fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Eyjan

Áfallastreituröskun tengd auknum líkum á sjálfsónæmissjúkdómum

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. júní 2018 15:00

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, Mynd-Vísindavefurinn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ný rannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi sýnir að fólk sem glímt hefur við áfallastreituröskun er í aukinni áhættu á að greinast síðar með sjálfsónæmissjúkdóma. Niðurstöður rannsóknarinnar birtast í dag í hinu virta vísindatímariti ameríska læknafélagsins, Journal of the American Medical Association (JAMA).

Rannsóknin byggist á sænskum heilsufarsgagnagrunnum en á rannsóknartímabilinu, sem spannaði yfir 30 ár, voru yfir 100 þúsund einstaklingar greindir með áfallastreituröskun eða aðrar raskanir tengdum áföllum eða þungbærri lífsreynslu. Áhætta þessara einstaklinga á að greinast síðar með sjálfsónæmissjúkdóma var borin saman við alsystkini þeirra og óskylda einstaklinga af sama aldri og kyni.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einstaklingar með áfallastreitu- eða aðrar tengdar raskanir voru að meðaltali 30-40% líklegri til þess að greinast síðar með einhvern af þeim 41 sjálfsónæmissjúkdómum sem rannsakaðir voru, þar á meðal sykursýki af tegund 1, lúpus, MS-, Addisson- og Crohns-sjúkdóm. Að auki kom í ljós að áhættan á sjálfsónæmissjúkdómum virtist meiri því yngri sem einstaklingarnir voru við greiningu á áfallatengdum röskunum.

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Huan Song, nýdoktor við sömu deild, fara fyrir rannsókninni sem greint er frá í JAMA. Þær segja niðurstöðurnar mikilvægan áfanga í að auka þekkingu á áhrifum áfalla og áfallastreitu á þróun sjálfsónæmissjúkdóma.

„Við vitum frá fyrri rannsóknum að mikil streita getur raskað ónæmiskerfi okkar en þetta er í fyrsta sinn sem sýnt er fram á tengsl áfallastreitu- og tengdra raskana við áhættu á sjálfsónæmissjúkdómum í stóru almennu þýði fólks. Fyrri rannsóknir á þessu sviði byggjast flestar á athugunum á bandarískum hermönnum, s.s. aðallega karlmönnum með ákveðnar tegundir áfalla að baki. Þær höfðu einnig ýmsa aðferðafræðilega annmarka sem við höfðum tök á að komast hjá í þessari greiningu okkar. Við þurfum hins vegar frekari rannsóknir á þessu efni og er stóra rannsóknin okkar hér á landi, Áfallasaga kvenna, mikilvægur liður í því samhengi,“

segir Unnur.

Kynningarfundur um niðurstöður rannsóknarinnar verður haldin í Tjarnarsal Íslenskrar erfðagreiningar föstudaginn 22. júní kl. 12.00.

Tengill á rannsóknina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar