Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að stefna Besta flokksins að láta embættismenn stjórna geti dugað í skamman tíma en leiði til fullkominnar stöðnunar til lengri tíma. Þorgerður Katrín sagði í grein í morgun að Besti flokkurinn sé dæmi um stöðugleika í stjórnmálum, beindi hún sérstaklega orðum sínum að Sjálfstæðisflokknum sem telfli fram orðinu stöðugleiki til að telja fólki trú um að smærri flokkar feli í sér glundroða og upplausn:
„Hann var hvorki stór né gamall flokkurinn sem leiddi borgarstjórn Reykjavíkur frá 2010-14 og þaðan af síður státaði hann af miklum strúktúr. Árin fjögur liðu engu að síður undir styrkri stjórn borgarstjórans, ólíkt kjörtímabilinu á undan þegar „kjölfestuflokkar“ íslenskra stjórnmála héldu um tauminn,“
sagði Þorgerður Katrín. Brynjar svarar henni á Fésbók og segir um Besta flokkinn:
Sá ágæti flokkur hafði enga stefnu og fól embættismönnum að stjórna borginni. Slíkt getur dugað í skamman tíma en leiðir til fullkominnar stöðnunar til lengri tíma. Óþarfi er að rifja upp hvað varð um þann flokk,
segir Brynjar og bætir við:
Að stjórna landinu er ekkert öðruvísi í grunninn og að stjórna lykilstofnunum eða fyrirtækjum. Reynsla og þekking stjórnenda ásamt öflugri liðsheild er lykilatriði til að ná árangri. Ekki eru margir flokkar hér á landi sem státa af slíku liði en ég veit um einn. Sá flokkur hefur lifað nokkuð lengi vegna þess að í baklandi hans er öflugt fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum. Flokkurinn er stundum kenndur við íhaldsemi en hefur þó verið í farabroddi í öllum framfaramálum þjóðarinnar.