„Já [þetta er popúlismi hjá Loga] og svona sérhagsmunagæsla. Upphaflega átti þetta að vera frumvarp um ríkisborgararétt tveggja barna. Síðan er farið í frumvarp af þessu tagi vegna þess að það hefur ekki náð nógu mikið fylgi við þennan ríkisborgararétt, þá er farin þessi leið, sniðin að mjög fámennum hópi. Mér finnst ekkert voðalega mikil góðmennska í því. Mér finnst meiklu hreinlegra ef Logi og félagar myndu bara segja „öll börn á flótta, fá skjól hér“. Ég get ekki stutt það því ég veit að við ráðum ekki við það. En það hefur ekki að gera að ég sé ekki mannúðlegur eins og Logi eða líki illa við börn eða er vondur við börn. Ég er hér til að gæta hagsmuna þessarar þjóðar hér. Ég hef ekkert á móti útlendingum, ég hef staðið fyrir því að rýmkað verði fyrir reglum hér til að útlendingar geti komið hingað til vinnu o.s.f.v. En ábyrgðarleysið í kringum þetta, er algjört. Logi og félagar eru ekkert að hugsa um börnin sem koma með vélinni núna í dag og á morgun…“
Þetta sagði Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í þættinum Bítið á Bylgjunni nú í morgun, þar sat Brynjar inni í hljóðveri og ræddi ásamt þáttastjórnendum við Loga Einarsson formann Samfylkingarinnar í síma um útlendingalögin sem Alþingi samþykkti á síðasta starfsdegi fyrir kosingar. Samtal þeirra Brynjars og Loga hefur þegar vakið nokkra athygli en þeir vanda hvor öðrum ekki kveðjurnar. Segir Brynjar það hafa verið fáránlegt að samþykkja lögin þar sem þau grípi inn í lagasetningu sem allir þingflokkar hafi samþykkt ekki fyrir löngu, það sé ekkert nema lýðskrum. Logi svaraði:
Það er í lagi að Brynjar slengi því hugtaki á mig þar sem hann er nú konungur lýðskrumsins á þingi og kyngir iðulega lýðskruminu þar sem hann er kúskaður til af flokksforystunni [Brynjar flissar]. Þetta frumvarp um ríkisborgararétt var algjör neyðarhemill vegna þess að hér átti að fara burtu með börn á mjög ómannúðlegan hátt, í aðstæður sem við getum ekki ímyndað okkur.
Brynjar greip fram í: „Hvaða neyðarhemil á að nota á börnin sem koma á morgun?“
Lof mér að klára. Í greinargerðinni með því frumvarpi voru hins vegar almenn tilmæli og ábending til stjórnvalda um það til hvers Alþingi ætlaði af því. Ég sé ekkert í útlendingalögunum sem gæti komið í veg fyrir að Útlendingastofnun meðhöndlaði mál með öðrum hætti. Og það er merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að beita fyrir sér einhverri jafnræðisreglu. Það er ekkert að því að menn tali um jafnræði og gagnsæi, en í minnihlutaálitinu þá er talað um „markmiðið um á ná til einstaklinga í mestu neyð og í því samhengi er ekki hægt að taka ákveðinn hóp út fyrir sviga án þess að það bitni á þeim sem síðar koma“… Hvers konar vitleysa er þetta!? Þegar við tölum um þá sem koma í dag og þá sem koma á morgun eins og Brynjar vitnar í, þá búum við einfaldlega til nákvæmlega sömu réttindi og þeir höfðu. Það er rétt að þetta tekur aðeins til ákveðins fjölda einstaklinga, en það var einfaldlega vegna þess að í þessum tímaskorti sem var þá hafði þingið ekki möguleika á því að fara í heildarendurskoðun,
sagði Logi, það sé verkefni sem bíði nýrra stjórnvalda. Aðspurður um það þegar fólk komi til landsins með börn sem eru ekki þeirra börn sagði Logi:
Nú hlýtur lögmaðurinn Brynjar Níelsson að vera sammála mér…
„Það er mjög ólíklegt,“ sagði Brynjar.
… að það er ekki hægt að neita að taka á móti börnum í flótta vegna þess að mögulega muni einhverjir fremja glæpi. Það er þá sjálfstætt mál og þarf að taka á því á sjálfstæðan hátt.
„Það vantar ekkert mannúð í lögin Logi“
Sagði Logi að Rauði krossinn hafi borið það til baka það sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi sagt um slík mál. Varðandi hvort Rauði krossinn sé orðinn of stór hagsmunaaðili til að taka hlutlaust á svona málum sagði Logi það ömurlegt ef þessi umræða leiddi til þess að rætt yrði um hjálparsamtök sem hagsmunasamtök.
Brynjar sagði að það þyrfti að vanda sig þegar kæmi að lagasetningu:
Logi, þá gerum við ekki svona, við frekar bíðum og gerum þetta almennilega. Ef það er vilji löggjafans að landið yrði algjörlega opið og hér yrðu allt aðrar reglur en annarsstaðar, sem eru þó rýmri hér, þá skal bara gera það sómasamlega. Við getum hins vegar ekki sleppt því að hlusta á varúðarsjónarmið. Hér koma menn frá Interpol, Ríkislögreglustjóra, fyrir nefndina, og segja okkur nákvæmlega hvað mun gerast. Það er löggjafinn grípi svona inn í, eru vond vinnubrögð Logi, og þess vegna kalla ég þetta popúlisma, vegna þess að þetta snýst bara um eitthvað svona að sýna „hvað ég sé svona góður og ég sýni mannúð“. Þetta snýst ekkert um það í mínum huga og ef þú ætlar að vera svona góður Logi þá skaltu líka vera góður við börnin sem koma á morgun. Ég efast ekki að þú viljir vera góður við allan heiminn.
Logi bað hann um að nota ekki slík mælskubrögð, þá sagði Brynjar:
Þú notar þau sjálfur. Það er ekki frá mér komið hvað þú ert góður.
„Nei,“ sagði Logi, hann hafi talað um að inn í löggjöfina vanti mannúð.
Það vantar ekkert mannúð í lögin Logi.
Logi sagði þetta lagatæknilegt, þá sagði Brynjar:
Það er ekkert lagatæknilegt að sníða lög að tveimur fjölskyldum, þetta er bara rugl.
„Þá tökumst við bara á það í kosningabaráttunni,“ svaraði Logi.
Svona lög setjum við ekki. Svona gera engar þjóðir nema við,
sagði Brynjar á móti. Logi sagði að nú væri Ísland að takast á við einn stærsta vandamál samtímans:
Við erum að tala um börn og við erum ekkert að standa okkur betur en allir aðrir [Brynjar: „Júúúú“].
„… þó þú þurfir ekki alltaf að vera kyngja ælunni þinni“
Þáttastjórnandi spurði þá hvort þeir hefðu farið inn á Fésbókarsíðuna Matargjöf þar sem beðið er um mat fyrir íslensk börn, hvorki Brynjar né Logi höfðu skoðað þá síðu. Brynjar tók fram að það væri ekki sniðugt að blanda þessum málum saman. Logi sagði að baráttan gegn fátækt íslenskra barna hefði verið áberandi í umræðu Alþingis og er hann viss um að Brynjar og aðrir þingmenn séu tilbúnir í að berjast í málinu. Sagði þáttastjórnandi að margir veltu þessu fyrir sér þar sem margir milljarðar færu í móttöku flóttabarna. Þá sagði Brynjar:
Menn eru auðvitað að velta fyrir sér hvort hægt sé að glíma við þetta vandamál með öðrum hætti en að hér streymi flóttamenn frá hvaða landi sem er til Íslands þar sem Logi ætlar að hafa þetta svona rýmra heldur en allsstaðar annarsstaðar…
„Hættu þessu kjaftæði Brynjar, það er allt í lagi að vera óforskammaður, en ég er ekkert að tala um að gera þetta öðruvísi en aðrar þjóðir“ sagði Logi, þá sagði Brynjar: „Við erum að gera þetta öðruvísi en aðrar þjóðir.“
Logi: „Reyndu einu sinni að vera bara sæmilega….“
Brynjar: „Ekki bara blaðra svona.“
Logi: „… þó þú þurfir ekki alltaf að vera kyngja ælunni þinni.“
Brynjar:
Þetta er bara svona, þú ert að tala um að rýmka þetta, ekki neita því og þetta er nú þegar rýmra og það hefur afleiðingar Logi.
Logi:
Ég er að tala um að rýmka þetta gagnvart börnum.
Brynjar: „Öllum börnum fylgja foreldrar.“
Logi: „Ég ætla ekki að taka þessa umræðu…“
Brynjar: „Vegna þess að þér finnst hún óþægileg.“
Logi sagði þá: „Mér finnst hún ekkert óþægileg“, Vesturlönd beri ábyrgð í þessu máli, þetta sé alþjóðlegt vandamál og staðreyndin sé sú að Evrópa þurfi á innflytjendum að halda og það megi ekki horfa á útgjöld til móttæku hælisleitenda og flóttamanna að þau séu ekki til neins, það sé til að bjarga fólki og muni hafa góð áhrif á samfélagið.
Brynjar sagði að það væri ekki ágreiningur um jákvæð áhrif útlendinga á samfélög, a.m.k. ekki við sig:
Ég held að aðalatriðið í þessu öllu sé að ef eitt land fer að skera sig úr, í meðferð og öllu í kringum þetta, þá muni það skapa slíkan vanda í því samfélagi það hann verði óviðráðanlegur. Þannig að ef þetta verður eins og Logi og félagar vilji stefna í þá verða engar 48 stundir, þá verða ekki einu sinni 48 mánuður. Þá verður vandamálið óleysanlegt, öllum til skaða, flóttamönnum og okkur.
Brynjar sagði enga mannúð að mismuna fólki, það þurfi bara að fara eftir þeim reglum sem séu í gildi. Ef fólk sé ósátt við það þá sé hægt að breyta reglunum, en ekki eins og Logi vilji, sem sé að hugsa um mjög takmarkaðan hóp. Þá sagði Logi:
Nei! Þetta er fyrsta skrefið í því að við tökum á þessu. Þetta er yfirlýsing um að Alþingi ætli að taka á þessu.
Brynjar: „Þetta er engin yfirlýsing, þetta eru lög.“
Sagði þáttastjórnandi að málið væri heit kartafla, þá sagði Logi:
Þetta er heit kartafla strákar en við erum ekki að tala um kartöflur. Við erum að tala um fólk.
Brynjar: „Já já, við erum alveg klárir á því.“