
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur ráðið Hildi Sverrisdóttur sem aðstoðarmann sinn. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Hún hefur störf undir lok þessa mánaðar. Þórdís Kolbrún mun þar með hafa tvo aðstoðarmenn en fyrir er Ólafur Teitur Guðnason.
Hildur er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkjurkjördæmi suður. Á síðasta kjörtímabili var hún þingmaður fyrir flokkinn og þar áður borgarfulltrúi.
Hildur er fædd árið 1978. Hún er með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lögmannsréttindi. Hún hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365 og sem framkvæmdastjóri V-dags gegn kynferðisbrotum. Hildur skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið og ritstýrði jafnframt bókinni Fantasíur.