Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona, segir væntanleg verkföll Eflingar koma öllu þjóðfélaginu við, en um sé að ræða baráttu fyrir allt launafólk í landinu. Hún skrifar langa færslu á Facebook til stuðnings Eflingu þar sem hún skorar sérstaklega á Félag kvenna í atvinnulífinu og Kvennréttindafélag Íslands til að styðja við Eflingu og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.
„Ég furða mig á því að þegar fátækt fólk innan Eflingar sem starfar við hreingerningar fær þann mótbyr sem raun ber vitni, hafi ekki öll og sér í lagi konur með sín nú sjálfsögðu réttindi, slegið skjaldborg um eina lægst launuðu stétt landsins. Ræstingafólk. Þetta kemur okkur öllum alveg stórkostlega mikið við!“
Steinunn Ólína bendir kynsystrum sínum á að svo virðist sem að píkan njóti núna meiri verndar heldur en felsið til að standa vörð um hagsmuni fólks á vinnumarkaði. Hún segir að ef fólk, einkum konur, mótmæli ekki aðgerðum Samtaka atvinnulífsins og Ríkissáttasemjara þá sé í reynd verið að segja að „okkur sé sama þótt farið sé illa með annað fólk“.
„Ef við mótmælum ekki aðgerðum Samtaka Atvinnulífsins, Ríkissáttasemjara, í blússandi rúmbu við Ríkisstjórn Ísland þá erum við að segja að okkur sé alveg sama þótt farið sé illa með annað fólk og ekki bara það, við erum að afhjúpa grunnhyggni okkar þegar við köstum áratuga verkalýðsbaráttu og löngu sjálfsögðum réttindum fyrir róða. Og það er það sem er að gerast, við ERUM með þögn og aðgerðarleysi núna að selja undan okkur áratugalanga baráttu formæðra okkar til að verja hagsmuni sína á vinnumarkaði. Ég vil skora á Félag kvenna í Atvinnulífinu FAK sem vinna geggjað skapandi og athyglisverð störf að láta í sér heyra fátæku skúringafólki til verndar. Ykkur munar ekkert um það! Verið nú dálítið stórar stelpur! Þið hafið ekki skúrað heima hjá ykkur svo árum skiptir! Skál!
Kvenréttindafélag Íslands vil ég biðja að leggja til hliðar, örugglega verðug verkefni, eitt andartak og veita Sólveigu Önnu og fólki hennar stuðning í kjaradeilu við atvinnurekendur sína án tafar ellegar hætta að nudda sér utan í nafn langömmu minnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í eitt skipti fyrir öll! Sú gamla vill örugglega frekar hverfa í gleymsku og ryk en vera notuð sem barmnæla og efriskápatrappa í félagi kvenna sem styðja ekki með afgerandi hætti og látum, kjarabaráttu allra kvenna!
Svei, bara!“
Að lokum spyr Steinunn hvað sé eiginlega að því að bregðast harkalega við gerðum gegn fólki á vinnumarkaði. Það sé ekkert til að óttast með slíkum aðgerðum, en margt til að vinna.
„Hvað er að því að bregðast við harkalegum aðgerðum gegn fólki á vinnumarkaði af hörku? Það er bókstaflega ekkert að óttast og til alls að vinna. Ef við þegjum og klöppum með því valdinu, er hins vegar full ástæða til að óttast, því þá verðum við flest öll réttlausir öreigar og töluvert fyrr en okkur grunar. Því get ég lofað.“