fbpx
Laugardagur 08.ágúst 2020
Eyjan

Martröð Trumps: sjáðu nýjustu skoðanakannanir að vestan

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 24. júní 2020 14:00

Það er hart sótt að Trump. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir skoðanakannanir síðustu vikna eru stjórnmálaskýrendur sammála að Donald Trump þurfi á kraftaverki að halda ætli hann sér að sitja áfram í Hvíta húsinu næstu fjögur árin. Á landsvísu mælist Joe Biden, forsetaefni Demókrata, með 14% forskot á Trump í skoðanakönnun New York Times sem birt var í dag. Meðaltal nýlegra skoðanakannana sýnir 10.4% forskot Biden. Þó að forskot á landsvísu þýði ekki endilega sigur þökk sé kosningakerfi ríkjaskipaðra kjörmanna, er mjög erfitt að raða úrslitum þannig að frambjóðandi hljóti svo mikinn meirihluta atkvæða án þess að ná meirihluta kjörmanna.

Samhliða því hríðfellur hlutfall Bandaríkjamanna sem ánægt er með störf forsetans. Mælast óánægðir á bilinu 8-15% fleiri en ánægðir, samkvæmt meðaltali kannanna sem birtar voru í gær. Forskot Trumps er svo gott sem horfið í sveifluríkjunum svokölluðu og gæti það farið svo að ríki sem hafa verið tryggilega „rauð,“ gætu ljáð Demókrötum sína kjörmenn. Í Texas munar nú 0.2% á frambjóðendunum í meðaltali allra skoðanakannanna. Texas hefur ekki kosið Demókrata í forsetakosningum síðan kjósendur þar völdu Jimmy Carter framyfir hinn gríðarlega óvinsæla Gerald Ford. Ford hafði komist til valda þegar Nixon sagði af sér eftir röð hneykslismála sem gekk undir samnefninu „Watergate.“ Var eitt fyrsta verk Fords að náða Nixon. Almenningur fyrirgaf það aldrei. Til gamans má reyndar geta að Gerald Ford var skipaður varaforseti með samþykki öldungadeildarinnar eftir að Spiro Agnew, kjörinn varaforseti Nixons, sagði af sér í kjölfar hneykslismáls. Þannig varð Gerald Ford bæði varaforseti og forseti Bandaríkjanna án þess að vera nokkurntímann kosinn í þau embætti.

Sveifluríkin sveiflast frá Trump

Hér að neðan má sjá niðurstöður skoðanakannanna í ríkjum sem máli munu skipta á kjördag. Tölur eru fengnar frá fivethirtyeight.com sem reiknar meðaltal skoðanakannanna á landsvísu út frá sögulegum áreiðanleika þeirra, úrtaki og fleiri atriða. Að sjálfsögðu ber að gæta þess að vika er langur tími í pólitík og 20 vikur eru til kosninga.

Arizona: Biden yfir með 5.0% – Trump 43.4 / Biden 48.4%
Trump má tapa Arizona, en þarf þá að hirða Flórída, Wisconsin, Norður Karólínu og Pennsylvaníu. Það er m.v. stöðuna í dag, útilokað.

Flórída: Biden yfir með 7.7% – Biden 50.3% / Trump 42.6%
Trump getur ekki unnið án Flórída. Ríkið er hans annað heimaríki og hefur dvalið þar mikið á kjörtímabilinu. Hann hefur haldið fjöldan allan af stuðningsfundum þar (e. rally). Trump vill vinna Flórída og má búast við að hann einbeiti sér mjög stíft næstu mánuði að því að fanga hug meirihlutans þar á ný.

Georgía: Biden yfir með 1.5% – Biden 47.4% / Trump 45.9%
Reyndar ekki talið eitt sveifluríkjanna, en ríkið er fjölmennt og veitir 16 kjörmenn svo það skiptir vissulega máli. Ef Trump tapar Georgíu verður hann líklega búinn að tapa flestum öðrum sveifluríkjum, en það væri niðurlægjandi að missa ríkið í faðm Demókrata.

Iowa: Trump yfir með 0.1% – Trump 46.0% / Biden 45.9%
Dreifbýlt landbúnaðarríkið Iowa kaus Trump með 10% mun fyrir 4 árum og því skellur fyrir herbúðir Trump að sjá það forskot hverfa. Raunverulegur möguleiki er á því að Trump missi ríkið til Biden. Boðskapur Trump hefur að mestu beinst til íbúa dreifbýlis, smárra bæja og borga, bænda og verksmiðjustarfsmanna. Iowa er á til nóg af því öllu og lítil furða að Trump hafi gengið vel þar áður.

Michigan: Biden yfir með 9.8% – Biden 50.8% / Trump 41.0%
Trump sigraði þetta fjölmenna ríki með örlitlum mun 2016 (0.22%) og hirti þar með 16 kjörmenn. Að sigra fjölmenn ríki eins og Michigan með örlitlum mun er það sem gerði honum kleift að vinna árið 2016 með minnihluta atkvæða. Þar sem sigurvegari tekur alla kjörmennina sem ríkið hefur að bjóða en ekki í hlutfalli við kosningu, þá falla atkvæðin niður sem kusu þann sem laut í lægra haldi og hafa ekkert vægi í kjörmannatalningu.

Norður Karólína: Biden yfir með 2.1% – Biden 47.0% / Trump 44.9%
Hér er um mikilvægt sveifluríki að ræða. Trump þarf að vinna Flórída auk þriggja af fjórum öðrum sveifluríkjum. Norður Karólína er eitt þeirra. Ríkið hefur hærra hlutfall svartra íbúa en í Bandaríkjunum öllum en vandamálið er að koma þeim atkvæðum á kjörstað. Kosið er á þriðjudögum í Bandaríkjunum og kjördagur er ekki frídagur. Enn fremur vinna svartir að meðaltali mun lengra frá heimilum sínum og kjörstaðir í þeirra hverfum oft illa mannaðir og því lengri bið eftir að komast að. Obama tókst vel til við skráningar á kjörskrá og var kosningaþátttaka 2008 í sögulegum hæðum. Hún hefur dottið niður aftur síðan þá. Búast má við miklu átaki Demókrata í ríkinu að koma atkvæðum minnihlutahópa á kjörstað.

Pennsylvanía: Biden yfir með 6.0% – Biden 49.5% / Trump 43.5%
Hér er um annað sveifluríki að ræða og eitt þessara þriggja af fjórum sem Trump þarf að vinna auk Flórída. Pennsylvanía er dreifbýlt ríki með talsvert af íhaldssömum sveitum þar sem Trump á vísan stuðning. Á hinn boginn er í ríkinu einnig stórar frjálslyndar og framsýnar háskólaborgir. Einnig liggur Pennsylvanía upp að New York ríki, New Jersey, Maryland og Delaware en yfirgnæfandi meirihluti allra fjögurra ríkjanna styður Demókrata.

Wisconsin: Biden yfir með 7.5% – Biden 49.5% / Trump 42.0%
Sveifluríki sem Trump sigraði 2016 með um 0.7% mun og þar áður hafði ríkið kosið Demókrata síðan það kaus Ronald Reagan árið 1984. Ríkið er strjálbýlt og mikið um sveitir og fámennar borgir og rétt eins og í Iowa og Michigan lagðist boðskapur Trumps í kosningabaráttunni 2016 vel í kjósendur hér. Afar hæpið er að Trump geti sigrað ríkið aftur, enda sögulegur vettvangur Demókrata og boðskapur Trumps í málefnum landbúnaðar og betri viðskiptasamninga í þágu bandarískrar framleiðslu og landbúnaðar hefur misst marks á undanförnum misserum. Hann hrífur a.m.k. ekki íbúa Wisconsin með sér jafn skarpt og áður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðmundur Franklin opnar á þingframboð – „Tígrisdýrin breyta ekki röndunum á sér.“

Guðmundur Franklin opnar á þingframboð – „Tígrisdýrin breyta ekki röndunum á sér.“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ísland reiðubúið að styðja Líbanon eftir sprenginguna í Beirút

Ísland reiðubúið að styðja Líbanon eftir sprenginguna í Beirút
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir Guðna vera forseta elítunnar

Segir Guðna vera forseta elítunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lítil ásókn í húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum

Lítil ásókn í húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum