fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Eyjan

Brynjar hjólar í Dag og meirihlutann – Staðan í leikskólamálum sé dæmi um óheiðarleika, svik og upplýsingaóreiðu

Eyjan
Mánudaginn 15. ágúst 2022 17:43

Brynjar Níelsson og Dagur B. Eggertsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og verðandi afi, sakar meirihlutann í Reykjavík um óheiðarleika og svik varðandi leikskólamálin í Reykjavík. Að auki segir Brynjar að staðan sé dæmi um tækifærismennsku, upplýsingaóreiðu og aðhaldsleysi fjölmiðla.

Í pistlinum segir Brynjar það vera óheiðarleg vinnubrögð að lofa eintaklingum pláss fyrir börnin sín í leikskólum sem ekki hafa verið byggðir 10 mánuðum eftir að loforðið var gefið.„Það er jafnframt óheiðarlegt setja slík loforð fram þegar fyrirsjáanlegt er að hvorki er hægt að reisa skólana né útvega starfsfólk í þá fyrir tilskilinn tíma. Það er líka óheiðarlegt að bjóða foreldrum leikskóla í hinum enda bæjarins, sem hugsanlega felur í sér að foreldrar þurfi að ráðstafa ríflega tveimur klukkustundum í ferðir á hverjum degi í vonlausu gatnakerfi,“ skrifar Brynjar.

Segir enga innistæðu hafa verið fyrir loforðunum

Hann rifjar upp að í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna í vor hafi forsvarsmenn meirihlutans ítrekað lýst því yfir að öllum börnum frá 12 mánaða aldri yrði boðið leikskólapláss núna í haust.
„Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt því raunar fram í aðdraganda kosninganna 2018 að á kjörtímabilinu 2018 til 2022 yrði hægt að bjóða 12 til 18 mánaða börnum pláss á leikskólum og endurtók þessi loforð sín fyrir síðustu kosningar. Alexandra Briem þáverandi forseti borgarstjórnar lýsti því yfir í aðdraganda síðustu kosninga að það væri met í óheiðarleika og tækifærismennsku að Sjálfstæðiflokkurinn væri að kynna það sem kosningaáherslu að bjóða börnum frá 12 mánaða aldri leikskólapláss og ætlaði þannig að að stela árangri af uppbyggingu síðustu árin. Fyrir þessum loforðum meirihlutaflokkanna var engin innstæða og það er enginn sem hefur áhuga á því að stela ,,árangri“ meirihlutans í þessum málaflokki,“ skrifar Brynjar.

Hann segir að auðvelt sé að gefa loforð til fólks sem glímir við tímabundinn vanda sem leysist af sjálfur sér fyrir næstu kosningar.

„Þeir foreldrar sem stóðu í eldlínunni 2018 og hlustuðu á loforð borgarstjóra eru ekki endilega þeir sömu og standa nú frammi fyrir því að börnin þeirra fái ekki leikskólapláss. Þegar úr rætist eru þessir foreldrar orðnir uppgefnir á því að hlusta á fagurgala stjórnamálamanna og vilja helst geta beint kröftum sínum og orku annað. Það er því alltaf nýr og nýr hópur sem hlustar á sömu loforðin og upplifir sömu svikin. Nú er meiri að segja boðið upp á ný andlit til þess að réttlæta þau. Ekki er langt síðan að því var haldið fram að það væri áskorun að útvega leikskólapláss fyrir 12 mánaða gömul börn. Fyrir þá sem ekki standa í eldlínunni mætti ráða að borgin væri við það að ná þessu markmiði, þegar raunveruleikinn er sá að börn eru farin að nálgast tveggja ára aldurinn þegar þau fá pláss og algjörlega tilfallandi hvort yngri börn fái inn á leikskólum,“ skrifar Brynjar.

Upplýsingaóreiðan valdið skorti á dagforeldrum

Þá hjólar hann í svör Dags B. Eggertssonar borgarstjóra varðandi stöðu mála en í viðtali á dögunum sagði borgarstjóri að von væri á upplýsingum í borgarráð í næsta mánuði um hvernig gengi að útvega leikskólplássin.

„Í þeim fáu viðtölum sem borgarstjóri hefur veitt vegna málsins getur hann ekki svarað spurningum um stöðuna þar sem hann hafi ekki fengið svör við þessum grundvallarupplýsingum úr tölvukerfum borgarinnar svo vikum skiptir. Hvernig má það vera vandamál að fá jafn einfaldar upplýsingar og umsóknir um leikskólavist ásamt afgreiddum og óafgreiddum umsóknum flokkaðar eftir aldri, út úr upplýsingakerfum borgarinnar. Hvers vegna sætta fjölmiðlar sig við slík svör. Hvernig gat borgarstjóri lofað foreldrum ítrekað leikskólavist ef hann vissi raun ekkert um það hvernig staðan var,“ spyr Brynjar?

Að hans mati hafi þessi „upplýsingaóreiða“ gert það að verkum að staða foreldra sé enn verri því starfandi dagforeldrum hafi fækkað enda væri starfsgrundvöllur þeirra brostinn ef að loforðin hefðu verið efnd.

„Veruleikinn í leikskólamálum eins og raunar öllum velferðarmálum ræðst að verulegu leyti af þeim fjárhagslega styrkleika sem viðkomandi sveitarfélag býr yfir. Þar er ekki bjart yfir Reykjavíkurborg þrátt fyrir að útsvar sé í hæsta þrepi og fasteignaskattar í sögulegu hámarki. Það fylgja því líka ákveðin ónot þegar verið er að endurmeta eignir félagsbústaða til að laga fjárhagsstöðuna um 70 milljarða. Ástand á húsnæði í eigu borgarinnar þar með talið. skólahúsnæði, gatnakerfi og fleira gefur heldur ekki tilefni til bjartsýni,“ skrifar Brynjar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt