fbpx
Sunnudagur 24.janúar 2021
Eyjan

Geggjaður persónuleiki – kvöldið fyrir fimmtíu árum þegar Björgvin sló í gegn

Egill Helgason
Fimmtudaginn 5. september 2019 12:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ætli þetta hafi ekki verið fyrstu stóru tónleikarnir sem voru haldnir í Laugardalshöll? Áður hafði maður farið þangað á handboltaleiki sem voru feiki fjölsóttir á þessum árum. Það var 4. september 1969, fyrir nákvæmlega 50 árum að blásið var til popp-festivals í Laugardalshöllinni.

Þar skyldu spila allar helstu hljómsveitir landsins, en það setti strik í reikninginn að nokkru áður höfðu orðið mikil umskipti á íslenska hljómsveitarmarkaðnum. Hljómar og Flowers sem höfðu verið tvær meginstoðirnar brotnuðu upp; Gunnar Þórðarson safnaði liði í Trúbrot, en þeir sem komust ekki með þangað stofnuðu hljómsveitina Ævintýri. Þetta var í anda þess sem var að gerast í Bretlandi, allir lásu um það í Melody Maker  – þar hafði meðal annars orðið til súpergrúppan Blind Faith með Eric Clapton og Steve Winwood.

Ég fór í Laugardalshöllina þetta kvöld með vini mínum Pétri Gunnarssyni. Við vorum bara níu ára en með ódrepandi áhuga á því sem var að gerast í popptónlistinni. Ég límdi myndir af hljómsveitum á vegginn við rúmið hjá mér. Okkur fannst pínu leiðinlegt að tónleikagestir voru að spyrja okkur hvort mömmur okkar hefðu leyft okkur að koma. Jú, örugglega, en þær höfðu kannski ekki svo mikið um það að segja. Reykjavík var minni á þessum árum og krakkar voru miklu frjálsari ferða sinna.

Eftir á að hyggja voru flestir gestirnir í Höllinni þetta kvöld mjög ungir. Þetta var tónlist yngstu kynslóðarinnar. Unglingarnir sem á endanum tóku okkur Pétur að sér og leyfðu okkur að sitja hjá sér hafa líklega ekki verið svo mörgum árum eldri en við. Ég kann þeim ennþá þökk fyrir. Aðalstjarna kvöldsins, Björgvin Halldórsson, var ekki nema 18 ára.

Ég man tónlistaratriðin ekki svo glöggt. Ég þóttist þegar hafa frekar framúrstefnulegan tónlistarsmekk og vildi ekki það sem á þeim árum var kallað kúlutyggjótónlist. Þannig hafði ég áhuga á Óðmönnum sem spiluðu músík í anda Cream. Ég man eftir flutningi þeirra á laginu White Room þetta kvöld – fannst það flott. Þetta var í fyrsta og líklega eina skipti sem ég heyrði í Trúbroti á sviði; þeir höfðu stærri hljóm en hinar sveitirnar, en ég man að einhverjum tónleikagestum fannst þeir full „heavy“.

Djörfustu sviðsframkomuna hafði Óttar Felix Hauksson úr Pops sem kom með gínu upp á sviðið og háttaði hana með miklum tilþrifum. Þá var maður reyndar frekar feginn að mamma sá ekki til.

Ég nefndi Björgvin. Það var þetta kvöld að hann sló gjörsamlega í gegn og varð helsta poppstjarna Íslands. Ég man að hann var ótrúlega öruggur á sviðinu – fæddur til að standa þar. Hljómsveitin Ævintýri sigraði í keppni kvöldsins – lögðu risana í Trúbrot. Eftir þetta greip um sig mikið Björgvinsæði. Eldra fólki fannst þetta kátlegt og sumum hneykslanlegt, en á þessum tíma var kynslóðabilið miklu stærra en það er nú. Það voru sagðar sögur af ungum krökkum sem reyndu að brjóta á sér framtönn – líkt og Björgvin sem var með dálítið skarð í einni tönn. Ég sé líka á Facebook-síðu Björgvins að þar gefur sig fram kona sem sagði í sjónvarpsviðtali frægan frasa um hann: „Geggjaður persónuleiki.“

Þetta voru ógleymanlegir tónleikar fyrir þá sem þarna voru. Tímamótaatburður. Árið eftir komu svo Led Zeppelin og spiluðu í Höllinni. Ég náði líka að vera þar. En endirinn var ekki alveg farsæll, því tónleikahaldarinn reyndist vera lukkuriddari, tónlistarmennirnir fengu ekki borgað sökum þess fógeti lagði hald á aðgangseyrinn.

Ef svona viðburður hefði verið haldinn í dag er víst að hefðu verið teknar milljón myndir. En myndavélar voru lítt á lofti í þá daga. Hér eru myndbrot frá Pop-festivalinu fyrir 50 árum, þetta eru bara smá sýnishorn, og tónlistin sem er leikin undir er ekki frá hljómleikunum. Við sjáum Óla í Pops á trommum, Shady, Gunnar Jökul, Rúnar og Gunna Þórðar, Finn Torfa úr Óðmönnum í bakgrunninum og svo Björgvin í hvítum buxum, ber að ofan undir léttum jakka. Og svo unglingafjöldina í salnum. Ég man ekki til þess að hafi verið mikið áfengi þarna, krakkarnir voru ungir og áhuginn á tónlistinni og hljómsveitunum var brennandi.

Skrítið til þess að hugsa að maður hafi verið þarna í þessum hópi þegar maður sér þessar myndir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dökkt útlit í ferðaþjónustunni – Búa sig undir „Íslendingasumar“

Dökkt útlit í ferðaþjónustunni – Búa sig undir „Íslendingasumar“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Reykjavíkurborg býst við 35% aukningu á umsóknum um fjárhagsaðstoð á milli ára

Reykjavíkurborg býst við 35% aukningu á umsóknum um fjárhagsaðstoð á milli ára
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ingibjörg Sólrún til Sameinuðu þjóðanna – Mun starfa að kosningamálum í Írak

Ingibjörg Sólrún til Sameinuðu þjóðanna – Mun starfa að kosningamálum í Írak
Eyjan
Fyrir 1 viku

Helga Vala gáttuð á viðsnúningnum – „Ég skil ekki neitt“

Helga Vala gáttuð á viðsnúningnum – „Ég skil ekki neitt“