fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Jóhann er bálreiður: Sakar Kópavogsbæ og einkafyrirtæki um einræðistilburði og dólgshátt – „Helvítis fantar“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 23. október 2019 11:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

UPPFÆRT

Í fyrstu útgáfu fréttinnar var vitnað í grein Jóhanns þar sem hann talaði um Íslensku gámaþjónustuna,(sem nú heitir Terra) en hið rétta er að Jóhann var að meina Íslenska gámafélagið. Eru hlutaðeigandi beðnir afsökunar á nafnaruglinu.

Jóhann Páll Símonarson, fyrrverandi sjómaður, segir farir sínar og íbúa í Blásölum í Kópavogi ekki sléttar af samskiptum við Íslensku gámafélagið, Tryggingamiðstöðina og Kópavogsbæ, en hann segir  bæjarstjórann og málsaðila koma fram af virðingaleysi og reyni að skorast undan ábyrgð sinni varðandi tjón sem bíll frá Íslenska Gámafélaginu olli á steinkanti, og hjólastólabraut fyrir fatlaða framan við fjölbýlishús í Blásölum, með því að aka ítrekað upp á kantinn, þrátt fyrir aðvaranir, sem þannig olli tjóninu.

Jóhann sagði við Eyjuna að þetta væru allt „helvítis fantar“, hann hefði reynt að miðla málum en aðeins mætt dónaskap:

„Ég skrifaði bréf til Ármanns bæjarstjóra, en hann svaraði mér ekki einu sinni. Ég þurfti því bara að tala við lögfræðingana hjá þeim. En þessar skemmdir hafa valdið slysum, en enginn vill taka ábyrgð. Þetta eru bara helvítis fantar. Það þýðir ekkert að tala við þá, en ég er ekki hættur ég vona að þetta leysist,“

sagði Jóhann við Eyjuna.

Greinin hvarf af mbl.is

Jóhann skrifar grein um málið í Morgunblaðið í dag. Í samtali við Eyjuna sagðist hann hafa séð greinina ofarlega á forsíðunni á netinu í morgun, en skyndilega hafi hún horfið þaðan:

„Það er eins og henni hafi verið kippt út snögglega. Kannski einhverjum af málsaðilunum hafi ekki líkað hún og hringt í Moggann. Ég hef auðvitað ekkert fyrir mér í því, en mér fannst þetta undarlegt,“

sagði Jóhann og gaf í skyn að sjálfstæðismenn í Kópavogi hefðu kippt í spotta í Hádegismóum.

Greinina er ekki að finna á vef mbl.is þegar þessi fréttin er skrifuð.

Bílstjórinn skildi ekkert

Jóhann segir í grein sinni að erfiðlega hafi gengið að koma erlendum bílstjóra í skilning um að þyngd bílsins frá gámafélaginu ylli skemmdum:

„Íbúar hafa ítrekað kvartað við bílstjóra, það hefur hins vegar ekki heldur gengið vegna tungumálaerfiðleika vegna þess að þeir skilja ekki móðurmálið okkar. Fyrir utan merkingar sem eru ekki einu sinni virtar af þeim sjálfum frekar en af fulltrúum meirihluta Kópavogsbæjar, þar á meðal bæjarstjóranum sjálfum, sem stærir sig síðan af lífsgæðum og blómaskreytingum og baðar sig í fjölmiðlum en gleymir um leið skuldasöfnun sem hann hefur sett bæjarfélagið í. Það er í lagi, Ármann Kr. Ólafsson og Birkir Jón Jónsson.“

Minnir á einræðistilburði

Segir Jóhann að málsaðilar standi í hótunum og hafi gerst sekir um  fantaskap og einræðistilburði:

„Slík er framkoma og virðingarleysi þeirra sem hafa valdið umræddu tjóni; þeir reyna nú ítrekað að koma sér undan tjóninu og koma því síðan yfir á íbúa sem eiga ekki þátt í því. Minnir á einræðistilburði á erlendri grundu þar sem það þekkist vel að reyna með öllum mætti að bæla niður skoðanir fólks og hræða fólkið sem vill leita réttar síns samkvæmt landslögum frá því að leita til dómstóla. Þrátt fyrir langar og ítrekaðar bréfaskriftir til að ná samkomulagi við þessa aðila sem ég hef nefnt hér að ofan hefur það ekki enn tekist.“

Jóhann segir að TM hafi boðið 50% af umræddu tjóni til greiðslu, sem renna átti til eldra fólks sem ekki átti í önnur hús að venda:

„Slíkur var fantaskapurinn hjá forstöðumanni TM, sem kunni ekki einu sinni að reikna nema til að hlunnfara gamla fólkið og koma allri ábyrgð á íbúa! Þvílíkir snillingar. Þetta hlýtur að vera einsdæmi í framkomu fyrir utan fantabrögð sem þessi fulltrúi tryggingafélagsins beitir á fólk á eftirlaunum.“

Fantarnir bera ábyrgð

Jóhann segir þó ljóst að það sé Kópavogsbær sem beri ábyrgð á málinu, hann sé bótaskyldur þar sem hann hafi valið verktakana og gert samning við gámafélagið. Hinsvegar sitji húsfélagið í Blásölum uppi með tjónið:

„Það er lítill munur á bæjarstjóra Kópavogsbæjar, sem sendi mál íbúa til lögmannsstofu á vegum Kópavogsbæjar, TM sem kallar sig tryggingafélag og Íslenska gámafélaginu þar sem þessir aðilar hafa ítrekað reynt að koma sér undan skyldum sínum. Það er ömurlegt til þess að vita að fólk á eftirlaunum í bæjarfélagi bæjarstjórans þurfi að leita réttar síns á lögmannsstofu til þess eins að ná sínum rétti fram. Slíkur er yfirgangurinn hjá föntum af verstu gerð í mannlegum samskiptum.“

Dýrt spaug

Jóhann segist heldur ekki vilja hlífa fulltrúa gámafélagsins, þar sem hann hafi gefið skýrsluna um að gamla fólkið sök á málinu og ætti því að greiða helming tjónsins:

„Dólgurinn gat ekki einu sinni sagt rétt frá en hann gat hins vegar gefið upp nafn á umræddum bílstjóra til að firra sig ábyrgð á umræddu tjóni. Auðvitað stóð ekki á því að TM verði Íslenska gámafélagið til að ná sér niðri á þeim sem eru lítið fyrir að brúka kjaft. Það er auðséð að þeim aðilum sem hér um ræðir mun bregða þegar reikningur birtist. Það verður þeim dýrt spaug þegar upp er staðið, þegar lögmannskostnaður leggst ofan á allt málið sjálft.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hallgrímur vandar Katrínu ekki kveðjurnar- „Er einhver munur á VG og XD?“

Hallgrímur vandar Katrínu ekki kveðjurnar- „Er einhver munur á VG og XD?“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“