fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ofsafengið scherzó 

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 26. febrúar 2023 16:02

Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sinfóníuhljómsveitin lék á fimmtudagskvöldið var píanókonsert nr. 2 eftir Sergej Rakhmanínov. Einleikari var hinn heimskunni Sir Stephen Hough. Eftir hlé flutti sveitin verk annars Rússa, Dmítríj Shostakovitsj, líklega þekktasta tónskálds Sovéttímans. Á efnisskránni var 10. sinfónía tónskáldsins en þar mun Jósef Stalín vera yrkisefnið ef marka má bók tónlistarfræðingsins Solomon Volkov. Bók Volkovs, Testimony eða Vitnisburður (r. Свидетельство), er talin vera byggð á samtölum hans við Shostakovitsj. Annar kafli 10. hljómkviðunnar, allegro, er hratt og ofsafengið scherzó en í bók Volkovs segir að kaflinn sé „mynd af Stalín í tónum“. Bókin kom út 1979 og kvikmynd Tony Palmer byggð á henni var frumsýnd árið 1987 með Ben Kingsley í aðallhlutverki. Myndin er beitt ádeila á einræði, persónuofsóknir og morðæði Stalíns. Útlegging Palmer er sú að Shostakovitsj hafi samið sín fegurstu verk í andstöðu við Stalín og þegar hann er látinn vitja harðstjórans á dánarbeðinum segir Kingsley í hlutverki tónskáldsins: „Ég er óvinurinn sem þú elskaðir að hata.“ 

Rakhmanínov hafði flúið Rússland í byltingunni 1917 og undanfarna mánuði hefur fjöldi rússneskra listamanna haldið á braut en menningarlíf þar eystra er um þessar mundir sagt vera eitruð blanda kúgunar og fyrirbyggjandi sjálfsritskoðunar. Í grein í nýjasta hefti The Economist er fullyrt í frétt um málið að önnur eins röskun á listalífi Rússa hafi ekki orðið síðan í „menningarbyltingu“ Stalíns á fjórða áratugnum. 

 

Kjarnorkuváin 

Í fyrradag var ár liðið frá innrás Rússa í Úkraínu og miðlar uppfullir af fréttaskýringum og viðtölum í viðleitni til að varpa ljósi á þróun mála. Þýski miðillinn Welt gerði kjarnorkuvopnaógnina að umtalsefni og ræddi við bandaríska blaðamanninn og stjórnmálafræðinginn Fred Kaplan sem um áratugaskeið hefur rannsakað áform stórveldanna um beitingu kjarnorkuvopna. Kaplan er höfundur nokkurra bóka um efnið og líklega er Wizards of Armageddon frá árinu 1980 þeirra frægust. 

Kaplan nefnir að á sjöunda og áttunda áratugnum hafi allt að sjö þúsund skammdræg kjarnorkuvopn verið staðsett í Vestur-Evrópu. Ástæðan var vitaskuld sú að Vesturveldin óttuðust hernaðarmátt Sovétmanna. Nú sé þessu öfugt farið og Rússar trúi á fælingarmátt samskonar vopna. Þetta sé eina ástæðan fyrir því að Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hafi ekki þegar blandað sér með beinum hætti í átökin. Að loknum fundi Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta og Joe Biden, bandarísks starfsbróðurs, í Washingtonborg 11. desember sl. ræddu forsetarnir við fréttafólk. Úkraínskur tíðindamaður spurði Biden hvers vegna Bandaríkjamenn létu Úkraínumenn ekki hafa öll þau hergögn sem þeir teldu sig þurfa. Biden svaraði að bragði og afdráttarlaust: „Einfaldlega vegna þess að við óttumst að þriðja heimsstyrjöldin kunni að brjótast út.“ 

 

Skiptar skoðanir 

Kaplan segir að af lestri bóka um herstjórnarlist í kjarnorkustríði mætti ætla að tveir stórmeistarar sætu að tafli — en veruleikinn yrði allur annar. Þessu megi miklu frekar líkja við för tveggja blindingja með eldfæri inn í vöruskemmu yfirfulla af dýnamíti. 

Blaðamaður Welt benti þá á að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði nefnt í október sl. að enginn sæi fyrir sér beitingu skammdrægra kjarnorkuvopna öðruvísi en allt færi á versta veg, þ.e.a.s. allsherjarkjarnorkustyrjöld brytist út. Vladimir Pútín Rússlandsforseti lét þau ummæli falla í kjölfarið að enginn yrði sigurvegari í atómstríði. Kaplan segir beitingu umræddra vopna hafa óhjákvæmilega í för með sér slíkan eyðileggingarmátt og svo gersamlega ófyrirsjáanlega framvindu að engan langi að taka áhættuna. Enginn veit hvað gerist næst eftir að fyrsta sprengjan springur. Líkur á kjarnorkustyrjöld hafi að hans mati ekki verið eins miklar frá því snemma á níunda áratugnum. 

Timothy Snyder, sagnfræðiprófessor við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, er á öðru máli en finna má viðtal við Snyder í nýjasta tölublaði Der Spiegel. Þar segir hann átakanlegt að hlusta á tal um mögulega beitingu kjarnorkuvopna þegar nánast óhugsandi grimmdarverk eigi sér nú þegar stað í Úkraínu. Tæki Rússlandsstjórn ákvörðun um beitingu kjarnorkuvopna yrðu skotmörkin í Úkraínu. Snyder telur hverfandi líkur á að þeim vopnum verði beitt — kjarnorkuvopn séu sér í lagi smíðuð til að hafa fælingarmátt — en varla til eiginlegrar notkunar. Öflugar varnir Úkraínumanna hafi beinlínis dregið úr líkum á að kjarnorkuvopnum verði beitt næsta áratuginn eða svo. Stjórnvöld í Peking þurfi nú til að mynda að endurhugsa áform sín um innrás í Tævan í ljósi samstöðu Vesturveldanna með Úkraínu. 

Evrópusamvinna í deiglu 

Stríðið hefur valdið aldahvörfum í þýskum stjórnmálum en Snyder veltir því upp hversu raunverulegar breytingar eigi sér stað um þessar mundir. Hann segir Olaf Scholz kanslara hafa orðað margt vel í kjölfar innrásar Rússa — til að mynda þegar hann sagði Evrópusambandið andsvar við heimsvaldastefnu og harðstjórn. En slíkum orðum þurfi að fylgja frekari útleggingar og síðan athafnir. 

Vladimir Pútin trúði því að Úkraína félli honum í skaut á þremur dögum. Hefði það orðið raunin væri heimsmyndin nú allt önnur. Slíkt hefði orðið áfall fyrir lýðræðið í heiminum og staða harðstjórnarstórveldanna, Rússlands og Kína, styrkst til muna. En þetta gerðist ekki vegna baráttu Úkraínumanna sjálfra — baráttu sem enn er háð og kann að verða háð um langa hríð. 

Snyder telur að endurhugsa þurfi grundvöll Evrópusamvinnunnar. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar hafi hin frjálsu ríki álfunnar getað einbeitt sér að uppbyggingu efnahagslífs en Bandaríkjamenn að stærstum hluta annast varnirnar. En mun þessi skipan endast næstu áratugi? Barátta Úkraínumanna gegn innrás Rússa hefur þjappað Evrópuríkjum saman gegn harðstjórnarveldinu í austri. En treysta þurfi Evrópusamvinnuna enn frekar og stækka Evrópusambandið. 

Snyder sér þó ekki fyrir sér afgerandi ósigur Rússa. Verði stríðsgæfan enn Úkraínumönnum hliðholl sé líklegra að stríðið endi með því að Rússar hörfi að mestu en Pútín kann engu að síður að lýsa yfir sigri. Hann segir þá þegnum sínum söguna af því að Rússar hafi stöðvað ásælni Vesturveldanna í austurátt. Að því sögðu haldi ekkert aftur af Pútín annað en öflugar varnir og Atlantshafsbandalagsríkin og vinaríki hafi enn verk að vinna við að útvega Úkraínumönnum betri búnað til að takast á við herdeildir harðstjórans í austri.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar