Fimmtudagur 23.janúar 2020
Eyjan

Listamannalaun séníanna Dags, Steinars og Alfreðs Flóka – og skelfilegur alkóhólismi

Egill Helgason
Þriðjudaginn 9. október 2018 23:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar við Bragi Kristjónsson áttum spjall okkar í Kiljunni bar þrjá menn oft á góma. Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka og Steinar Sigurjónsson. Bragi þekkti þá alla vel og kunni að segja margar sögur af þeim. Margar voru gamansamar – en dapur þráður í sumum þeirra.

Nú er Ólafur Gunnarsson rithöfundur búinn að setja saman bók um þá þremenningana sem nefnist Listamannalaun. Ólafur var vinur þeirra allra, en það er ekki þar með sagt að þeir hafi endilega verið góðir vinir innbyrðis þessir þrír. Þeir voru allir stórir persónuleikar sem var ekkert um það gefið að einhver skyggði á þá.

Allir höfðu það orð á sér að vera séní – kannski var það þeim frekar til trafala þegar á leið. Bók Ólafs lýsir alls kyns raunum sem flestar tengjast taumlausri áfengisneyslu – Dagur, Flóki og Steinar dóu allir fyrir aldur fram, það er varla hægt að segja annað en að banameinið hafi verið alkólhólismi. Flóki dó 1987, Steinar 1992, Dagur 1994.

Sjálfur þekkti ég tvo þeirra, Dag og Steinar, Flóka hitti ég aldrei. Þeir spretta ljóslifandi af síðum bókarinnar. Ég hlæ upphátt af töffarastælunum og mannalátunum í Degi, þekki tilsvörin, en eins og kemur fram í bókinni sýndi hann líka oft á sér mjög viðkvæmar hliðar. Skapsveiflunum og oflætinu í Steinari – hann var ekki auðveldur maður en knúinn áfram af ótrúlegri þörf til að skrifa.

Ég ferðaðist um Írland sem ungur maður, en þess er getið í bókinni að Steinar hafi fari í Írlandsferð. Það get ég staðfest, því Steinar var nokkrum vikum á undan mér á vesturströnd Írlands og sums staðar hafði ég spurnir af þessum furðulega – og fulla –Íslendingi. Ein sagan sem ég heyrði var að íbúar Araneyja hefðu sett Steinar í bát um nótt, áfengisdauðan, og ýtt frá. Þeir vissu sem var að bátinn myndi reka upp á land.

Þetta er skemmtileg bók – en um leið afar sorgleg. Allir lifðu þeir í þeirri sjálfsblekkingu að séní þyrftu á einhvern hátt að tortíma sjálfum sér. Afleiðingin var í raun sú að verkin sem þeir unnu voru aldrei jafngóð og hefði mátt vænta – um síðir var það víman sem tók völdin og rændi þá vitinu og lífinu.

Maður les bók Ólafs, þá er Steinar mættur til hans í Danmörku um jól, og maður hugsar – nei, strákar, sleppið því nú að drekka. Ekki kaupa vín. En nei, það er farið út í búð og byrjað á rauðvíni – afleiðingin er deleríum tremens fáum vikum síðar á gistiheimili.

Ólafur sjálfur lifði af. Hann hafði ekki innri djöfla á við sénin þrjú. Nú eru þeir farnir að færast aftur í mistur sögunnar og okkur finnst merkilegt að heyra um þá og kynslóð þeirra. Sjálfur er ég stoltur af skrásetningunni sem fór fram í samtölum mínum við Braga, þar er að finna heilmikla bókmenntasögu. Bók Ólafs heitir Listamannalaun, eins og áður segir. Það er margræður titill, en þó má geta þess að hvenær sem þeir Dagur eða Steinar fengu skáldastyrk var honum eytt á svipstundu og þá var oft mikil veisla.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hitamálið Hálendisþjóðgarður – gæti orðið ríkisstjórninni mjög erfitt

Hitamálið Hálendisþjóðgarður – gæti orðið ríkisstjórninni mjög erfitt
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurjón líkir Bjarna Ben við „gangster“ – „Einhverra hluta vegna kemst hann upp með allan fjárann“

Sigurjón líkir Bjarna Ben við „gangster“ – „Einhverra hluta vegna kemst hann upp með allan fjárann“