Sveitarstjórn Reykhólahrepps á Vestfjörðum hefur nú til skoðunar svokallaða R-leið, sem er hugsuð í staðinn fyrir hinn umdeilda veg um Teigskóg, eða Þ-H leiðina. R-leiðin er tillaga frá norsku verkfræðistofunni Multiconsult. Hún sneiðir hjá Teigskógi en liggur um Reykhólasveitina.
Nýja R-leiðin hefur þó einnig verið gagnrýnd af íbúum Reykhólahrepps, meðal annars í bréfi sem stílað er á sveitarstjórnina.
Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri Vestfjarða og fyrrum alþingismaður, greinir frá því á síðu sinni að sveitastjórinn í Reykhólahreppi, Ingimar Ingimarsson, vilji ekki að fjölmiðlar fjalli um þá gagnrýni sem íbúar hreppsins hafa sett fram á fyrirhugaða vegaframkvæmd.
Vísar Kristinn í viðmót Ingimars þegar óskað var gagna um málið, en samkvæmt sveitastjóranum verða þeir sem óska gagna að fylla út þar til gert eyðublað á staðnum, svo hægt sé að verða við fyrirspurn viðkomandi. Var það sveitastjórinn sjálfur sem setti þær vinnureglur:
„Við höfum fulla heimild til þess að krefjast þess að fyllt sé út eyðublöð til þess að fá gögn skv. 15. gr. upplýsingalaga. Þessi framkvæmd felur ekki í sér neina neitun á afhendingu gagna, enda er farið yfir umsóknir og gögnin afhend ef við getum,“
hefur Kristinn eftir Ingimari og staðfestir Ingimar að hann hafi ákveðið verklagið sjálfur, með vitneskju sveitarstjórnarinnar.
Kristinn segist hafa bent sveitastjóranum á að fjölmiðlar muni tæplega senda mann út á land til slíkrar gjörðar einnar og því jafngilti slík afgreiðsla neitun á afhendingu gagna. Því svaraði Ingimar:
„Ef fjölmiðlar vilja ekki senda fólk til okkar á skrifstofuna, þá er það ekki okkar mál.“
Um tilburði Ingimars segir Kristinn:
„Greinilegt er að R leiðinni fylgja vankantar sem starfandi sveitarstjóri vill ekki að fjölmiðlar fjalli um.“
Hin torsóttu gögn sem sveitastjórinn heldur verndarhendi sinni yfir er til dæmis bréf frá íbúum hreppsins, stílað á sveitarstjórnina, sem Eyjan birtir hér að neðan.
Þar kemur fram að R-leiðin kljúfi í sundur sex jarðir hvar stundaður sé búskapur sem með tilheyrandi umferð geri nýtingu landsins erfiða. Auk þess sé þar friðlýst æðavarp og að landsvæðið hafi ekki minna verndunargildi en Teigskógaleiðin:
„Vegna þeirrar nýju hugmyndar um þverun Þorskafjarðar og veg um Reykjanes, í stað Þ.H. leiðar viljum við koma eftirfarandi á framfæri. Þessi vegur klífur í sundur land
6. jarða sem stundaður er búskapur á. Slíkur vegur með mikilli umferð gerir alla nýtingu erfiða og spillir mjög gildum jarðanna.
Varðandi jarðirnar Stað og Árbæ kemur vegurinn yfir ósnortið land, varphólma með miklu friðlýstu æðavarpi, vog og tjarnir með fjölskrúðugu fuglalífi.
Að margra mati hefur svona landssvæði ekki minna verndargildi heldur en margumtöluð Þ.H. leið.“
Vegagerðin mælti sjálf með T-H leiðinni um Teigsskóg, sem kallaði á að Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður yrðu þveraðir. Sú leið er styst og ódýrust. Hinsvegar er Teigskógur verndaður af náttúruverndarlögum og þverun þriggja fjarða er sögð hafa ákveðna óvissuþætti varðandi lífríkið í för með sér.
Því var lögð til önnur leið, D2 leiðin, sem Skipulagsstofnun, Umhverfisstofa og Landvernd mæltu með. Sú leið þverar aðeins Gufufjörð, sleppir Teigsskógi, en krefst jarðgangagerðar og töluvert meiri kostnaðar. Sá kostnaður var lækkaður nokkuð í nýrri tillögu fyrir D2 leiðina, af Multiconsult verkfræðistofunni í Noregi, en í þeirri tillögu styttast göngin um 1.5 kílómetra og kostnaðurinn lækkar eftir því.
Nýja R-leiðin þverar vestanverðan Þorskafjörð og liggur út fyrir Reykjanesið, um núverandi Reykhólaveg. Þar er gert fyrir 800 metra brú yfir fjarðarmynni Þorskafjarðar.
Samkvæmt skýrslu Multiconsult kostar R-leiðin 6.9 milljarða, T-H leiðin 6,6 milljarða og D2 leiðin 9.2 milljarða.