Vinsældir ríkisstjórnarinnar hafa aukist til muna síðan kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi. Hún nýtur nú stuðnings um 55% landsmanna, en stuðningurinn hefur ekki mælst hærri síðan í apríl 2018.
En svo virðist sem kórónuveirufaraldurinn hafi þessi áhrif annarsstaðar einnig, því flestir þjóðarleiðtogar heims virðast hafa aukið vinsældir sínar í faraldrinum.
Þannig hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem talinn er af mörgum hafa tekið afar illa á vandamálinu, ekki mælst vinsælli en síðan í byrjun árs árið 2017, en 49% þjóðarinnar styður forsetann, meðan 45% þjóðarinnar gerir það ekki. Það er aðeins í annað skipti á forsetaferli Trump sem fleiri eru jákvæðir í hans garð, en færri.
Þá telja 60% þjóðarinnar að Trump hafi staðið sig vel í baráttunni gegn kórónuveirunni, en hann bætti við sig 5 prósentustigum í síðustu könnun.
Þá hafa vinsældir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, aldrei verið meiri en 52% Breta studdu Johnson í sínum aðgerðum um miðjan mars mánuð, miðað við 47% frá því í febrúar. Johnson mældist aðeins með 36% í desember, rétt fyrir kosningar, en nýjustu tölur sýna að Johnson mælist nú með 72% stuðning.
Macron Frakklandsforseti hefur bætt við sig 13 prósentustigum og mælist með 51%, meðan Angela Merkel Þýskalandskanslari mælist með 79% stuðning, sem er bæting um 11 prósentustig frá byrjun mars.
Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte mælist með 71%, eða 27 prósentustigum meira en í febrúar.
Samkvæmt Sky virðist eini þjóðarleiðtoginn sem tapar vinsældum vera Jair Bolsonaro, hinn hægri sinnaði forseti Brasilíu, sem mælist með 53% stuðning, en var með 56% stuðning um miðjan mars.