fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Vinstri flokkarnir, sósíalistarnir og húsþrælarnir

Egill Helgason
Laugardaginn 2. júní 2018 10:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Húsþrælslíkingin sem sósíalistar notuðu til að frábiðja sér samstarf við aðra flokka í borgarstjórn er nokkuð athyglisverð. Hún kemur úr einni af ræðum Malcholms X sem var mjög herskár leiðtogi blökkumanna í Bandaríkjunum. Malcholm X beindi ræðunni að Martin Luther King – öðrum leiðtoga blökkumanna sem vildi nota friðsamar aðferðir í baráttu sinni. Í huga Malcholms var hegðaði King sér eins og „húsnegri“, það er orðið sem hann notaði.

Þessi líking kom fyrir í grein eftir Gunnar Smára Egilsson sem birtist í Fréttatímanum fyrir nokkrum árum og hún stingur aftur upp kollinum í grein Sönnu Magðalenu Mörtudóttur þar sem hún hafnar algjörlega að eiga samstarf við aðra flokka í borgarstjórninni – og notar mjög sterk orð.

En svo mætti nota aðrar líkingar, sem eru kannski nærtækari þegar sósíalisminn er annars vegar.. Til dæmis úr rússnesku byltingunni. Sósíalistar í Rússlandi í upphafi 20. aldar klofnuðu annars vegar í mensévíka og hins vegar bolsévíka. Mensévíkar voru fjölmennari, vildu vinna með öðrum stjórnmálaöflum og réðu ferðinni framan af – bolsévíkar vildu hins vegar halda árunni hreinni og vera hin óspjallaða framvarðasveit byltingarinnar. Með einstrengingshætti sínum og fanatík náðu bolsévíkar loks völdum eins og þekkt er, hernaðarlist þeirra virkaði.

Svo er spurningin hvað þetta á vel við í hinni smáu höfuðborg við nyrsta haf? Það verður að segjast eins og er að Reykjavík er býsna sósíalískur staður. Stig samneyslunnar í borginni er mjög hátt og sömuleiðis skattarnir. Í umræðunum fyrir kosningarnar vildu flestallir flokkarnir enn bæta í. Það var rætt um ókeypis skólamáltíðir, leikskóla fyrr enn fleiri og yngri börn og meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn var farinn að tala um skort á leiguhúsnæði.

En við getum séð í reikningum borgarinnar í hvað fjármunirnir fara. Þetta eru stærstu liðirnir síðustu þrjú árin.

 

 

Hér er nokkuð áhugaverð grein eftir Árna Daníel Júlíusson sem er nú efst á vef Sósíalistaflokksins. Þar finnur hann vinstri flokkunum í borgarstjórn allt til foráttu. Hann talar þar um „nýfrjálshyggjuvæðingu“ vinstri flokkanna og gerir DAG (með hástöfum) að tákni fyrir hana.

DAGUR er tímaskekkja, misskilningur sem hefur orðið til fyrir tilviljun og hefur ekkert að gera með vinstri stefnu.

Árni Daníel talar svo um hipster-kúltúrinn sem hafi verið ráðandi, blandast við sjálfsmyndarstjórnmál og réttindabaráttu sem hafi verið á öfugum forsendum.

Reykjavíkurlistinn var í rauninni nýfrjálshyggjuvæðing vinstri flokkanna. Sú nýfrjálshyggjuvæðing gerðist undir fánum „sjálfsmyndarstjórnmála“ þar sem ákveðin tegund af kvenfrelsisstefnu lék stórt hlutverk. Frelsishreyfingar kvenna, homma og lesbía og annarra kynferðis- og kynþáttaminnihluta fengu að leika lausum hala á forsendum nýfrjálshyggjunnar, nánar tiltekið þeirrar útgáfu sem kallast Washington Consensus og felst í alþjóðavæðingu, einkavæðingu og fjármálavæðingu undir stjórn Bandaríkjanna, AGS og Alþjóðabankans. Einnig Evrópusambandsins. Hugmyndin var svo að ganga í Evrópusambandið og náði sú hugmynd svo langt að „vinstri“ stjórnin svokallaða 2009-2013 leit á það sem hlutverk sitt að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu í miðju hruni. Það var vægast sagt afar óviðeigandi, hefur mér alltaf fundist.

Við hlið „sjálfsmyndarstjórnmála“ varð hipster-kúltúrinn mikilvægur þáttur í áframhaldandi tilvist þessa fyrirbæris, Reykjavíkurlistans-Besta flokksins-DAGS. Iceland Airwaves, Björk, Sigur Rós, Kex hostel, Harpa voru birtingarmyndir þessarar hliðar hinnar ofursvölu Reykjavíkur. Þessi þáttur bættist við og endurnýjaði upphaflega bandalagið milli nýfrjálshyggjunnar og sjálfsmyndarhreyfinganna. Hipsterar eru besta fólk í sjálfu sér og ekkert að því að búa til góða tónlist, þannig séð.

Miðað við þetta gæti orðið ansi langt þangað til sósíalistar fari að vinna með öðrum flokkum og kannski spurning hvort hinir vilji vinna með sósíalistunum. Líklegt er miðað við fjölda borgarfulltrúa og skipan í nefndir og ráð að borgarfulltrúi þeirra verði frekar einangraður – ekki nema aðrir flokkar vilji hjálpa sósíalistum til að komast að með samfloti í nefndarkosningum – sem er kannski ekki að fara að gerast. Eitt sæti í borgarstjórnarfundum í Reykjavík er sigur fyrir flokkinn, en í sjálfu sér ekki sterkur stökkpallur inn í stjórnmálin. En þeim hefur vissulega tekist að ná athyglinni síðustu vikurnar, þeir hafa ákveðna strategíu í verkalýðshreyfingunni og það er ákveðið rými fyrir þá nú þegar VG er í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður