fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Segir Ísland hluta af framtíð Bretlands

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 18. júní 2018 09:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, skrifar grein í Morgunblaðið í dag með yfirskriftinni „Ísland er hluti af framtíð Bretlands“. Þar fer hann yfir það sem sameinar löndin tvö, svo sem enska boltann og HM í knattspyrnu, en svo virðist sem að Nevin sé áhugasamur um samstarf við yfirvöld og KSÍ um byggingu nýs Laugardalsvallar:

„Á miðvikudaginn síðasta hélt breska sendiráðið í Reykjavík upp á afmælisdag Elísabetar drottningar sem er 92 ára og enn í fullu fjöri. Að þessu sinni fóru hátíðahöldin fram á Laugardalsvelli af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi eru bæði Englendingar og Íslendingar með fótboltafár yfir heimsmeistaramótinu og því viðeigandi að við tökum þátt í þessum sögulega viðburði með því að hafa þessi hátíðahöld á þjóðarleikvangi Íslendinga korter í heimsmeistaramót og ekki síður vegna tengsla og áhuga Íslendinga á ensku úrvalsdeildinni. Einnig er verið að tala um að endurbyggja Laugardalsvöll. Ef það er framkvæmt af metnaði og vilja er þetta tækifæri til að bregðast við eftirspurn eftir fjölþættri nútíma aðstöðu, sem getur sameinað íþróttir, tónlist, skemmtun, viðskipti og vekur áhuga íbúa á svæðinu. Bretland er leiðandi í heiminum hvað varðar sérþekkingu á sviði hönnunar og hefur að geyma mörg fyrirtæki sem hafa hannað og byggt leikvanga fyrir úrvalsdeildina, í Evrópu og um allan heim. Við getum boðið upp á skapandi möguleika og hlökkum til að leggja okkar af mörkum í þessu opna ferli.“

Þá segir Nevin að þó svo Bretar séu að ganga úr ESB, séu þeir enn í Evrópu og að rökrétt sé að halda áfram samstarfi við Ísland:

„Bretar ganga brátt úr Evrópusambandinu en ekki úr Evrópu. Það er Bretlandi og ESB í hag, sem nágrönnum og bandamönnum, að náið samstarf haldi áfram. Það er rökrétt fyrir Bretland og ESB að samþykkja fordæmislaust náið og sérstakt samband. Við viljum ekki að fyrirtæki innan ESB verði fyrir hindrunum í viðskiptum við Bretland – enga nýja tolla né takmarkanir. Einnig viljum við ekki að rannsókna- eða öryggissamstarf verði fyrir hindrunum. Ekki heldur viljum við að nám eða heimsóknir á milli Bretlands og ESB verði fyrir hindrunum. Við hvetjum ESB til að vera skapandi og djarft í að ná samkomulagi í þágu borgara sinna og fyrirtækja. Samhliða munum við kynna Bretland á alþjóðavettvangi, og halda áfram að setja Bretland í miðju heimsmála, sem leiðandi í alþjóðlegri fríverslun og kanna náið samstarf við vaxtarmarkaði í heiminum til framtíðarinnar,“

segir Nevin og telur upp ýmislegt sem hann segir að sameini þjóðirnar. Á þeim lista eru loftslagsmál og öryggismál ofarlega:

„Við vinnum náið með Íslandi og það mætti segja að við deilum DNA – líkamlega, menningarlega, málvísindalega (að vissu marki!). Við erum með sama hugarfar í sambandi við frjáls viðskipti, sjálfbærni í umhverfismálum og mikilvægi alþjóðlegra reglubundinna kerfa. Við vinnum saman á alþjóðavettvangi og áhrif loftslagsbreytinga í hafinu okkar og á norðurslóðum eru af svipuðum toga. Við lærum af ykkur og þið lærið af okkur. Þið hjálpið að tryggja öryggi okkar í Norður-Atlantshafinu, á meðan þið styðjið líka við öryggi norrænna nágranna og annarra. Og við hjálpum að tryggja öryggi ykkar, þar á meðal með því að taka þátt í loftrýmisgæslu yfir Íslandi frá næsta ári.“

Nevin segir Ísland mikilvægt fyrir Bretland þegar kemur að sjávarútvegi, menningu og ferðamennsku:

„Þið eruð mikilvæg þegar kemur að framboði sjávarfangs í Bretlandi, sem hjálpar til við að halda uppi yfir 5.000 störfum á Humber-svæðinu einu saman. Íslensk fyrirtæki fjárfesta í Bretlandi – við tökum á móti enn fleirum núna þegar við tökum á móti fjárfestingum lífeyrissjóða. Samband ykkar á bæði fræði- og rannsóknarsviði við breska háskóla er sterkt og sumir knattspyrnumannanna ykkar lífga upp á úrvalsdeildina. Þið heimsækið Bretland í stórum stíl og oft eruð þið í topp 50 hvað varðar eyðslu á mann. Tónlistin ykkar, kvikmyndir og bókmenntir hafa jákvæð áhrif á menningarlíf Bretlands, eins og Ófærð og íslenskar glæpasögur. Viðskipti voru 1,6 milljarðar sterlingspunda á síðasta ári og þrjú hundruð og tuttugu þúsund breskir gestir komu til Íslands. Fyrsta beina flugið til Akureyrar var frá Bretlandi, á þessu ári, og þar með urðu flugvellirnir fleiri en 10 í Bretlandi sem bjóða upp á flug til Íslands. Nýjasta herferðin okkar til að hvetja Breta til að vera ábyrgir á ferðalagi og fylgja íslenskri leiðsögn notar frábærar myndir eftir Brian Pilkington, sem hvað þekktastur er fyrir trölla- og jólasveinamyndirnar sínar. Við erum að vinna mjög vel með íslenskum stjórnvöldum um fyrirkomulag eftir Brexit og það er mjög mikil þátttaka hjá ráðherrum og opinberum embættismönnum sem og þingmönnum. Ljóst er að við erum sammála um að vilja halda áfram viðskiptasambandi okkar og þar að auki erum við nálægt því að ná samkomulagi um að gera íslenskum borgurum sem búa í Bretlandi og breskum borgurum sem búa á Íslandi kleift að halda því áfram eftir Brexit. En einnig höfum við bæði metnað til að fara enn lengra, til að nýta tækifærin fyrir enn dýnamískara og umfangsmeira samband. Á þessu ári ætlum við að samþykkja sameiginlega framtíðarsýn sem mun auka samstarf okkar á öllum sviðum. Ísland er svo sannarlega hluti af framtíð Bretlands.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum