fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Björn segir Brynjar vera annaðhvort óheiðarlegan eða heimskan – „Nema hvort tveggja sé“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 6. apríl 2020 11:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er nefnilega einungis hægt að skilja þetta sem Brynjar segir á tvo vegu. Annað hvort er hann viljandi að misskilja það sem Sunna segir, sem ber vott um óheiðarleika, eða þá að hann er virkilega svona heimskur og skilur þetta ekki betur … nema hvort tveggja sé,“

segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata um kollega sinn hjá Sjálfstæðisflokknum, Brynjar Níelsson í dag.

Tilefnið eru ummæli Brynjars frá því í gær, er hann tjáði sig um frammistöðu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í Silfrinu í gær, hvar hún taldi launalækkun hjúkrunarfræðinga gott dæmi um hið skakka verðmætamat sem heilbrigðiskerfið byggi við og endurspeglaðist í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Brynjar sagði Þórhildi Sunnu ekki vita um hvað verðmætasköpun væri, hefði litla veruleikatengingu og ætti að ganga í sósíalistaflokkinn.

Sjá nánar: Brynjar skýtur föstum skotum á Þórhildi Sunnu

Klassískur strámaður

Björn Leví deilir frétt DV um málið og segir ummæli Brynjars dæmi um rökvillu:

„Iss, þetta er ekkert fast skot hjá Brynjari. Þetta er klassískur strámaður sem, ásamt móðgunargirni sjallaþingmanna, sem virðist vera það eina sem er kennt í stjórnmálaskóla sjálfstæðisflokksins. Í stað þess að kenna rökfræði og gagnrýna hugsun þá er bara kennt hvernig á að nota rökvillur til þess að villa um fyrir umræðunni.“

Morfís stíll

Björn segir íslenska orðið „heimskur“ eiga vel við Brynjar:

„Margir sem eru svona fastir í eigin dramabólu eins og Brynjar virðist vera skilja nefnilega ekki viðhorf annarra. Mjög nákvæmt orð yfir það er hið frábæra íslenska orð „heimskur“ (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=59527), í merkingunni „Heimskur er þá upphaflega sá sem heldur sig heima við og aflar sér ekki þekkingar á ferðum“.

Ég býst við að móðgunarmælirinn hjá sumum sé farinn á fleygiferð og verð því að bæta við. Ég held að þetta sé, eins og ég sagði, hvort tveggja. Ekki bara heimska heldur líka óheiðarleiki. Ástæðan fyrir því er að það er gripið til klassísku tækjanna sem eru kennd í stjórnmálaskóla sjálfstæðismanna. Þau tól eru ekki ætluð til heiðarlegra skoðanaskipta. Þeim er ætlað að setja umræðuna í morfís stíl háðsglósa, rökvillna og innantómra orða. Að snúa nú á andstæðinginn með „ertu hættur að berja konuna þína?“ spurningum, og þess háttar. Kannski veit Brynjar það ekki heldur, að þessi aðferðafræði sé óheiðarleg. Það væri líklega eina málsvörn hans,“

segir Björn Leví og bætir við að þetta sé dæmi um niðurrifsstjórnmál.

Ekki persónuníð

Björn segist að lokum ekki vera að fara í manninn, heldur boltann og hann sé ekki að ræða um persónu Brynjars:

„Fyrir þá sem telja þetta „fara í manninn en ekki boltann“ þá, nei. Ég endurtek: „þá skulum við ræða hversu heimskulegt og óheiðarlegt þetta innlegg Brynjars er í umræðuna“. Það segir ekkert til um persónu Brynjars. Bara að hann notaði heimskulegan og óheiðarlegan útúrsnúning máli sínu til framdráttar. Það verður ekki dæmigert um persónu hans fyrr en hann áttar sig á því hversu heimskuleg og óheiðarleg svona stjórnmál eru. Í því samhengi skulum við átta okkur á því að þetta er alls ekkert í fyrsta skiptið sem Brynjar notar þessa útúrsnúningaaðferðafræði. Því vil ég vekja athygli á því hér með, með þeim einföldu skilaboðum að áframhaldandi notkun á svona útúrsnúningum er með upplýstri ákvörðun. Þar af leiðandi er öll framtíðarnotkun á svona bulli inn í umræðuna með yfirlögðu ráði. Þá getum við farið að tala um persónu Brynjars í þessu samhengi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus