fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Eigi víkja, Vestfirðingar

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 25. maí 2018 20:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn H. Gunnarsson ritar:

Vestfirðingum er nóg boðið. Síðastliðið haust var haldinn fjölmennur borgarafundur á Ísafirði til þess að sýna ráðamönnum landsins að þolinmæðin gagnvart ríkisvaldinu væri á þrotum. Í öllum helstu hagsmunamálum fjórðungsins ríkir af hálfu stjórnvalda afskiptaleysi, sleifarlag og jafnvel beinn fjandskapur. Svo vildi til alþingiskosningar voru í haust og af þeim sökum var hlustað grannt eftir svörum stjórnmálamanna. Í stuttu máli voru þau á þann veg að flestir vildu gera allt fyrir Vestfirðinga og ef ekki strax þá á morgun.

Þrjár kröfur

Kröfur Vestfirðinga voru þá og eru enn þessar: vegur í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), hringtenging rafmagns um Ísafjarðardjúp og laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi.

Nú eru liðnir átta mánuðir frá borgarafundinum og ekkert hefur þokast áleiðis í neinu af þessum málum. Þess vegna var efnt til samstöðufundar á mánudaginn á Gilsfjarðarbrú, þar sem gamla Vestfjarðakjördæmi hófst, kröfurnar ítrekaðar og kallað eftir efndum. Jóhann Ólafsson, einn forsvarsmanna heimavarnarliðsins, sjálfsprottins hóps Vestfirðinga, sem stóð að fundinum, lýsti kröfunum á einfaldan hátt: Vestfirðingar vilja sömu aðstæður, sömu tækifæri og fá það sama frá stjórnvöldum og aðrir landsmenn fá. Þetta eru einfaldar, skýrar og sanngjarnar kröfur. Við erum hluti af þjóðfélaginu, við leggjum til þess það sama og aðrir og við viljum búa við samgöngur, raforkuöryggi og tækifæri til starfs og tómstunda rétt eins og aðrir. Vestfirðingar sætta sig ekki við að vera jaðarsettur hópur í þjóðfélaginu sem eigi helst að hunskast til að flytja suður og að öðrum kosti una vist upp á vatn og brauð. Gegn þessu ofríki og ósanngirni eru Vestfirðingar að rísa upp, svo gott sem einn maður. Það þýðir ekkert fyrir stjórnvöld eða einstaka stjórnmálaflokka að tala tungum tveim og sitt með hvorri. Nú er kallað á efndir. Ríkisstjórnarflokkarnir eru með völdin í sínum höndum. Þeir hafa enga afsökun fyrir því að draga lappirnar. Uppreisnin á Vestfjörðum mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir stjórnmálaflokkana sem bregðast Vestfirðingum. Um allt þjóðfélagið er fylgst með baráttu Vestfirðinga fyrir jafnræði og sanngirni. Hún nær til annarra landshluta og ýmissa þjóðfélagshópa sem hafa verið settir til hliðar á undanförnum árum. Krafan um réttlátt þjóðfélag á sterkan hljómgrunn um allt þjóðfélagið.

 

 

Vestfirðir fyrst

Vestfirðingar hafa komið sér saman og fáar og skýrar áherslur. Krafan er að flokkarnir svari þeim rétt eins og þeir hafa ítrekað lofað. Nú er svo komið málum að ef flokkarnir bregðast enn verður þeim hent eins og hverjum öðrum maðksmognum fúaspýtum á bálið, sem þeir sjálfir kveikja með vanefndum sínum.

Stjórnmálaflokkar eru grunneining í lýðræðislegu þjóðfélagi. En þegar þeir eru orðnir að kúgunartæki eða umbera kúgun annarra á einstökum þjóðfélagshópum er þeirra tími liðinn og nýir flokkar verða stofnaðir í þeirra stað. Flokkarnir eru tæki til þess að skapa réttlátt þjóðfélag, þeir eru ekki þjóðfélagið sjálft.  Vestfirðingar er að komast á þann stað, hver og einn,  að missa trúna og traustið á flokknum sínum af þeirri augljósu ástæðu að réttmætar óskir Vestfirðinga eru árum saman fótum troðnar og lítilsvirtar.

Sjónarspil

Tvisvar hafa þingmenn kjördæmisins lagt fram lagafrumvarp til þess að ljúka stofnanaofbeldinu varðandi veg um Gufudalssveit. Það hefur ekki verið meiri alvara á bak við málflutninginn en það að í hvorugt skiptið hefur frumvarpið verið rætt hvað þá tekið til alvarlegrar þinglegrar meðferðar og afgreiðslu. Halda alþingismenn kjördæmisins í alvörunni að Vestfirðingar sjái ekki í gegnum þetta sjónarspil? Það er verið að friða órólega kjósendur með því að kasta fram frumvarpi en síðan gerist ekkert.  Hvað á svona háttalag að þýða? Fyrst Alþingi samþykkir svo óljós lög um umhverfismál að einstakar stofnanir eins og Skipulagsstofnun fá frítt spil til þess að teygja og toga lagaákvæðin að eigin vild þá verður þingið að hysja upp um sig og gefa með lögum skýr fyrirmæli til embættismanna að fara eftir.

Stöðvun laxeldis á Vestfjörðum með svokölluðu áhættumati Hafrannsóknarstofnunar er annað sjónarspilið sem Vestfirðingar eru löngu búnir að sjá í gegnum. Það eru allar líffræðilegar aðstæður til þess að hefja laxeldið og allar efnahagslegar forsendur mæla með atvinnuuppbyggingu í þeirri grein sem gefa milljarðatuga króna útflutningsverðmætum á hverju ári. Sem samt yrði aðeins brotabrot af framleiðslu Norðmanna. En áfram fá einstakir sérhagsmunahópar að ráða ferð með samþykki stjórnmálamanna. Skaði þjóðfélagsins er mikill og skaði Vestfirðinga er tilfinnanlegastur.

Hvalárvirkjun er versta dæmið. Það mál er tvisvar búið að fá samþykki Alþingis í gegnum rammaáætlun. Ágreiningur hefur enginn verið og aðeins neikvæð umsögn frá Landvernd sem lítill þungi hefur verið í. En þegar nálgast framkvæmdastig umhverfast einstakir hópar og engu líkara er en að land og þjóð sé að farast. Tveir stjórnarflokkar standa þögulir hjá og láta þann þriðja  hamast gegn málinu. Þetta gengur ekki. Krafa Vestfirðinga til stjórnvalda er þessi: Standið með rammaáætlun og tryggið framgang virkjunarinnar. Ástand raforkuframleiðslu og flutnings er verst á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun er lykillinn að úrbótum.

Skilaboð Vestfirðinga til stjórnvalda er að ykkar stundaglas er að tæmast. Komið ykkur að verki.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr