fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Ólína lyftir hulunni – „Þessa bók þurfti að skrifa“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 14. nóvember 2020 19:45

Ólína Þorvarðardóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingiskona, vill svipta hulunni af gamalgróinni meinsemd í íslensku samfélagi, ítökum sterkra hagsmuna- og stjórnmálaafla og því hvaða afleiðingum það getur haft fyrir þá einstaklinga sem fara gegn þeim.

„Hvað er að á Íslandi?“ Þessarar spurningar spyr Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir í formála nýrrar bókar sem hún hefur ritað. Í bókinni leitast Ólína við að svara þeirri spurningu með því að varpa ljósi á þá spillingu og fyrirgreiðslupólitík sem hún telur ríkja hér á landi og deilir reynslu sinni og annarra af atvinnubanni og misbeitingu ráðningarvalds.

„Ég skrifaði þessa bók af samviskuástæðum,“ segir Ólína við blaðamann. „Ég taldi einfaldlega ekki undan því vikist að deila með lesendum því sem ég veit og hef kynnst um fyrirgreiðslupólitíkina og klíkuveldið í samfélagi okkar – að lyfta hulunni upp og leyfa almenningi að sjá það sem undir liggur.“

Frændhygli og flokkadrættir

Ólína segir frændhygli og flokkadrætti lengi hafa tíðkast við ráðningar í störf hér á landi og skipti þá oft máli hvaða stjórnmálaflokk umsækjendur styðja. „Um leið hefur annað fólk verið beitt atvinnubanni, eða því sem á þýsku nefnist Berufsverbot. Það er aðferð sem notuð var á dögum þýska ríkisins gegn kommúnistum, gyðingum og fleirum sem ekki voru stjórnvöldum þóknanlegir. Fólki var haldið frá störfum vegna stjórnmálaskoðana eða uppruna. Hér hafa svipaðir tilburðir verið uppi allar götur frá því að stjórnmál tóku að myndast.“

Skuggabaldrar samfélagsins

Bókin fékk titilinn Spegill fyrir skuggabaldur. Ólína segir að sá titill sé afar viðeigandi fyrir viðfangsefni bókarinnar, því að hún eigi að vera spegill fyrir skuggabaldrana sem leynast í skúmaskotum samfélagsins.

„Mér fannst samlíkingin svo augljós. Skuggabaldur er fyrirbæri úr þjóðsögum okkar. Hann er afkvæmi tófu og kattar, mikið skaðræðiskvikindi sem grandar öllu sem á vegi hans verður. Ekkert getur ráðið niðurlögum hans nema takist að sýna honum sína eigin mynd. Í honum sameinast tvö ósamrýmanleg öfl eins og þegar stjórnmálin yfirtaka það sem ætti að vera utan seilingar þeirra; þegar atvinnugreinar leggja undir sig háskólastarfsemi; þegar stjórnmálin hnekkja akademísku frelsi vísindamanna; þegar fjölmiðlum er haldið í gíslingu sterkra hagsmunaeða stjórnmálaafla; þegar fagmennska er fyrir borð borin og látin víkja fyrir sérhagsmunum. Þá fara reglur og viðmið úr skorðum en til verða afkvæmi – skuggabaldrar.“

Ólína Þorvarðardóttir
Mynd/GVA

Raunverulegar afleiðingar

Sjálf hefur Ólína reynslu af því að vera beitt svonefndu Berufsverbot eftir þátttöku í stjórnmálum á árunum 20092015. Hún hefur því þurft að leita réttar síns þegar gengið hefur verið fram hjá henni við veitingu opinberra starfa.

„Einu sinni hef ég snúið mér til kærunefndar jafnréttismála þar sem ég fékk úrskurð mér í vil eftir ráðningu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum haustið 2018. Í tveimur málum hef ég snúið mér til umboðsmanns Alþingis.“

Ólína segir að til að spyrna á móti þessum veruleika – spillingu og frændhygli – við veitingu opinberra starfa þurfi slík brot að hafa raunverulegar afleiðingar fyrir þá sem þau fremja

„Góðar verklagsreglur og stjórnsýsluhættir – sé þeim fylgt og þær virtar – eru auðvitað grundvallaratriði. En hér þarf fleira að koma til. Á Íslandi hafa stjórnsýslubrot og brot á jafnréttislögum í ráðningarmálum engar afleiðingar fyrir þann sem brotið fremur, ólíkt því sem gildir um önnur lögbrot. Það eru til dæmis engin viðurlög við því að brjóta á fólki í ráðningarmáli – enginn sem ber raunverulega ábyrgð eða borgar sekt, enginn sem þarf að segja af sér. Ég held líka að það þurfi með lögum að vernda bæði fjölmiðla og fræðasamfélag fyrir áhrifasókn og ásælni hagsmunaafla, svo að þau geti sinnt því lýðræðishlutverki sínu að fjalla opið um mál sem hafa áhrif á samfélag okkar.

Veikburða verkfæri

Þau úrræði sem Ólína hefur sjálf nýtt sér segir hún að séu afar takmörkuð og komi í reynd ekki í veg fyrir að hið opinbera virði gildandi reglur að vettugi þegar störf eru veitt. Bæði úrskurðarnefnd jafnréttismála og umboðsmaður Alþingis láti aðeins til sín taka þegar grunur leikur á að tilteknar reglur hafi þegar verið brotnar en sönnunarbyrðin sé oft erfið.

„Kærurétturinn er eftirá-viðbragð og þess vegna veikburða verkfæri til þess að veita ráðningarvaldinu aðhald. Hin brotlega ráðning stendur eftir sem áður, óháð niðurstöðum kærunefndar, umboðsmanns eða dómstóla.

Réttast væri að ógilda hinn ólöglega verknað og dæma fólki starf sem haft hefur verið af því með lagabroti. Það væri alvöru aðhald. Stofnanir sem brjóta jafnréttis- eða stjórnsýslulög ættu skýlaust að greiða sekt í ríkissjóð eða axla ábyrgð með einhverjum hætti – en það gera þær ekki í dag. Stjórnsýslureglurnar og löggjöfin verða að vera þannig úr garði gerðar að þær fyrirbyggi lögbrot í stað þess að vera leiktjöld til að hylma yfir fyrirgreiðslu og klíkuráðningar þegar svo ber undir.“

Pólitísk innræktun

Í bókinni talar Ólína meðal annars um faglega og pólitíska „innræktun“ sem hún nefnir svo.

„Einsleitni og innræktun nefni ég sérstaklega vegna smæðar samfélagsins. Í skólakerfinu eru menn „aldir upp“ ef svo má segja af sárafáum kennurum í tiltölulega fámennum deildum, til dæmis lagadeildinni. Síðan fara þeir inn í embættismannakerfið, dómstólana og pólitíkina – já, og út í atvinnulífið því forkólfarnir þar eru nátengdir valdaflokkunum tveimur, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þannig verður til lokað klíkuveldi þar sem lítil endurnýjun á sér stað. Þar sem þröng hugsun um þrönga hagsmuni ræður gjörðum manna. Maður þekkir mann, skólasystkini ráða ráðum sínum og mál eru leyst með samtölum, utan við formlegar leiðir.“

Taumlaus kaup stjórnvalda

Annað sem Ólína nefnir í bók sinni er spilling sem hún telur þrífast í kaupum stjórnvalda á sérfræðiþjónustu og ráðgjöf.

„GRECO, samtök Evrópuríkja gegn spillingu, hafa varað við því hversu mikil og áberandi áhersla sé á það lögð hér á landi að einkavæða og útvista starfsemi sem verið hefur á vegum hins opinbera, til dæmis með þjónustu- eða verksamningum við einkarekin fyrirtæki

Í rannsókn sem Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur birti árið 2006 er bent á ört vaxandi, allt að því taumlaus, kaup stjórnvalda á sérfræðiþjónustu og ráðgjöf. Matsnefnd GRECO hefur bent á að slík þróun hafi alveg sérstakar afleiðingar á Íslandi vegna smæðar þjóðarinnar þar sem hætta sé mikil á frændhygli og fyrirgreiðslupólitík, nokkuð sem GRECO skilgreinir sem spillingu.“

Þorsteinn Már

Það hefur vakið athygli að í bókinni greinir Ólína frá því að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafi komið í veg fyrir að hún fengi ráðningu sem forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri því Ólína hafi talað fyrir breytingum á kvótakerfinu á meðan hún sat á þingi. Hún segir að þetta þurfi ekki að koma á óvart

„Allir sem þekkja mig og hafa fylgst með mér, til dæmis málflutningi mínum í sjávarútvegsmálum undanfarin ár, vita af framkomu stórútgerðarmanna í minn garð. Það, að ég skuli núna segja frá því sem gerðist í þessu tilviki, kemur fólki þess vegna ekkert mjög á óvart.“

Sterk og jákvæð viðbrögð

Ólína segir að viðbrögðin við bók hennar hafi verið mikil.

„Þau hafa verið bæði sterk og jákvæð. Ég finn að fjölmargir tengja við reynslusögurnar í bókinni og ég hef fengið svo margar til viðbótar að ég gæti þess vegna skrifað þrjár bækur í viðbót. Þetta jaðrar við nýja metoo-bylgju.“

Ólína óttast heldur ekki að með skrifum bókarinnar hafi hún skaðað atvinnuhorfur sínar til frambúðar.

„Ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af því. Ég hef nóg að gera – sé varla út úr augum fyrir skemmtilegum og gefandi verkefnum – og ræð mér sjálf. Það er óskastaða. Þessa bók þurfti að skrifa. Hún á brýnt erindi inn í samfélagsumræðuna, og ég gat ekki vikist undan því lengur, samvisku minnar vegna, að skrifa hana. Almenningur verður að fá vitneskju um þessi mál og öðlast skilning á þeim. Um leið fannst mér gaman að leyfa blaðamanninum að gægjast fram við hlið fræðimannsins sem líka heldur þarna á penna.“

Meðvirkni á Íslandi

Í bók sinni rökstyður Ólína ályktanir um spillingu innan stjórnkerfisins með fjölda reynslusagna sem og með vísan til rannsókna og skýrslna. Þrátt fyrir að þessi gögn og frásagnir hafi legið fyrir í nokkurn tíma hafi þeim þó lítil athygli verið veitt.

„Ég held að fólk almennt geri sér litla grein fyrir samhenginu. Það ríkir líka ákveðin meðvirkni á Íslandi í þessum málum. Það er eins og fólk geri ráð fyrir spillingunn og sé hætt að verða hissa

Þau sem verða fyrir barðinu á atvinnubanni, og eru enn að reyna að afla sér atvinnu, eiga ekki gott með að ræða vandann opinskátt. Þú vilt ekki sjálf auglýsa að þú sért í atvinnubanni meðan þú ert enn að reyna að fá vinnu. Og það er orðsporsáhætta að leita réttar síns. Þess vegnar skapast eins konar kúgunarástand og meðvirkni sem erfitt er að brjótast út úr

Ekki ósvipað því sem lengi ríkti yfir eineltismálum og kynferðislegri áreitni. En svo þegar stíflan brestur, þá gerist eitthvað. Allt í einu áttar fólk sig á að málið snýst ekki bara um „þig“ heldur átt „þú“ samleið með fjöldamörgum öðrum í sömu stöðu. Vandinn er miðlægur – kerfislægur.“

Með spegilinn á lofti

Ólína segir að bæði almenningur og fjölmiðlar geti tekið þátt í að uppræta þennan vanda.

„Með opinni umræðu og raunverulegu aðhaldi við stjórnvöld. Almenningur þarf að átta sig á því hvernig kaupin ganga á eyrinni, og beita kosningarétti sínum til þess að veita stjórnvöldum aðhald. Forsenda þess eru fjölmiðlar, þeir verða að halda vöku sinni og afhjúpa spillinguna hvenær sem færi gefst. Ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla ásamt öflugu og frjálsu fræðasamfélagi er lykillinn að upplýstri umræðu, og um leið eitt mikilvægasta aðhaldið sem hægt er að veita ráðandi öflum.“

Það er því sameiginlegt verkefni samfélagsins að láta þessi mál sig varða. Eða eins og Ólína bendir á í niðurlagi bókar sinnar þá megum við ekki haga okkur líkt og hún Magga í bragga sem óvirk og vondauf horfði á skuggabaldur skunda hjá. Okkur sé nefnilega önnur leið fær. „Að standa á móti með spegilinn á lofti og sýna skuggaböldrum heimsins sína eigin mynd.“

 

 

 

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“