Forsætisráðherra hefur á grundvelli niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, skipað Gunnar Jakobsson, lögfræðing, í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára frá og með 1. mars 2020. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika var auglýst laust til umsóknar 3. október sl. Umsóknir bárust frá tíu einstaklingum og dró einn umsækjandi umsókn sína til baka.
Hæfnisnefnd sem skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 7. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, mat fimm umsækjendur, Guðrúnu Johnsen, Gunnar Jakobsson, Jón Þór Sturluson, Tómas Brynjólfsson og Yngva Örn Kristinsson mjög vel hæfa til að gegna embættinu.
Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands tók fjármála- og efnahagsráðherra umsóknargögn og greinargerð hæfnisnefndar til sérstakrar skoðunar auk þess sem hann lagði sjálfstætt mat á hæfni umsækjenda, m.a. með viðtölum við þá sem hæfastir höfðu verið metnir að áliti hæfnisnefndar. Var það niðurstaða fjármála- og efnahagsráðherra að Gunnar Jakobsson lögfræðingur væri hæfastur umsækjenda og var hann tilnefndur til að fá skipun í embættið.
Er það niðurstaða forsætisráðherra á grundvelli heildarmats á umsóknargögnum, greinargerð hæfnisnefndar og rökstuðningi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir tilnefningu sinni, og annarra gagna málsins, að tilnefning fjármála- og efnahagsráðherra byggist á traustum málefnalegum grunni og að Gunnar Jakobsson sé í reynd, á grundvelli þeirra matsþátta sem lagðir eru til grundvallar í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands og í auglýsingu um embættið, hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika.
Þar sem Gunnar Jakobsson getur ekki hafið störf í Seðlabanka Íslands fyrr en 1. mars nk. vegna skuldbindinga sinna í núverandi starfi hefur forsætisráðherra, að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, falið Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra, að gegna störfum varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika samhliða starfi sínu sem seðlabankastjóri frá 1. janúar nk. þegar ný lög nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, öðlast gildi til 1. mars 2020.
Meðfylgjandi: