fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Stóladansinn hafinn – Þessir sækjast eftir að leiða lista sína fyrir Alþingiskosningarnar í haust

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 13. febrúar 2021 10:00

Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálaflokkarnir eru nú í óða önn að undirbúa sig fyrir alþingiskosningarnar í haust og framboðin hrannast inn. Framboðslistum verður raðað saman með ólíkum hætti milli flokka. Til dæmis fer Samfylkingin í Reykjavík og í Kraganum þá leið að styðjast við uppstillingarnefnd á meðan Píratar munu notast við hið meira hefðbundna prófkjör.

Sem stendur horfir landinn fram á spennandi kosningar þar sem skoðanakannanir gefa til kynna marga ólíka möguleika á samsetningu nýrrar ríkisstjórnar. Það horfir líka fram á spennandi baráttu innan einstaka flokka þar sem margir frambærilegir aðilar takast á sín á milli um að fá að leiða lista sína.

Samfylking

Sú er staðan nú hjá Samfylkingunni í Reykjavík. Uppstillingarnefnd hefur nú raðað þar á lista sem verður kynntur á allsherjarfundi Samfylkingarfélaga í Reykjavík í dag. Þrennt er talið líklegast til að leiða listana, sem eru tveir fyrir hvort sitt Reykjavíkurkjördæmið, Helga Vala Helgadóttir þingmaður, Kristrún Frostadóttir hagfræðingur og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður.

Óvæntar vendingar urðu svo hjá Samfylkingunni þegar varaformaður flokksins, Heiða Björg Hilmisdóttir, tilkynnti að hún hefði áhuga á að taka sæti á lista, en hún hafði ekki gefið kost á sér í könnun sem gerð var í desember.

Svo kom það mörgum á óvart þegar þingmaðurinn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir greindi frá því að hún gæfi ekki aftur kost á sér. Albertína situr á þingi fyrir Norðausturkjördæmi en þar mun Logi Einarsson, formaður flokksins, áfram leiða lista.

Hjá Samfylkingunni í Kraganum sækist Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem áður var í Vinstri grænum, eftir því að leiða listann, þó svo orðið á götunni sé það að uppstillinganefnd í Reykjavík hafi augastað á Rósu og vilji raða henni þar á lista.

Áður leiddi Guðmundur Andri Thorsson listann í Kraganum og hefur sóst eftir endurkjöri. Þó sækist hann ekki eftir því að leiða listann. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra, er sterklega orðuð við framboð í Kraganum en eins hefur Jóna Þórey Pétursdóttir, fyrrverandi forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og gefið kost á sér í forystusætið, sem og Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdastjóri Bergsins, sem er þekkt fyrir baráttustarf sitt fyrir aukinni fræðslu og ráðgjöf fyrir ungt fólk en hún er menntaður vinnustaðasálfræðingur. Fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, Páll Valur Björnsson, stefnir á efsta sæti í Suðurkjördæmi.

Vinstri græn

Steingrímur J. Sigfússon hættir á þingi eftir þetta kjörtímabil en hann sat á þingi fyrir Norðausturkjördæmi. Þrennt sækist eftir að taka við stöðu hans efst á lista í kjördæminu, þau Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks VG, Ingibjörg Þórðardóttir, ritari flokksins, og Óli Halldórsson, forstöðumaður á Húsavík.

Forvalið verður rafrænt og fer fram nú um helgina. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, hefur setið á þingi frá árinu 2016 fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður en vill nú leiða lista í Suðurkjördæmi. Áður leiddi Ari Trausti Guðmundsson þingmaður listann en hann mun ekki bjóða sig fram á ný.

Kolbeinn mun því keppa um efsta sætið við Róbert Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, sem stefnir líka á efsta sætið. Eins hefur Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri lýst yfir vilja til að leiða lista VG í Suðurkjördæmi.

Píratar

Hjá Pírötum stefnir í spennandi prófkjör en þrír þingmenn flokksins eru að stíga til hliðar og ef flokkurinn heldur fyrra fylgi í kosningunum eru því þrjú þingsæti laus fyrir réttu aðilana.

Í Norðvesturkjördæmi sækjast Gunnar Ingiberg Guðmundsson varaþingmaður, Katrín Sif Sigurgeirsdóttir ljósmóðir og Pétur Óli Þorvaldsson eftir að leiða listann.

Þingmaðurinn Smári McCarthy sækist ekki eftir endurkjöri fyrir Suðurkjördæmi og stefnir Álfheiður Eymarsdóttir varaþingmaður á sæti Smára.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður hefur setið á þingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður en býður nú fram krafta sína á Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum eins og kjördæmið er kallað. Áður leiddi Jón Þór Ólafsson þingmaður listann í Kraganum en hann sækist ekki eftir endurkjöri.

Þingmennirnir Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen sækjast eftir efstu sætum í Reykjavíkurkjördæmunum en í vikunni var tilkynnt að þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson ætli einnig að gefa kost á sér í Reykjavík. Andrés sat áður á þingi fyrir Vinstri græn en sagði sig úr þingflokki í nóvember 2019 og hefur setið utan flokka síðan.

Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi, hefur tilkynnt að hann sækist eftir þingsæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Einar A. Brynjólfsson, kennari og fyrrverandi þingmaður, sækist eftir að leiða listann í Norðausturkjördæmi.

Prófkjör Pírata fara fram í mars.

Viðreisn

Fjórir sitja á þingi fyrir Viðreisn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Öll sækjast þau eftir áframhaldandi þingsetu.

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi ópólitískur bæjarstjóri Ísafjarðar, hefur gengið til liðs við Viðreisn og sækist eftir oddvitasæti í Norðvesturkjördæmi.

Stofnandi flokksins, Benedikt Jóhannesson, sækist eftir oddvitasæti einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Eins er búist við því að Daði Már Kristófersson, varaformaður flokksins, muni sækjast eftir sæti á lista og einnig er talið líklegt að aðstoðarmaður Þorgerðar, María Rut Kristinsdóttir, muni bjóða fram krafta sína á lista í Reykjavík.

Stillt verður upp á lista Viðreisnar í fimm kjördæmum af sex en enn á eftir að taka ákvörðun um val á lista í Norðausturkjördæmi.

Framsókn

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sækist eftir því að leiða listann í komandi kosningum. Þórunn Egilsdóttir, þingmaður og oddviti Norðausturkjördæmis, mun ekki sækjast eftir áframhaldandi þingsetu, til að einbeita sér að baráttunni við krabbamein sem hún greindist með skömmu fyrir jól. Líneik virðist nokkuð örugg með fyrsta sætið en mun fleiri etja kappi um annað sætið.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður, Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn og Guðveig Eyglóardóttir sveitarstjórnarmaður etja kappi um oddvitasætið í Norðvesturkjördæmi. Þar leiddi Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra áður lista en hann hefur fært sig yfir í Reykjavíkurkjördæmi norður. Það gæti hafa verið örlagaríkur flutningur hjá Ásmundi þar sem könnun Maskínu í lok janúar benti til þess að Framsókn næði ekki inn þingmanni í Reykjavíkurkjördæmunum.

Aðrir flokkar

Ekki er mikið að frétta af málum hjá Sjálfstæðisflokki en þeir stefna á að halda prófkjör í maí eða júní. Hins vegar hefur Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, tilkynnt að hann muni gefa kost á sér í Kraganum.

Nokkur spenna ríkir einnig um framtíð Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en hann situr á þingi fyrir Norðurland eystra en fylgi flokksins í kjördæminu hefur verið með því lakasta á landinu og Kristján hefur í könnunum ítrekað mælst sem óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Eins verður áhugavert að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum í Reykjavíkurkjördæmunum, en Sigríður Á. Andersen oddviti sagði af sér ráðherraembætti á miðju kjörtímabili, og verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr spilum í kjördæmi hennar.

Guðmundur Franklín Jónsson, athafnamaður og forsetaframbjóðandi, ætlar að bjóða fram til Alþingis í öllum kjördæmum undir merkjum Frjálslynda lýðræðisflokksins. Flokkurinn hefur fengið úthlutað listabókstafnum O.

Sósíalistaflokkurinn undir forystu Gunnars Smára Egilssonar mun bjóða fram í kosningunum og samkvæmt könnunum gæti flokkurinn náð inn manni.

Flokkur fólksins virðist hins vegar koma illa út úr könnunum og tvísýnt hvort flokkurinn nái aftur inn á þing.

Lítið, sem stendur, er að frétta af málum Miðflokksins.

Á næstu mánuðum munu framboðslistar fara að skýrast hjá einstaka flokkum og sökum þess að fjöldi núverandi þingmanna mun ekki sækjast eftir endurkjöri verður þó nokkuð um nýliðun á þingi. Það verður því áhugavert að sjá hver samsetningin verður á Alþingi eftir kosningarnar en við landsmenn getum tekið þátt í að skapa þá sviðsmynd með því að nýta kosningarétt okkar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki