fbpx
Föstudagur 20.september 2024
Eyjan

Samherji hefur skrifað undir það að berjast gegn spillingu – SFS krafið um svör

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 30. maí 2021 10:08

Lógó Samherja og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslandsdeild Transparency International (TI) skorar á Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð „… að sýna íslensku þjóðinni, eiganda auðlindarinnar sem þau hafa einkarétt til að nýta, þá lágmarksvirðingu að upplýsa hana um hvort þau telja framferði Samherja samræmast stefnu SFS um samfélagsábyrgð sem samtökin hafa sett sér og fyrirtækin hafa með undirritun sinni lýst yfir að þau ætli að fylgja.“

Þetta kemur fram í bréfi frá TI sem er stílað á Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastóra SFS, Ólaf Marteinsson, formann stjórnar SFS, og stjórnina í heild. Bréfið er birt á heimasíðu Íslandsdeildar TI sem er hluti af alþjóðlegum samtökum sem berjast gegn spillingu.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur fengið mjög aukið vægi á undanförnum árum í umræðu um umhverfisvernd, mannréttindi og varnir gegn spillingu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa sett sér stefnu um samfélagsábyrgð. Á heimasíðu SFS er stefnu samtakanna um það lýst undir fyrirsögninni „Ábyrgur sjávarútvegur í sátt við umhverfi og samfélag.“

„Gætum að orðspori íslensks sjávarútvegs“

Í samfélagsstefnu SFS segir meðal annars:

„Íslenskur sjávarútvegur starfar af heilindum og á áreiðanlegan og sanngjarnan hátt. Stefna okkar er að vinna gegn spillingu í hvaða formi sem er. Við erum heiðarleg í viðskiptum og gætum að orðspori íslensks sjávarútvegs. Við leitumst við að tryggja að starfsemi okkar sé samkvæmt lögum og reglum, hvort sem hún er á Íslandi eða í útlöndum.“

Þá segir í bréfi TI til stjórnar SFS:

„Það vekur spurningar um tilgang verkefnisins að enn sé Samherji hluti af verkefninu og þar með listað af Samtökunum sem fyrirtæki í sátt við undirritaðar reglur. Stjórn SFS verður að spyrja sig hvort almenningur og viðskiptavinir fyrirtækjanna geti réttilega dregið þá ályktun af veikum viðbrögðum samtakanna sem virðast bara telja rétt og eðlileg að þegja þunnu hljóði á meðan Samherji gengur fram með fordæmalausum aðgerðum gegn blaðamönnum innanlands sem og erlendis, stéttarfélögum, uppljóstrurum, eftirlitsstofnunum, sjálfstæðum félagasamtökum og þar af leiðandi samfélaginu öllu.“

Sem kunnugt er birti Wikileaks gögn frá Samherja árið 2019 sem gáfu til kynna að fyrirtækið hefði greitt milljónir króna í mútufé til stjórnmálamanna og embættismanna í Namibíu í skiptum fyrir aðgang að fiskveiðikvóta á fiskimiðum Namibíu.

Verðlaunaðir fyrir umfjöllun um Namibíumál Samherja

Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands 2019 fyrir rannsóknablaðamennsku ársins voru veitt fyrir umfjöllun um Samherjamálið. Verðlaunin hlutu þeir Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Stefán Drengsson, Kveik og Stundinni, fyrir umfjöllun um Samherjamálið. Rök dómnefndar eru eftirfarandi: „Fá mál vöktu meiri athygli í íslensku samfélagi en umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í samvinnu við Al Jazeera og Wikileaks um ásakanir á hendur Samherja um mútugreiðslur í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Umfjöllunin byggði staðhæfingum fyrrum starfsmanns Samherja í Namibíu og miklu magni gagna sem einnig voru gerð aðgengileg almenningi á netinu samhliða birtingu frétta af málinu. Umfjöllunin hefur haft mikil áhrif, bæði hér heima og erlendis.“

Nýlega kom í ljós að Samherji hefur haldið úti sérstakri „skæruliðadeild“ til að koma óorði á þá sem fjalla á gagnrýninn hátt um málið.

Hér má lesa sér nánar til um stefnu SFS þegar kemur að samfélagsábyrgð

Hér eru þau fyrirtæki sem hafa skrifað undir að fylgja stefnu SFS um samfélagsábyrgð. Auk Samherja eru það til dæmis Rammi, Þorbjörn, Brim og Ísfélag Vestmannaeyja.

Bréfið frá TI til SFS í heild sinni:

Þátttaka Samherja í verkefni SFS um „Ábyrgan sjávarútveg í sátt við umhverfi og samfélag“

Kæru stjórnarmeðlimir SFS

Samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur fengið mjög aukið vægi á undanförnum árum í umræðu um umhverfisvernd, mannréttindi og varnir gegn spillingu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa sett sér stefnu um samfélagsábyrgð. Á heimasíðu SFS er stefnu samtakanna um það lýst undir fyrirsögninni „Ábyrgur sjávarútvegur í sátt við umhverfi og samfélag.“

Á heimasíðu SFS kemur líka fram hvaða fyrirtæki hafa undirritað þessa stefnu samtakanna um „ábyrgan sjávarútveg í sátt við umhverfi og samfélag“. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa gert það og þ.m.t. Samherji.

Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi byggja starfsemi sína og arð á nýtingu auðlindar sem íslenska þjóðin á og ríkið úthlutar tilteknum fyrirtækjum en neitar langflestum öðrum um þann rétt. Í lýðræðis- og réttarríki er því augljóst að þessum nýtingarrétti hlýtur að fylgja skylda til samfélagsábyrgðar.

Í ljósi þess sem að framan segir og stefnu SFS um samfélagsábyrgð um „sátt við samfélag“ hlýtur, að mati Íslandsdeildar TI,  íslenska þjóðin sem á fiskveiðiauðlindina sem fyrirtæki í SFS hafa einkarétt til að nýta, að furða sig á að SFS og fyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð skuli ekki hafa talið tilefni til að stíga fastar niður og fordæma það framferði Samherja „flaggskips“ íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og „skæruliðadeildar“ fyrirtækisins. Það vekur spurningar um tilgang verkefnisins að enn sé Samherji hluti af verkefninu og þar með listað af Samtökunum sem fyrirtæki í sátt við undirritaðar reglur. Stjórn SFS verður að spyrja sig hvort almenningur og viðskiptavinir fyrirtækjanna geti réttilega dregið þá ályktun af veikum viðbrögðum samtakanna sem virðast bara telja rétt og eðlileg að þegja þunnu hljóði á meðan Samherji gengur fram með fordæmalausum aðgerðum gegn blaðamönnum innanlands sem og erlendis, stéttarfélögum, uppljóstrurum, eftirlitsstofnunum, sjálfstæðum félagasamtökum og þar af leiðandi samfélaginu öllu.

Með vísan til stefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um samfélagsábyrgð „í sátt við samfélag“ skorar Íslandsdeild Transparency International á SFS og sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð að sýna íslensku þjóðinni, eiganda auðlindarinnar sem þau hafa einkarétt til að nýta, þá lágmarksvirðingu að upplýsa hana um hvort þau telja framferði Samherja samræmast stefnu SFS um samfélagsábyrgð sem samtökin hafa sett sér og fyrirtækin hafa með undirritun sinni lýst yfir að þau ætli að fylgja.

Erindi þetta er birt á vef Transparency International á Íslandi, transparency.i

F.h. stjórnar Transparency International á Íslandi 

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Leggur fram frumvarp um afnám verðtryggingarinnar – „Venjan er sú að hér ríkir ekkert lýðræði“

Leggur fram frumvarp um afnám verðtryggingarinnar – „Venjan er sú að hér ríkir ekkert lýðræði“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur sótillur: „Að hugsa sér að stjórnvöld skuli voga sér að leggja þetta til“

Vilhjálmur sótillur: „Að hugsa sér að stjórnvöld skuli voga sér að leggja þetta til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jóhannes krefur Kristrúnu um svör hvernig hún hyggist þrengja að ferðaþjónustunni – „Það eru margir sem bíða svars eftir þetta útspil í gær“

Jóhannes krefur Kristrúnu um svör hvernig hún hyggist þrengja að ferðaþjónustunni – „Það eru margir sem bíða svars eftir þetta útspil í gær“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Bankastjórar, sýnið þjóðfélagslega ábyrgð, lækkið vextina!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Bankastjórar, sýnið þjóðfélagslega ábyrgð, lækkið vextina!
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stefnuræða forsætisráðherra – Ræða Lilju Alfreðsdóttur

Stefnuræða forsætisráðherra – Ræða Lilju Alfreðsdóttur