Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata hélt eldræðu þegar hún steig í síðasta sinn í pontu Alþings skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi. Hefur ræðan vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og hefur á annað hundrað manns þegar deilt henni á Facebook.
Birgitta hefur setið á þingi síðan 2009, fyrst fyrir Borgarahreyfinguna og Hreyfinguna, og fyrir Pírata frá árinu 2013. Hún segir í ræðu sinni að á þeim átta árum sem eru liðin frá því að hún settist á þing hafi þingheimur ekkert lært. Sendir hún einnig frambjóðendum í komandi kosningum skilaboð:
Við skulum ekki gleyma því að það var leyndarhyggja og samtrygging gamla Íslands sem varð þessari ríkisstjórn að falli. Það sem varð þessari ríkisstjórn að falli kristallast í þessari málsmeðferð sem við erum með hér núna. Það sem varð þessari ríkisstjórn að falli eins og öðrum ríkisstjórnum sem hafa fallið er að Íslendingar hafa þroskað með sér ríka siðferðiskennd og fundið henni farveg. Það er mikilvægt að hafa það í huga og það er gott veganesti fyrir þá sem eru nú að fara í atvinnuviðtal við þjóðina,
sagði Birgitta og bætti við:
Við erum rétt að byrja að skoða hvað er undir þessum ísjaka. Það er svo mikil spilling og maður skynjar það svo oft hérna í þingsal, í öll þessi ár sem ég hef verið hérna… það er ótrúlegt að fylgjast með vinnubrögðunum. Það er hreinlega ótrúlegt og það er ömurlegt að fylgjast með vinnubrögðunum hérna. Það er ömurlegt. Og það er ömurlegt að verða vitni af því að enn og aftur er verið að skítamixa. Þetta… allt sem við erum með hérna, þessi örfáu mál, þau eru plástrar, við erum ekki að taka á rót vandans eftir öll þessi ár sem við höfum haft til þess að laga hlutina og læra af því sem var orsök og afleiðing hrunsins. Þetta hérna er bara enn ein birtingamynd þess hvernig við höfum ekki lært.
Þetta er skítamix kæru vinir. Kæru þingmenn. Þetta er skítamix!
Hér má sjá síðustu ræðu Birgittu á Alþingi í heild sinni: