. Hún hnykkir á því að afleiðingar þessara aðgerða safnaðarmeðlima gagnvart brottreknum geta verið alvarlegar.“
Örn segir að hverjum safnaðarmeðlimi í Vottum Jehóva sé ljóst að ef hann segir skilið við söfnuðinn þá missi hann samband við fjölskyldu og vini sem hann hefur alist upp með eða varið ævinni með að hluta eða öllu. Dómstólar í Noregi hafi sagt að þetta sé ekkert annað en hindrun. Nýju lögin séu afdráttarlaus um að trúfélög megi ekki leggja hindranir eða setja skilyrði fyrir því að fólk segi sig úr félaginu.
Nú sitji Vottar í Noregi uppi með um 20 til 30 milljón króna málskostnað og árlegt tekjutap upp á um 200 milljónir í töpuðum ríkisstyrk.
Örn hefur áður tjáð sig um málefni Votta Jehóva. Hann steig fram í umfjöllun íslenskra fjölmiðla um meint ofbeldi innan söfnuða félagsins. Hann var alinn upp sem vottur Jehóva frá „blautu barnsbeini af mjög trúheitri móður“. Hann hefur bent á að valfrelsi meðal Votta sé ekki virt þar sem það hafi í för með sér útskúfun úr samfélaginu ef meðlimir ganga af trúnni. Hann skrifaði í grein sem birtist í Morgunblaðinu í mars:
„Vottur sem missir trúna á guðinn Jehóva og félag hans, eða velur að lifa sínu lífi með öðrum hætti en félagið býður, er rekinn. Fólk er smánað. Útskúfun þar sem öllu þess fólki, æskuvinum jafnt sem frændfólki, nánustu fjölskyldu, jafnvel systkinum, foreldrum og börnum er bannað að hafa við það nokkurt samneyti, er andstyggilegt form refsingar, andlegt ofbeldi í sinni verstu mynd. Þegar heilt samfélag tekur sig saman um að leggja fæð á einn einstakling, þegar heill söfnuður fær fyrirmæli frá sínum andlegu leiðtogum um að hunsa einn úr sínum hópi með öllu, virða hann ekki viðlits frekar en að hann hefði aldrei verið til, þá eru slíkar öfgafullar aðgerðir einelti á hæsta stigi og hrópleg brot á mannréttindum.“
Sjá einnig: Takast á um Votta Jehóva – „Andstyggilegt form refsingar, andlegt ofbeldi í sinni verstu mynd“
Nú er spurning hvort að áþekkar breytingar verði gerðar á íslenskri löggjöf. Á yfirstandandi löggjafarþingi hefur Hildur Sverrisdóttir lagt fram frumvarp þar sem meðal annars eru lagðar til þær breytingar á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög að úrsögnum geti verið beint til Þjóðskrár fremur en til forstöðumanns þess félags sem í hlut á. Í frumvarpinu segir:
„Sú framkvæmd er þeim annmarka háð að í vissum tilvikum á úrsögn úr trúfélögum, lífsskoðunarfélögum eða þjóðkirkjunni rætur sínar að rekja til afstöðu þess sem vill yfirgefa félagið til forstöðumanns félagsins eða annarra sem að því standa. Dæmi eru um að ofbeldi sé beitt innan félaga sem heyra undir lögin. Íþyngjandi getur verið fyrir einstaklinga sem hefur orðið fyrir slíku ofbeldi að þurfa að leita til sama fólks og braut gegn honum til að segja sig úr félaginu.“
Tvær umsagnir hafa borist við frumvarpið og er önnur þeirra frá óstofnuðum Samtökum áhugafólks um trúarofbeldi. Er í umsögninni sérstaklega vikið að söfnuði Votta Jehóva hér á landi og útskúfun einstaklinga sem kjósa að yfirgefa söfnuðinn.
„Afleiðingar útskúfunar geta verið mjög alvarlegar. Félagsleg útskúfun, þar sem lokað er á tengsl einstaklings við félagslegt stuðningsnet og nána fjölskyldumeðlimi, er í raun tengslaáfall sem getur valdið sálrænum áverka sem erfitt getur verið fyrir þann sem fyrir verður að vinna úr. Einstaklingar sem upplifa útskúfun eru mun líklegri til að þess að þurfa að takast á við sálræna erfiðleika sem geta haft djúpstæð áhrif á líf viðkomandi. Auknar líkur eru á að einstaklingurinn upplifi streitu, kvíða og ótta sem getur leitt til ýmissa raskana. Auknar líkur eru á sjálfsmorðshugsun, kulnun og örorku.“
Í umsögninni er bent á lagabreytinguna í Noregi og á að skráning Votta hafi þar verið afturkölluð. Söfnuði votta á Íslandi sé stýrt af deildanefndinni í Danmörku sem einnig fari með stjórn safnaðar votta í Noregi og öðrum Norðurlöndum. Óska fulltrúar samtakanna eftir því að fá að koma fyrir nefnd, fái frumvarpið framgang.
Í janúar var eins samþykkt á Alþingi að afla skýrslu um stöðu barna innan trúfélaga og þá meðal annars um þær félagslegu hindranir sem börn og ungmenni kunni að mæta óski þau að yfirgefa trú- eða lífsskoðunarfélag, eða eins og það er orðað í skýrslubeiðni sé það „eðlilegt að kanna hvort félagslegar hindranir (svo sem ógnarstjórn og ótti við útskúfun) og sálfræðileg áhrif geti valdið því að börn skrái sig ekki úr trú- og lífsskoðunarfélögum.“