Haraldur Benediktsson skrifar:
Boðað hefur verið til Alþingiskosninga þann 28.október nk. Fram undan er stutt og snörp kosningabarátta. Langan tíma tók að koma saman þeirri ríkisstjórn sem nú fer frá. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, að eftir síðustu kosningar gátu sumir flokkar ekki axlað þá ábyrgð eða voru svo illa haldnir af innanmeinum að fáir vildu með þeim starfa.
Engin efast um að það stjórnarsamstarf hafi fyrst og fremst verið reist á þeirri skyldu sem alþingismenn eiga að standa undir. Hún er að hér starfi ríkisstjórn. Eftir síðustu kosningar var þetta eini meirihlutinn sem tókst að mynda.
Íslandsmet í ábyrgðarleysi
Því er mikill ábyrgðarhluti að slíta ríkisstjórn og skapa slíka óvissu sem Viðreisn og Björt framtíð hafa gert með brotthlaupi sínu. Ábyrgðarleysi þeirra skapar samfélaginu mikið tjón.
Það hlýtur að hafa verið Íslandsmet í ábyrgðarleysi að taka ekki eitt samtal við samstarfsflokk sinn og í það minnsta skýra hvers vegna hlaupið væri frá borði. Fjölmargar eftiráskýringar hafa seinna komið fram. Þær staðfesta einfaldlega hve ábyrgðarlaust fólk var þegar þau stukku út í skjóli nætur. Fyrst Björt framtíð. Síðan þegar Viðreisn boðar til fundar eftir miðnætti og ákveður síðan undir morgun að reyna að hlaupa hraðar frá ábyrgð sinni en Björt framtíð. Það getur varla verið mikið jafnvægi og festa í slíkum flokkum.
Nýr meirihluti og gönuhlaup
Viðreisn kallaði eftir rannsókn á samskiptum dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.
Viðreisn gekk svo langt að mynda nýjan meirihluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og felldi formann hennar. Þá mátti loksins notast við Framsóknarflokkinn sem gekk viljugur til verksins. Það var athyglisvert framtak Framsóknarmanna.
Fulltrúi Viðreisnar stýrði opnum fundi með dómsmálaráðherra sem greiðlega svaraði fyrir embættisverk sín. Á þeim fundi kallaði Björt framtíð eftir rannsókn á allri íslensku stjórnsýslunni. Hinum nýja formanni kom ekki til hugar að beita sér fyrir að hafa fund með umboðsmanni Alþingis opinn – sem sannarlega var þó þörf á. Umboðsmaður hrakti þar greiðlega þann málflutning að hér væri um trúnaðarbrot að ræða.
Á þeirri stundu voru stjórnarslitin afhjúpuð sem mesta gönuhlaup í íslenskri stjórnmálasögu.
Góð staða
Okkur gengur flest í haginn í efnahagsmálum. Hagvöxtur er verulegur. Aukinn kaupmáttur og stöðugt verðlag. Lág verðbólga og lækkandi fjármagnskostnaður. Verulega hefur verið aukið við framlög til velferðarmála, heilbrigðis og almannatrygginga.
Verkefni við stjórn efnahagsmála hafa helst verið að lækka hratt sameiginlegar skuldir okkar og halda aftur af þenslu. Þær fjárhæðir lækka sem ríkissjóður þarf til að greiða árlega vaxtakostnað. Það er mikilvægt því ekki er hægt að gera ráð fyrir að jafn kröftugur hagsvöxtur, sem verið hefur, haldi til lengri tíma. Það er því mikilvægt að verja sem best þá stöðu og taka ekki áhættu.
Það er mikilvægt fyrir kjósendur að geta treyst á að stjórnmálamenn hlaupi ekki undan ábyrgð sinni. Hvort sem er vegna mótlætis í stjórnarsamstarfi eða ótta við axla ábyrgð af landstjórninni. Höfum það í huga 28. október næstkomandi.
Höfundur greinar: Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.