fbpx
Miðvikudagur 14.apríl 2021
Eyjan

Kergja á stjórnarheimilinu vegna flugvallarákvæðis – Þingmaður VG vill ákvæðið út og segist enga kynningu á því hafa fengið

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 18. mars 2021 10:15

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt heimildum DV gætir nú titrings innan stjórnarheimilisins vegna frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um heildarendurskoðun á loftferðalögum.

Sjá nánar: Flugvallarandstæðingar uggandi yfir frumvarpi Sigurðar Inga – „Kosninga-brella og fyrir neðan virðingu ráðherra“

Líkt og DV greindi frá í gær mælti Sigurður fyrir frumvarpinu á Alþingi á þriðjudaginn. Frumvarpið er engin smásmíði en það er vel á þriðja hundrað blaðsíður með viðaukum og greinargerð. Fyrsta umræða um frumvarpið virðist hafa farið fram í nokkurskonar pólitískri kyrrþey, enda var Smári McCarthy eini þingmaður stjórnarandstöðunnar sem veitti flutningsræðu Sigurðar andsvar og tjáði sig um málið.

Seint á þriðjudagskvöldið fór svo að kvisast út manna á milli á samfélagsmiðlum að í frumvarpinu leyndist talsverð breyting á heimild ráðherra til þess að stýra með reglugerðarsetningu skipulagsmálum í námunda við flugvelli sem ætlaðir eru almenningi. Ekki tók langan tíma fyrir fólk að draga línu á milli ákvæðisins og stefnu Framsóknar í málefnum Reykjavíkurflugvallar.

Yrði frumvarpið að lögum gæti ráðherra sett reglugerð um skipulag í nágrenni flugvalla og lagt þannig takmörk á hæð bygginga, umsvif almennings, nýtingu landsvæðis og atvinnurekstur á svæðinu. Þá tæki heimild ráðherra til framtíðar flugvallarsvæði, en í dag hefur hann aðeins vald yfir skipulagi fyrirliggjandi flugvalla. Enn fremur yrðu sveitarstjórnir skyldaðar til þess að breyta sínu aðalskipulagi eftir reglugerð ráðherra innan tilskilins tíma.

DV ræddi í gær við borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Kristínu Soffíu Jónsdóttur, sem sagði málið hvort tveggja aðför að flugvellinum og skipulagsvaldi sveitarfélaganna. „Það er alveg fáránlegt að ráðherra ætli sér að setja lög sem færi vald yfir til ríkis til þess mögulega að geta náð valdi yfir Reykjavíkurflugvelli,“ sagði Kristín.

Engin svör fengust frá ráðherra eða aðstoðarmönnum hans í gær.

Málið ekki kynnt samstarfsflokkum og vill ákvæðið úr frumvarpinu

Heimildir DV innan þingsins herma nú að kergja sé meðal þingmanna stjórnarflokka vegna framgöngu Framsóknar í málinu. DV tók tali af þingmönnum Sjálfstæðismanna sem sögðust ekki kannast við umrætt ákvæði en biðu eftir niðurstöðu nefndarinnar. Málinu var á þriðjudag vísað til Umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. Kolbeinn Óttarsson Proppé er fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni.

Í samtali við blaðamann DV sagði Kolbeinn, aðspurður hvort honum hafi verið kynnt efni frumvarpsins, svo ekki vera. „Ég kannast ekki við það að vakin hafi verið sérstök athygli á þessu.“

Kolbeinn segir það hafa jafnframt komið honum á óvart að svona frumvarp komi frá ráðherra flokks sem hefur lagt gríðarlega mikla áherslu á sjálfstæði sveitarfélaga í skipulagsmálum þegar kemur að hálendisþjóðgarði. „Við þurfum bara að setjast yfir þetta í nefndinni,“ útskýrir Kolbeinn. „Það er ljóst að svona breyting verður ekki gerð nema að undangengnu miklu samráði við sveitarfélögin og það er því eðlilegast að fella þessa breytingu út úr frumvarpinu.“

„Það hlýtur að vera eðlilegt að setjast vel yfir allt sem við kemur valdi og ábyrgð gagnvart skipulagi og við þurfum að sýna sveitarstjórnarstiginu þá virðingu að hafa við það gott samstarf í þeim efnum. Það höfum við gert í öllum öðrum málum þar sem spurningar af þessu tagi koma upp; hálendisþjóðgarði og breytingum á skipulagslögum vegna raflínulagna, svo dæmi séu tekin,“ segir Kolbeinn.

Málið var rætt í ríkisstjórn 2. mars síðastliðinn, en í opinberri fundargerð fundarins eru ekki frekari upplýsingar að finna um afgreiðslu málsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hildur vill opna eina sundlaug í Reykjavík fyrir bólusetta eldri borgara – „Tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi“

Hildur vill opna eina sundlaug í Reykjavík fyrir bólusetta eldri borgara – „Tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Skýtur á dómsmálaráðherra vegna frumvarps um vernd barna gegn barnaníðsefni

Skýtur á dómsmálaráðherra vegna frumvarps um vernd barna gegn barnaníðsefni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum
Farsóttarfangelsið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsóknarmenn leggja fram frumvarp varðandi breytingar á áfengislögum

Framsóknarmenn leggja fram frumvarp varðandi breytingar á áfengislögum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar segir að ráðist sé á meðlimi siðanefndar RÚV – „Mér finnst að Föstudagurinn langi eigi að vera dagur uppljóstrara“

Brynjar segir að ráðist sé á meðlimi siðanefndar RÚV – „Mér finnst að Föstudagurinn langi eigi að vera dagur uppljóstrara“