fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Sjáðu hverjir eru á leiðinni út og inn af Alþingi í næstu kosningum

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 10. janúar 2021 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálaflokkarnir eru farnir að huga að framboðsmálum en næstu alþingiskosningar fara fram í haust. Ljóst er að nokkrar breytingar verða í þingsalnum að loknum þingkosningum haustið 2021.

Kosið verður til Alþingis á þessu ári og hafa flokkarnir þegar hafist handa við undirbúning komandi stjórnmálavertíðar. Að mörgu er að huga fyrir stjórnendur stjórnmálaflokkanna. Prófkjör, uppstillingar og önnur mál tengd vali á lista krefjast mikils undirbúnings og taka gjarnan mikinn tíma og orku frá fólki. Þá þarf að huga að skipulagningu landsfunda og þinga, pússa stefnuskrána og viðra kosningaloforðin og loks heyja sjálfa baráttuna.

Um miðjan desember kynnti Samfylkingin nokkuð þéttan lista af frambjóðendum í svokallaðri „framboðskönnun“ sinni, og aðrir tilkynntu að þeir hygðust sækjast eftir sæti á framboðslistum sinna flokka í komandi kosningum.

DV skoðaði hvaða nöfn þetta eru og spáir hvaða kanónur gætu verið á leiðinni inn og út í næstu kosningum.

Steingrímur J. Sigfússon – ÚT

Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis. mynd/Ernir

Steingrímur er fyrir löngu orðinn landsþekktur og nafn hans hefur um langa hríð tengst íslenskum stjórnmálum sterkum böndum. Steingrímur kom inn á þing fyrst árið 1983, og er því að hefja sitt 38. starfsár. Það verður hans síðasta, en hann mun ekki sækjast eftir sæti á lista Vinstri grænna í komandi kosningum. Næstur á eftir Steingrími á núverandi lista er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður. Hún hefur ekki gefið annað til kynna en að hún verði áfram.

Stefán Vagn Stefánsson – Inn

mynd/aðsend

Stefán Vagn er yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki og á kafi í sveitarstjórnarmálum þar. Stefán Vagn er með orð á sér fyrir að vaða í verkin og tala tæpitungulaust. Eiginleikar sem ættu að leggjast vel í kjósendur í Norðvesturkjördæmi, þó að þeir hafi stundum orðið honum að fótakefli. Nægir þar að nefna ísbjarnarævintýri Stefáns, en Stefán leiddi aðgerðir gegn ætluðum innrásum ísbjarna sem lauk auðvitað með algjörum yfirburðasigri Stefáns og sveitunga hans. Stefán býður sig fram gegn sitjandi þingmanninum Höllu Signýju Kristjánsdóttur. Halla Signý er Bolvíkingur en Stefán sækir sinn stuðning í Skagafjörðinn þar sem eru umtalsvert fleiri kjósendur.

Kristrún Mjöll Frostadóttir – Inn

Kristrún Mjöll – Mynd: Skjáskot RÚV

Kristrún Mjöll hefur getið sér gott orð sem aðalhagfræðingur Kviku banka undanfarin ár. Kristrún verður 32 ára á árinu og lauk námi í alþjóðafræðum og hagstjórn frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Kristrún er ein þeirra sem tóku þátt í framboðskönnun Samfylkingarinnar í síðasta mánuði og þótti nafn hennar standa upp úr á annars vænlegum lista fólks. Kristrún hefur vakið athygli á undanförnum misserum fyrir vasklega framkomu á vegum Kviku banka, þykir hafa þægilega nærveru og væri án nokkurs vafa fengur fyrir Samfylkinguna inn í baráttuna á næstu mánuðum.

Daði Már Kristófersson INN

Daði Már Kristófersson mynd/Anton BrinkDaði Már er prófessor í Hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Félagsvísindasviðs HÍ. Daði hefur verið viðloðandi Viðreisn svo að segja frá upphafi og hefur ekki leynt skoðunum sínum sem ríma nokkuð stöðugt við stefnu Viðreisnar, sérstaklega í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, en það er jafnframt sérsvið Daða. Daði hætti nýverið sem sviðsforseti á miðju kjörtímabili og tók skömmu síðar við varaformennsku í Viðreisn. Það kom því fáum á óvart þegar hann lýsti, eða viðurkenndi kannski öllu heldur, að hann stefndi á þingsæti. Daði þykir einkar fær í að sjóða flóknar hugmyndir í meðfærilega bita og er því eflaust akkúrat það sem Viðreisn þarf á að halda inn í baráttuna í vor, sumar og haust.

Inga Sæland – Út

Inga Sæland

Inga kom inn á þing nokkuð óvænt í kosningunum 2017 og vakti strax hrifningu margra fyrir vasklega en fyrst og fremst einlæga framkomu sína í ræðustól. Inga er þingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi þar sem flokkurinn fékk rúmlega 8% fylgi í síðustu kosningum. Flokkurinn er nú að mælast undir 5% í skoðanakönnunum og því gæti svo farið að Inga og samflokksmenn hennar allir hverfi af þingi. Eru margir viðmælendur, pólitískir mótherjar og samherjar til jafns, sammála um að mikill sjónarsviptir yrði að Ingu missti hún þingsæti sitt.

Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy – Út

Smári McCarthy og Helgi Hrafn, Píratar

Bæði Helgi og Smári tilkynntu það í haust að þeir hygðust ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu fyrir hönd Pírata í komandi kosningum. Smári kom inn á þing í kosningunum 2016 og var endurkjörinn 2017. Hann klárar því fimm ára þingsetu á þessu ári og ljóst að Smári hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í málaflokkum sem liggja nærri hjarta Pírata. Helgi Hrafn kom inn á þing árið 2013. Hann gaf ekki kost á sér árið 2016 í kosningunum en kom aftur inn á þing árið 2017. Helgi hefur því ýmist gefið kost á sér eða ekki á víxl í síðustu fjórum kosningum. Saman hafa þessir tveir glætt þingflokk Pírata miklu lífi, enda báðir tveir einstakir persónuleikar. Píratar mega hafa sig alla við að fylla í skarðið sem þeir munu skilja eftir sig

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að